Ingólfur Margeirsson

Ég var að blogga í gærkvöldi eftir heils dags vinnu við eldivið. Þá komu skilaboð frá Rósu dóttur minni; hefurðu heyrt um Ingólf Margeirsson? Nei, það hafði ég ekki gert. Þá sendi hún mér tvo hlekki á fréttir um andlát hans. Bara spurningin fékk mig til að gruna hvað hefði skeð.

Ég man það eins og það hefði skeð í gær þegar ég var að slá og snyrta á lóðinni í Sólvallagötunni í Hrísey í september 1993. Það vildi alltaf vera frekar ruslaralegt í suðvestur horninu og einmitt þar var ég. Svo kom Valdís í dyrnar og kallaði til mín að Ingólfur Margeirsson hefði hringt og vildi tala við mig.

Þegar ég kom í símann gekk hann beint til verks og sagði að ég væri að leita að vinnu. Jú, það stemmir. Hvað segirðu um að fara til Svíþjóðar og vinna þar?

Jahá, hvað segir maður þá? Fimmtíu og eins árs - alls ekki talandi á sænsku. Er þetta grín? Ég vissi reyndar að þetta var ekki grín og vegna þess að það var Ingólfur sem spurði tók ég þetta alvarlega. Ég vissi að hann hafði lífsreynslu sem ég hafði ekki, lífsreynslu sem gerði það að verkum að hann vissi hvað hann var að tala um og hann var að tala um það við mig. Hratt runnu hugsanirnar gegnum hugann og af einhverri ástæðu stóð Valdís fyrir framan mig og fylgdist grannt með samtalinu. Svo leit ég á hana og sagði henni að Ingólfur spyrði hvort við vildum prufa að flytja til Svíþjóðar til að vinna.

Valdís sagði ekki nei og viku seinna var þetta afráðið. Nú sit ég hér á sunnudagsmorgni og minnist Ingólfs. Vinalegum skógarsóleyjunum fjölgar dag frá degi í skóginum hér að baki húsinu en Ingólfur er horfinn, farinn í sína síðustu ferð hér í jarðríki. Við höfðum all mikið samband þangað til við fluttum út. Einstaka sinnum fór tölvupóstur milli okkar og sérstaklega einu sinni sendi hann mér langt tölvubréf með fréttum af mönnum og málefnum, til dæmis að hann hefði keypt fyrrum húsið okkar í Hrísey, Bjarg. Ég hugsa að það sé upp undir ár liðið síðan ég fékk tölvupóst frá honum þar sem hann spurði eftir heimilisfangi og síma og þar sagði hann líka að Jóhanna kona sín hefði verið á ferðinni í Svíþjóð. Ég fæ hugsanlega aldrei svar við því hvað hann var að hugleiða þá.

Áhrif Ingólfs á líf okkar Valdísar er meira en flestra eða allra annarra sem komið hafa við sögu. Til dæmis ef Ingólfur hefði ekki hringt í september 1993 sæti ég ekki hér við austurglugga við skógarjaðar í mið Svíþjóð og minntist hans með nokkrum orðum. Þá hefði ég ekki heldur unnið við eldivið í gær. Það sem hann kom af stað með þessu símtali er ferð sem enn stendur yfir, ferð sem ekki bauðst fólki almennt á okkar aldri og ferð sem hefur gert okkur kleift að kynnast víddum í lífinu sem voru auðvitað utan alls mögulegs raunveruleika fram að nefndu símtali. Þakka þér fyrir Ingólfur og góða ferð.

Skömmu fyrir brottförina til Svíþjóðar borðuðum við kvöldmat heima hjá Ingólfi, Jóhönnu og Jónasi sem þá var bara lítill drengur. Eftir matinn var Jónas háttaður og lagður í litla rúmið sitt. Svo komu Ingólfur og Jóhanna fram til okkar og sögðu að Jónas vildi segja góða nótt við okkur líka. Þegar við komum inn til hans þar sem hann lá svo ljúfur og prúður í rúminu sínu teygði hann hendurnar upp á móti okkur og hann vildi taka utan um hálsinn á okkur til að segja góða nótt. Þegar við komum aftur fram til þeirra hjóna sagði ég frá þessu. Þá sagði Ingólfur á þá leið að þeim hefði tekist að gefa þessum dreng tryggð og öryggi í lífinu og hann nyti þess í dag, það merktist vel hjá honum. Á því augnabliki runnu margar hugsanir gegnum hiuga minn -hvernig hafði okkur, mér, tekist til við að skapa tryggð og öryggi?


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0