Loft í skralli - loft í bata

Stundum er ég kannski full smáatriðasamur varðandi framkvæmdir okkar á Sólvöllum en það er líka fólk sem er virkilega að fylgjast með því sem fram fer og auðvitað verða að fylgja þessu dálítið faglegar myndir öðru hvoru. Nú eru þáttaskil eins og svo oft og smiðirnir sem hér hafa verið munu ekki koma næstu vikurnar að minnsta kosti og mögulega er vinnu þeirra lokið hér.


Hér er loft í skralli. Ég var búinn að segja frá gólfframkvæmdunum og þegar ég gerði það sagði ég líka frá því að þegar síðasta platan var komin í gólfið þá féll loftið niður -af manna völdum. Síðan fékk ég þrjá daga, einn til að hvíla mig og tvo til að undirbúa vinnu við nýtt loft.


Hér er loft í bata. Þessum límtrésbita var stungið upp á loftið í haust meðan gaflinn á gamla húsinu var opinn og þar hefur hann fengið að hvíla síðan. Þó að þessi limtrésbiti taki helminginn af þunga þaksins vildum við styrkja sperrurnar og breikkuðum (eða á maður að segja síkkuðum) þær því um helming. Við einfaldlega tylltum fjögurra tommu battingi neðan á sperrurnar og negldum síðan 12 mm krossvið í lím á báðar hliðarnar. Toppinn tengdum við saman á sama hátt eftir að við höfðum rifið burt gömlu laskana sem voru skrúfaðir á toppinn. Eigum við eitthvað að ræða styrkleika eða hvað? Nei, sleppum því.


Því næst gengum við frá loftrýminu yfir einangrunina og notuðum við í það 45 mm breiða lista og 3 mm masónit. Þarna eigum við eftir tvö sperrubil innst í þessu rými. Það er plægður panell í þakklæðningunni en það þekkti ég ekki fyrr en við komum til Svíþjóðar. Sum panelborðin þarna innst eru dekkri og það er ekki fúi heldur vegna þess að þessi borð eru yst úr tré og eru dekkri þess vegna.


Því næst fór ótrúlegur fjöldi af einangrunarsekkjum þarna upp og hér er er fyrsti búturinn af 17 sm steinullarmottu komin í sperrubil. Ofan við einangrunina og masónitplötuna er loftræstingin vel frágengin.


Og svo var bara einangrað og einangrað þangað til komin voru langbönd á sperrurnar og þverbönd á langböndin og þrjú lög af einangrun. Þarna eru þeir Anders og Jóhann að vinna við síðasta steinullarlagið og plasta svo þakið jafnóðum. Maðurinn sem er að lalla eitthvað þarna lengst til vinstri er ellilífeyrisþegi og fer gjarnan í verkin sem öðrum leiðist og ekki er hægt að vinna bara svona af gömlum vana.


Þarna er komin upp 26 sm einangrun og plastdúkurinn er á sínum stað. Innan á plastdúkinn erum við svo búnir að setja nokkur af borðunum sem eiga að halda uppi loftklæðningunni. Þetta er mikið sterkt og gott loft. Íslenski fáninn er lengst til vinstri og það sér Valdís um. Það var líka hún sem bjó um rúmið sem við sjáum þarna innan við dyrnar og það var hún sem bauð smiðunum í lokin upp á súkkulaði/döðlutertu með þeyttum rjóma og perum ofan á. Góð var hún og svo stór var hún að hún entist með kaffinu í tvo daga. Þegar þessi mynd var tekin í gær, fimmtudag, voru smiðirnir farnir og ég skipti þá samstundis niður í fyrsta gír á lága drifinu. Anders er á förum til Tælands en Jóhann er bara tvítugur og ætlar að vinna fram að sumarfríi og eiga góðar stundir með fallegum jafnöldrum sínum af hinu kyninu.

Nú er loksins búið að vinna allt það erfiðasta við einbýlishúsið á Sólvöllum í Krekklingesókn. Það verður að vísu dálítið verk að setja upp loftplöturnar en Anders býðst til að koma og hjálpa okkur við það þegar hann kemur frá Tælandi og við frá Íslandi. Kannski verður það svo. Ég ætla nú að bauka við smíðar á mínum hraða við ýmislegt sem eftir er. Það var bún að vera mikil vinnutörn síðustu dagana og þegar smiðirnir fóru var eins og það færi vindur úr mér. Eftir rúma viku förum við að vinna af alvöru við eldhúsið þarna lengst inni til vinstri. Þá ætlar gólflagningamaður að vera búinn að setja flísar á eldhúsgólfið en undir þær setur rafvirkinn hitamottu. Það verður líka talsverð vinna við loftið yfir eldhúsinu. Hvað á að kalla þetta loft er spurning. Hugsanlega svefnloft við tækifæri, lesloft, loft fyrir kommóðuna með dýru sköttunum okkar eða hver veit.

Ég vil svo bara segja að lokum; mikið rosalega eru iðnaðarmennirnir sem hafa unnið hjá okkur duglegir. Þeir eru líka samvinnuþýðir og þægilegir menn. Anders skildi eftir helling af verkfærum sem ég geti haft gagn af næstu vikurnar. Vel gert af honum. Þetta með dýru skattana átti að vera brandari.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0