Dagur í Vestmannaeyjum

Á tæpri viku eru ýmis veður búin að ganga yfir í Vestmannaeyjum, það er búin að vera vindur, haglél, þoka og mikið meiri vindur. Það er búið að tala mikið um ölduhæð því að slíkt hefur áhrif á ferðir Herjólfs. Og nú sit ég hér og það blæs þéttings vindur á suðurglugganum með verulegum rokum inn á milli og Herjólfur hélt sig heima seinni partinn í dag. Jafnvel gæti orðið svo á morgun líka.


Fyrir mér er það skylduatriði að ganga á Eldfell í hverri einustu ferð minni til Vestmannaeyja. Nú vildi ég æfa mig svolítið í gönguferðum fyrstu tvo dagana sem ég dvaldi hér þannig að ég lét Eldfellsgöngu bíða þangað til ég væri kominn almennilega í gang. Svo þegar ég taldi mig reiðubúinn í þessa "þrekgöngu" var svarta þoka þannig að ég vissi að ég mundi ekki sjá nema 20 til 40 metra þarna uppi, en þá var líka ekki hægt að fresta för. Ég hafði einu sinni áður farið á Eldfell í þoku og vissi af þeirri reynslu að það var alls ekki svo vitlaust að gera það. Svo lagði ég í hann. Ég birti myndina ofan sem ég tók í fyrradag til að fólk geti áttað sig á hvað Eldfell í þoku hefur upp á að bjóða. Svo get ég bætt þvi við að ég gróf svo sem tíu sentimetra djúpa holu með hendinni og á því dýpi var yl að finna.

Burtséð frá veðri og vindum heldur lífið í bænum áfram og nú kem ég að mikilli andstæðu við þessa Eldfellsgöngu mína sem var bara aukaatriði í Vestmannaeyjaferð okkar. Síðast þegar við komum hingað var verið að ferma hana Guðdísi dótturdóttur en við komum hingað að þessu sinni til að vera viðstödd ferminguna hennar Erlu.


Kristinn dóttursonur kom heim úr kirkjunni um hálf ellefu leytið til að sækja okkur, tvö sett af öfum og ömmum, og þegar við fórum út úr bílnum við kirkjuna reif vindurinn í bílhurðir og hreytti regninu inn í betri fötin okkar. Þegar inn í kirkjuna kom hljóðnaði veðrið að öðru leyti en því að það blés dálítið frískt inn um opinn glugga þar sem afi og amma á Reyni sátu. Síðan hófst mjög fallegur sálmasöngur og veðrið gleymdist fyrir utan gnauðið í glugganum.

Fyrir predikunina var skýrt barn. Ég hreifst af föðrunum sem lifði sig svo inn í athöfnina að hann þurfti að þurrka tár af hvarmi, nokkuð sem karlmenn vilja helst ekki gera vegna þess að það er ekki karlmannlegt. Samt er það karlmannlegt að þorað að gera það. Svo söng kórinn aftur og svo talaði presturinn. Þegar hann talaði um að hann hefði slegið golfkúlu svo langt frá holunni á golfvelli vestur í bandaríkjunum að kúlan hefði lent inn á öðrum golfvelli fór ég að brjóta heilann um hvað hann væri eiginleg að tala um yfir fermingarbörnum.

Svo sagði hann frá löngu þekktum golfleikara í Bandaríkjunum sem var á góðri leið með að vinna ákveðinn stórsigur annað árið í röð -á sama golfvelli. Þeim golfleikara varð líka á að slá kúluna langt úr leið. Þar sem hann gekk aleinn að kúlunni rúllaði kúlan frá þeim stað þar sem hún fyrst stoppaði, væntanblega niður einhvern halla, en þetta sá enginn nema hann. Hann hefði getað þagað en hann gerði það ekki. Hann sagði frá því að kúlan hefði runnið til og honum var dæmt einhvers konar víti og hann vann ekki leikinn. Hann valdi heiðarleikann og hefur væntanlega sofið vel nóttina eftir.

Svo söng kórinn meira og ég hreifst af fallegum söngnum og fallegum sálmum og versum. Ég hreifst af athöfninni allri. Ég varð hrærður inn á milli og þegar presturinn bað alla að biðja með sér bæn sem mamma kenndi mér þar sem hún sat við rúmstokkinn yfir mér fyrir meira en 60 árum varð ég svo klökkur að ég gat ekki byrjað fyrr en inn í miðri bæn.

Vertu Guð faðir faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Kannski finnst einhverjum að þetta sé kellingarlegt af karlmanni. Ég er þó ekki viss um að honum Guðlaugi Friðþórssyni sem synti heim í fimm eða sex tíma í frosti og vetrarmyrkri eftir að bátur hans fórst þyki það kellingarlegt. Hann sem talaði við múkkann og Guð á leiðinni heim og horfði á stjörnuna sem lýsti yfir honum allan tímann. Akkúrat þetta hugsaði ég í kirkjunni og styrktist í því að hið góða væri til og einnig það að heiðarleiki golfleikarans væri nokkuð að taka til fyrirmyndar.


Nú er búið að ferma hana Erlu dótturdóttur og svo tók hann Kristinn bróðir hennar þessa mynd þar sem afar og ömmur slógu skjaldborg um hana í fermingarveislunni hennar. Nú verð ég að nefna nöfn. Frá vinstri Valdís amma, Erla amma á Reyni, Erla fermingarstúlka, Jón afi á Reyni og Guðjón afi. Gangi þér allt í haginn Erla mín. Þar veit ég að ég fer rétt með fyrir hönd okkar allra á þessari mynd.



Meðan á fermingarveislunni stóð bætti í vindinn og það gekk á með éljum og skúrum. Slíkt tilheyrir í Vestmannaeyjum og þó að það sé fermingardagur stöðvar Guðinn sem hann Guðlaugur Friðþórsson talaði við á sundinu ekki framgang veðursins. Eftir athöfn og veislu fórum við nokkur í skoðunar- og ljósmyndaferð. Myndirnar neðan eru ávöxtur þeirrar ferðar, teknar af mér og Jónatan tengdasyni mínum og föður fermingarstúlkunnar.


Þarna má segja að brimið stefni á Herjólfsdal. Hann Sveinn sjómaður og föðurbróðir fermingarstúlkunnar taldi þetta ekki mikið brim en það mundi að öllum líkindum verða meira á morgun þegar Herjólfur ætti að fara að hita upp vélarnar fyrir morgunferðina til Þorlákshafnar.


Þessi mynd og næstu fjórar eru teknar austan við Stórhöfða.








Þarna niður undir fjörunni má greina ellilífeyrisþega á brúnum vetrarjakka. Hann þorði ekki að hafa á sér húfuna þar sem hún hefði getað fokið á haf út. Þessa mynd tók auðvitað Jónatan tengdasonur ellilífeyrisþegans.

Ég þarf að blogga aftur um þennan dag og birta myndir af fleira fólki en það verður að bíða heimkomunnar til Svíþjóðar. Kukkan er orðin hálf eitt og allt er hljóðnað í húsinu. Fermingardeginum er lokið og vindurinn gnauðar á húsinu. Vinurinn Óli Lokbrá er greinilega tilbúinn að taka á móti mér og ég hugsa að það sé best að biðja að lokum bænina sem presturinn bað okkur að biðja með sér í dag.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0