Broddi

Hún Þórlaug stórvinkona okkar spurði um daginn hvort ég ætlaði ekki að sýna myndir úr Sólvallaskóginum. Nú hef ég verið að vinna alla daga þessa viku og sannleikurinn er sá að ég hafði engan kraft afgangs til að taka myndir eða blogga. Í vikulokin, í gærkvöldi, var ég bara búinn að vera. En nú er það svo að við þurfum að gera skattaskýrslu og undan því verður ekki komist. Í gærkvöldi var skattasýrslukvöld og ég var farinn að dotta yfir tölum yfir byggingarkostnað sem Valdís las upp og ég tikkaði inn á farsímann sem var reiknivél kvöldsins.

Ég veit að ég sofnaði rétt um klukkan ellefu. Einhvern tíma í nótt vaknaði ég vegna þess að ég var alveg í spreng. Þegar ég kom til baka í rúmið alveg grútsyfjaður birtust mér tölur frá kvöldinu og allt í einu fékk ég áhyggjur af peningum. Þetta var í óraunveruleika næturinnar og þegar ég vaknaði rétt um klukkan níu var raunveruleikinn tekinn við og peningaáhyggjur voru foknar út i hafsauga. Búinn að sofa í tíu tíma hugsaði ég, og var makalaust hissa. Þá hef ég verið þreyttur kom ég fram til. Þá var bankað á útihurðina. Ég fór í buxurnar á flugi og setti skyrtuna yfir herðarnar.


Þegar ég kom fram að útihurðinni sá ég að hún Stína nágranni var komin með systurnar Siw tveggja ára til vinstri og Ölmu til hægri og hún er oðin stærðar stelpa, fimm ára. Og með þeim var amma frá Dalsland sem var í heimsókn. Nú voru Siw og Alma svokallaðar páskakerlingar, málaðar og færandi heimagerð páskakort. Við slík tækifæri á fólk að eiga sælgæti. Þegar þær tóku varlega eina og eina karamellu úr fötu hjá Valdísi fannst Valdísi það ganga of hægt. Hún tók því fulla hnefa úr sælgætisfötunni og setti í körfuna hjá systrunum. Þá sagði Stína mamma að Valdís væri klikkuð eins og venjulega. Svo var voða gaman og þessar fjórar konur héldu af stað í átt að næsta húsi þar sem þær auðvitað bönkuðu upp á.

Það var gott að vakna svona og nú var bara að borða morgunvderð og svo drifum við okkur inn til höfuðstöðvar Mammons í Marieberg þar sem við keyptum eitt stykki eldhúsinnréttingu. Hjálplegt var fólkið þar, menn og konur frá unga aldri upp til fólks á miðjum aldri. Svo héldum við heim á leið með minningar um mörg bros og eldhúsinnréttingu á kerrunni. Meðan ég bar inn bakaði Valdís pönnukökur og svo borðuðum við pönnukökur með rjúkandi kakói. Namm, namm. Á morgun verður væntanlega annar í pönnukökum.

En nú komum við að myndunum sem ég ætla að sýna henni Þórlaugu. Ég fór út með myndavélina en Valdís var líka búin að taka myndir í þessu skini í vikunni. Þegar ég stóð við hlyn hérna bakvið húsið heyrði ég skrjáfa í lyngi fyrir aftan mig og hvað gat það nú verið? Það var nokkuð alveg óvænt sem ég segi ekki meira um í bili.


Þessa mynd tók Valdís af skógarsóleyjarhafi í vikunni. Ég vona að þær komi sæmilega út þegar ég birti bloggið, en það er ekki svo auðvelt að ná góðri mynd af svona breiðu af smáum blómum.


Hér er svo nærmynd sem Valdís tók líka. Þessi snyrtilegu blóm brosa svo ótrúlega fallega á hlýjum sólskinsdegi og þær eru svo indæll vorboði.


Hér er hlynurinn sem ég var að mynda þegar ég heyrði einhvern vera að snuðra fyrir aftan mig. Hlynurinn myndar blómin fyrir laufgunina en blómin eru þó svo mörg að tilsýndar er hann búinn að fá á sig daufan grænan lit. Þegar blöðin svo eru fullvaxinn eru þau um 15 sem í þvermál. Þá myndar krónan skemmtilegt þak þegar staðið er undir henni.


Hér gefur að sjá útsprungið brum á hestkastaníu eins og það leit út í dag.


Hér eru frælengjur á hengibjörk. Þessa keyptum við fyrir einum þremur eða fjórum árum og nú virðist hún vera fullbúin að fjölga sér og það í ríkum mæli. Eins og vel sést er stofn stærri trjánna nakinn langt upp vegna þess að þegar við komum hingað var skógurinn allt of þéttur bakvið húsið og of mikið greni í honum líka. Nú eru sjálfsánar plöntur og plöntur sem við höfum gróðursett að byrja að fylla vel upp í þetta. Þegar við höldum upp á 75 ára afmælin okkar með opnu húsi í heilt sumar verður skógurinn orðinn mikið fallegri en hann er í dag. Það tekur tíma að gera skóginn sinn fallegan.


Hér er aftur venjuleg björk sem stendur á vesturmörkum lóðarinnar við veginn. Þannig lítur það út í dag. Sé horft á hreinan birkiskóg er han orðinn all grænn en í skógi eins og hjá okkur sem er mjög blandaður er græni liturinn ekki orðinn ráðandi þar sem til dæmis eik er aðeins sð byrja að springa út. Öspin er sein og askur ennþá seinni. Askur laufgast seinast allra lauftrjáa hér og fellir laufið fyrstur. Beykið er í þann veginn að springa út og því fylgist ég vel með. Við horfum mikið á einstaklingana og ekki bara skóginn. Að fylgjast með einstaklingunum gerir vorkomuna svo mikið stórkostlegri, skemmtilegri og meira spennandi.

Að lokum komum við svo að honum sem snuðraði í bláberjalynginu á bakvið mig áðan. Það var reyndar hann Broddi.


Það best ég veit er það mjög snemmt að broddgeltir skuli vera komnir á kreik en það skal ég kynna mér. Þessi friðsælu, sérkennilegu dýr sem ekki hafa breytst í hundrað miljón ár eða hvað það nú er, eru velkomin alls staðar. Ég sótti Valdísi og þegar við gengum að honum varð hann bara að jafnri kúlu. Svo þegar við stóðum kyrr hjá honum lyfti hann höfðinu og leit upp til okkar. Það var eins og hann vildi sjá framan í okkur.

Í dag hefur verið um og aðeins yfir 20 stiga hiti. Vikan hefur öll verið hlý. Þessi hlýja vorkoma er mjög snemma á ferðinni. Veðurspáin gerir ráð fyrir þessu veðri áfram.


Kommentarer
Þórlaug

Takk fyrir myndirnar Guðjón, það er gaman að fylgjast með gróðrinum.

Hér á Akureyri er búið að vera gott veður þessa viku, oftast hiti og sólskin og brumin eru komin á trén. Á morgun förum við aftur suður, þar er veðrið búið að vera eins og þið kynntust um daginn og í dag er spáð veðri eins og lét ykkur bíða í Eyjum um daginn. En það kemur líka vor þar bráðum.



Bestu kveðjur og gleðilega páska,

Þórlaug

2011-04-24 @ 11:17:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0