Valborgarmessa

Í dag er Valborgarmessa sem jafnast eitthvað á við síðasta vetrardag eða sumardaginn fyrsta á Íslandi, en ég skal viðurkenna að ég veit varla hvernig þetta er hugsað hér. Hins vegar segir fólk hér ekki gleðilegt sumar. Það eru haldnar brennur víða, eða þannig að fólk brennir hrís og greinar sem fellur til við klippingu runna og trjáa og það sem til fellur þegar fólk rakar lóðina sína eða garðinn. Síðan brennir fólk burt veturinn. Kórar syngja gjarnan og stjórnmálamenn halda tal. Þannig lítur það út en við Valdís erum heima.

Við höfum aldrei brennt hrís eða greinum á Valborgarmessu. Það bara hefur ekki passað við daginn og svo er það hjá mörgum. Fólk brennir gjarnan seinna. Í ár brennum við engum greinum þar sem við höfum tvær gryfjur út í skógi sem taka við öllum greinum sem til falla í ár og hafa gert nokkur fyrri ár. Ekki veit ég af hvaða ástæðu þessar gryfjur eru þarna en við höfum tekið þá ákvörðun að telja þær ekki hafa menningarlegt gildi. Í gær, föstudag og á miðvikudaginn var, felldum við samtals tólf tré. Að hluta til voru þau fellt til að hafa í eldinn eftir tvö ár en eignlega voru þau meira felld í grisjunarskini. Í nefndum gryfjum verður mikið góður jarðvegur innan fárra ára. Við köstum líka kalki í þær öðru hvoru.
 
Það er snarvitlaus tími til að fella tré núna en ég tók til mín orð fyrrverandi vinnufélaga á mínum aldri sem sagði að ef maður getur af einhverri ástæðu ekki fellt tré á réttum árstíma, þá fellir maður þau þegar maður hefur tíma. En þá verða þau líka seinna tilbúin sem eldiviður. Ég ætla að taka stund og stund í að afgreina þessi tré og bera greinarnar í gryfjurnar. Síðan bindum við vonir við að Rósa og Pétur verði okkur innan handar við að koma viðnum heim. Við erum að vísu að laga til í kringum okkur eftir byggingarhamagang vetrarins, en málið er þó að byggingarframkvæmdirnar eru enn í gangi og það liggur mikið við. Það þarf að sparsla, mála, leggja parkett og setja síðan upp eldhúsinnréttingu.

Þetta verður að komast í kring áður en konan sem hefur fylgt mér í fimmtíu ár gefst upp á mér. Ég er að vísu nýbúinn að kaupa góðan blómvönd, en góðir vendir geta ekki bjargað mér fyrir horn endalaust. En í fullri alvöru; málarinn kemur á þriðjudaginn. Tiltektin varð ekki umflúin og það vorum við sammála um. Í staðinn réðum við málara. Ég er búinn að nota talsverðan tíma til að naglhreinsa borðvið sem var undir einangruninni í gamla gólfinu, saga hann niður í lengdir og kljúfa. Síðan er ég búinn að raða megninu af þessm við undir þak og síðan er hægt að taka hann og kynda með hvenær sem er. Það er kannski spurning hvort það er dyggð eða bjálfaháttur að eyða vinnu í þetta. Ég vel þó að nora orðið dyggð. Við viljum fara vel með. Það hefði líka verið hægt að flytja þetta allt á næstu endurvinnslu, með nöglum og í einni voðans óreiðu. Síðan hefði því verið brennt með nöglum í kraftverkinu í Örebro sem kyndir upp allt Örebrosvæðið. Mér finnst það næstum villimannlegt ef við brenndum hér heima ónaglhreinsuðum eldiviði. Allan gamla panellinn utan af gamla húsinu fluttum við naglhreinsaðan á endurvinnsluna í Örebro. Hann var allt of mettaður af málningu til að nota sem eldivið heima. Dyggðir er hægt að iðka á margíslegan hátt.

Í gærmorgun sá ég að fæðingin varkomin af stað. Ég reiknaði með að ég mundi líta barnið þegar ég kæmi á kreik í morgun. Svo þegar ég kom út í morgun var það alls ekki svo. Það var bara rétt að byrja að sjást í höfuðið og svo var það enn þegar rökkrið settist að nú í kvöld. Hvað er nú maðurinn að fara? Jú, ég er að tala um beykið sem er byrjað að springa út. Það er spennandi tími. Ég hélt að þessi ótrúlega fallegu, litlu blöð mundu opnast í dag, en svo varð þó ekki. Ég kenni um þurrum jarðvegi eftir tveggja vikna hita og það verður varla um annað að ræða en við Valdís stígum regndansinn á lóðinni á morgun þann 1. maí.



Kommentarer
Þórlaug

Munið nú að fá einhvern til að mynda dansinn og setja hann svo á bloggið :-)



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2011-04-30 @ 23:50:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0