Ungt fólk í Perlunni

Það er ótrúlegt en það er bara staðreynd -það eru 52 ár síðan um 40 nemenda hópur fólks útskrifaðist frá Skógaskóla. Það var 1959. Í gær kom um helmingur þessa hóps saman í perlunni og spjallaði saman yfir kaffibolla og brauðbita og spjallaði um hvaðeina milli himins og jarðar. Ég verð nú bara að segja að þessi hópur var ótrúlega bjartur yfirlitum og að kvarta yfir örlögum sínum var hreint alls ekki með á dagskránni. Það var uppörvandi að geta verið með um þetta og ég er þakklátur fyrir að skipuleggjendur dagsins skyldu miða þessa dagssetningu við heimsókn mína til Íslands.


Þarna er Guðbrandur úr Mýrdal og næstur Björn Jóhannsson úr Reykjavík. Síðan situr Íris Bryndís frá Ljósafossi fyrir endanum og Bergur úr Meðalandi brosir breitt móti Gunnþórunni frá Kópaskeri. Milli þeirra situr Sigríður Þórarinsdóttir frá Spóastöðum í Biskupstungum.


Kristín Guðmundsdóttir, Kiddý, frá Hvolsvelli er líklega að tala við Guðbjörgu frá Kópaskeri á þessari mynd en Bjarni frændi minn Ólafsson úr Kóavogi spjallar hins vegar við Sigrúnu Erlendadóttur, Soffíu Ólafsdóttur úr Garði og Sigríði Pálsdóttur einnig úr Garði. Að lokum er Kristinn Kjartansson úr Reynishverfi í Mýrdal lengst til vinstri og hann fylgist með Guðbjörgu og þar með lokast hringurinn á þessari mynd.


Skaftfellingurinn Kristinn Kjartansson mundar myndavélina sína. Lengst til hægri eru þær Kristín Eggertsdóttir úr Vík og Edda Michelsen frá Hveragerði. Bjarni Ólafsson frændi minn, Ingvar Árnason frá Skógum og Bergur Ingimundarson eru fyrir miðri mynd að ræða málin. Svo var ég sjálfur þarna kominn úr sveitinni austur undir Skeiðarársandi, Fljótshverfi, en þar sem ég er bakvið myndavélina er ég ósýnilegur



Hvað á ég svo að segja um þessa samkomu okkar þarna í Perlunni? Jú, til dæmis að ég var stoltur af að tilheyra þetta þó stórum hópi af myndarlegu, bjartsýnu og glöðu fólki. Þarna var skrifstofufólk, hjúkrunarfræðingur, kennarar á menntaskóla- og háskólastigi, bankakona, verslunarmaður, loftskeytamaður, matreiðslukona, tannsmiður, áfengisráðgjafi, mæður og feður, ömmur og afar. Ég heyrði engan tala um heilsuleysi, eymd eða erfiðleika. Margir af þessu fólki, sjálfsagt allir, hafa gengið í gegnum erfiðleika, sorg eða veikindi -en- enginn hafði látið það buga sig, enginn var brennimerktur af því. Lítið bara á myndiranar, þær tala sínu máli.

Já krakkar mínir. Ég held að það sé einhver villa í útreikningum eða ártölum. Það er einfalt að reikna út hversu gamalt fólk á að vera í dag sem skrifaðist út úr gagnfræðaskóla fyrir 52 árum. En sem sagt, andlitin eru ekki mótuð af aldri. Kona úr hópnum sagði eftir að við hittumst austur í Skógum fyrir tveimur árum að við hefðum einu sinni verið ung og falleg en að nú værum við falleg. Það var fallega sagt og við getum sjálf gert mikið til að standa undir því.

Ég tel það mikla gæfu að hafa hafnað í heimavistarskóla á sínum tíma. Það var ekki bara bóklegt nám sem þar fór fram. Mikið höfðum við gott af því að hann Snorri gerði okkur spengilegri með leikfimikennslunni, sérstaklega okkur sem komum úr sveitum þar sem engin leikfimi var. Mikið höfðum við gott af því að læra að umgangast í heimavistarskóla með 100 nemendur og að læra að pressa og strauja fötin okkar. Mikið vorum við heppin að hafa hann Jón Hjálmarsson sem vildi okkur svo vel að hann gerði sig oft á tíðum óvinsælan með viðleitni sinni til að vernda okkur frá öllu illu. Ég gæti haldið lengi áfram með þessa upptalningu en ég segi bara að ég er mikið þakklátur fyrir þennan tíma.

Þakka ykkur öllum fyrir samveruna í Perlunni í gær og mér þykir vænt um ykkur öll.


Ps. Ég segi hvaðan fólkið er ættað en ekki hvar það býr í dag. Ef ég fer með rangt mál vil ég gjarnan að einhver kommenteri og leiðrétti mig.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0