Sumarið er komið til að vera

Sumarið er komið til að vera sagði veðurfræðingurinn áðan og ekki harma ég það. Snemma í fyrramálið fer ég í vinnu, en nú er langt síðan ég hef verið á þeim slóðum. Ég held bara að ég verði feiminn að koma þangað eftir ellefu vikna fjarveru. En nei, ég verð ekki feiminn. Ég kann mig í Vornesi og ég veit að ég verð boðinn velkominn þangað. Mér finnst sjálfum að þessi vinna sé eina vinnan sem ég raunverulega kann. Ég hef gert ýmislegt um dagana sem ég hef kunnað verr en að vinna með alkohólistana. Það hefur skeð áður að ég hef komið til vinnu í Vornesi eftir langt hlé, en um leið og ég kem inn fyrir veggina þar er ég á heimavelli. Sjúklingarnir verða forvitnir. Margir, flestir, hafa heyrt um mig án þess að hafa hitt mig og það eru sérstsaklega sjúklingarnir sem koma nú til með að óska mig velkominn.

Ég hef lítið gert í dag finnst mér. Það er líka sunnudagur. Við vorum þó í IKEA í Marieberg í dag og pöntuðum eitt stykki eldhúsinnréttingu. Þegar við komum heim dreif ég mig í að færa tvo hlyni úr skóginum og á vesturmörk lóðarinnar í staðinn fyrir hlynina sem hérarnir átu í fyrra. Þetta er ég búinn að segja áður, en málið var bara að fyrir mér var það sumarkoma að gera þetta í 17 stiga hita. Hlynirnir verða til inni í skóginum eins og flugurnar kringum góðan mat undir berum himni. Og hratt vaxa þeir og auðveldir eru þeir til flutnings.

Á morgun ætla ég að hringja í málara. Við urðum sammála um það í dag að láta þá vinnu í hendurnar á öðrum. Það er margt að gera á Sólvöllum og það er best að deila út vissum verkum til þeirra sem eru fljótari og betri fagmenn á sviðinu.

Nú finn ég að hárið á mér er orðið þurrt eftir þvottinn og þar með get ég hætt að skrifa og lagt mig á koddann þar sem Óli Lokbrá bíður mín. Ég held að hann sé þegar orðinn félagi Valdísar sem situr í djúpum stól þar sem hún var að horfa á íþróttir. Við heyrumst næst þegar við heyrumst.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0