Ungir menn

Árið 2009 hittumst við í Skógum meiri hluti nemenda sem útskrifuðust frá Skógaskóla árið 1959. Eitt og annað hafði fólk með sér til að sýna hvert öðru og þá sá ég hjá henni Soffíu skólasystur minni mynd af mér og öðrum ungum manni, mynd sem ég á ekki sjálfur hvernig sem á því nú stendur, en hins vegar kannaðist ég við tilurð myndarinnar þegar ég sá hana. Sennilega hef ég týnt mínu eintaki. Svo hittumst við all mörg úr þessum hópi aftur í Perlunni einn laugardagseftirmiðdag í byrjun apríl þegar við Valdís vorum í Íslandsferð okkar. Um það bloggaði ég á sínum tíma og birti myndir. Þá bað ég um að fá myndina senda í tölvupósti. Svo í morgun þegar ég leit í tölvupóstinn var myndin komin. Það var stórgóð byrjun á degi fannst mér þegar ég virti þessa mynd fyrir mér og hugsaði hálfa öld til baka og minnast lífsins eins og það var þá. Síðan ákvað ég að nota þessa mynd á bloggið og láta hugann fljúga um löngu liðin ár. Og þó, kannski væri bara best að nota þessa mynd á jólakort um næstu jól :) Eða hvað? Ég á fullt af öðrum myndum til að nota á bloggið mitt.


Til dæmis þessa hér. Við systkini mín nokkur sem nálæg voru á höfuðborgarsvæðinu og systur Valdísar ásamt mágum og mágkonum hittumst í Perlunni, einnig í sömu Íslandsferð, og áttum þar saman síðdegisstund yfir brúnni tertu. Það er svolítill munur á okkur Valdísi konu minni á þessari nýju mynd eða var fyrir hálfri öld. Ég verð þó að segja að mér finnst ég ekki gamall og ef ég er ekki að elta það sem síður er hef ég mikið með það að gera hversu gamall mér finnst ég vera. Svo held ég að útlitið fari eftir sömu hugsun. Ég tel þetta góða heimspeki og ég gæti vel sagt nokkur dæmi um það að mér finnst ég ekki vera gamall. Ég er ánægður með útlit okkar á þessari mynd.


Hérna erum við tveir Kálfafellsbræður, reffilegir kallar eða hvað, og það er Páll bróðir sem ræðir málin við Valdísi. Ég á fleiri myndir af þessum tertufundi í Perlunni þann 13. apríl og mun nota eitthvað af þeim á næstunni.

En heyrðu, myndin sem ég talaði um í byrjun hefur slæðst hérna með. Alveg merkilegt!


Hér eru tveir brilljantíngreiddir menn í byrjun vetrar 1959. Sjáið ártalið. Svona litu ungir menn út á þeim árum. Hvað ætli nútíma unglingum þyki um þessa mynd? Ég man það örugglega að það var mikilvægt að þessi mynd tækist vel. Ekki man ég hvað mér þótti til um hana þá, en í dag finnst mér hún vera alveg frá bær. Það er Björn vinur minn Jóhannsson úr Reykjavík sem er þarna til vinstri með mér á myndinni. Ég er feginn að þessi mynd hefur varðveitst og að hún hefur borist til mín á ný. Ég var svo búinn að steingleyma að hún hefði verið tekin

Það voru stórir draumar um lífið á þessum árum og ég man vel að ég ætlaði að nota mína bestu hæfileika til góðs bæði fyrir mig og mannkynið. Allt fram undir það að þessi mynd var tekin ætlaði ég að verða læknir. Síðan hefur runnið mikið vatn til sjávar, lífið varð ekki eins og draumarnir höfðu stefnt að og aldrei varð ég læknirinn. En þegar ég nú lít yfir farinn veg græt ég ekki og margt gott og nytsamt hefur áunnist sem ekki var með í draumunum. Skólaárin voru góð ár og lífið var forvitnilegt og spennandi, strákarnir góðir og hressir félagar og skólameyjarnar svo fallegar að það gat verið erfitt að einbeita sér að fullu námi.

Ég er enn að læra og ætla að halda því áfram enn um sinn. Í hvert skipti sem ég les góða setningu, staldra við og hugleiði hana er ég að læra. Í hvert skipti sem ég hitti manneskju sem hefur áhrif á mig er ég að læra. Í hvert skipti sem ég fer í vinnuna og heyri sjálfan mig allt í einu segja eitthvað sem kemur mér á óvart finn ég að ég hef lært eitthvað nýtt. Lífið verður lærdómsríkt og spennandi svo lengi sem ég einbeiti mér að því að gera gott úr því.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0