Heima á ný

Í gær lauk Íslandsdvölinni með því sem er eitthvað það versta við Íslandsferðir; að vakna alveg óhuggulega snemma. Það er eitthvað sem ég fer að hugsa til löngu fyrir brottför ef ekki bara í upphafi ferðar. En alla vega, þetta tókst og við liðum í loftið á tilsettum tíma.

Svíþjóð tók vel á móti okkur og þá vorum við að verða búin að gleyma fóteferðatímanum. Þegar við komum út undir bert loft á Arlandafrlugvelli var logn, 14stiga hiti og sólin brosti móti okkur. Alveg var það dásamleg tilfinning og gleðin kitlaði notalega í brjóstinu. Rósa dóttir okkar var mætt með bílinn okkar á Arlanda og einhvern veginn var allt kunnuglegt og það var notalegt að vera á leiðinni heim.

Hannes Guðjón brosti líka þegar við komum til Stokkhólms og eftir nokkra dvöl þar héldum við áleiðis til Örebroléns. Innan tíðar tók Óli Lokbrá sér pláss í bílnum og það var erfitt að komast undan mildum áhrifum hans. Kannski veit hann ekki að það er erfitt að aka bíl í nærveru hans en það var einfaldlega svo að það var mjög erfitt. Því var ekki um annað að gera en að stoppa á góðum stað, hreifa sig og drekka vatn. Eftir það náði hann engu valdi á mér en konan sem sat við hliðina á mér var eitthvað á valdi hans heyrðist mér. Það fór líka betur á því að það var hún sem gaf  Óla tök á sér.

Þegar við komum til Sólvalla var farið að kvölda og hitinn heldur minni. Krókusarnir tóku á móti okkur á framlóðinni en bakvið húsið brostu hvítar skógarsóleyjarnar, en þeirra tími er að byrja. Seljurnar voru þaktar sínum heiðgulu reklum og heggurinn var að byrja að laufgast. Það var strax ljóst að ég yrði að fara eina hringferð um skóginn áður en deginum lyki. Konan sem hafði hvílst við hlið mér í bílnum lagði mat á borð í bráðabyrgða matkróknum sem var líkur því sem hann var þegar við lögðum í Íslandsferðina. Við vorum greinilega heima.

Einhvern veginn var að mörgu að hyggja og ég fór ekki í skógargönguna fyrr en birtu var að byrja að bregða. Þó sá ég að brumhnappar voru orðnir þrýstnir, sérstaklega á hestkastaníunni sem bar stolt sína stóru brumhnappa sem glönsuðu af límkenndu efni eins og þeir væru aldeilis nýlakkaðir með glæru lakki. Mikið meira af eikarplöntum höfðu sloppið heilar frá elgjum og dádýrum nú en í fyrra. Það gladdi mig mjög.

Útlitið á Sólvöllum var gott við heimkomuna, betra en við áttum von á, en það er þó talsvert átak framundan við að taka til eftir byggingarframkvæmdir. Í dag hef ég verið að naglhreinsa efnið sem kom úr gamla gólfinu og kastað var út um það bil fyrir tveimur mánuðum. Við ætlum að nota það til upphitunar næsta vetur. Ég ætlaði að komast á fulla ferð í dag en tókst það ekki alveg en ég er þó alla vega kominn af stað. Valdís hefur hins vegar tekið upp úr töskum, þvegið þvott og komið ýmsu í röð og reglu. Í gærkvöldi vorum við ákaflega þreytt og Óli hafði okkur í greipum sínum í eina tíu tíma samfleytt.

Veðurstofan spáir 14 til 20 stiga hiti um helgina og froskar og salamöndrur eru að koma á stjá og búa sig undir samlífið. Myndir voru sýndar af áköfum ástarleikjum stórra hópa svo að þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það kom ekki vorfiðringur í ellilífeyrisþegann líka.

Í kollinum á mér er geymt efni frá Íslandsferð sem ég hef hugsað mér að koma á prent einhvern næstu daga.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0