Vaxtaverkir

Það var á mánudaginn var sem ég var alveg undrandi yfir afköstum smiðanna okkar. Þeir (ég líka) hentu 40 m2 af gólfi með einangrun og öllu tilheyrandi út á tún og skildu okkur eftir með bústað sem er þrískiptur. Það er að segja einar dyr liggja inn í tveggja ára gamalt svefnherbergi sem nú er einnig setustofa, sjónvarpsherbergi, handavinnuherbergi og skrifstofa. Förum við út um þessar dyr og fyrir tvö horn til hægri komum við inn í þriggja ára gamla forstofu, þvottahús og baðherbergi og förum við út um þær dyr og fyrir þrjú horn, líka til hægri, komum við inn í nýja forstofu og verðandi stofu/gestaherbergi. Þessi stofa og gestaherbergi er nú í hlutverki eldhúss og geymslu. Það er svo miðjan sem tengir þetta allt saman sem nú hefur nakið malargólf. Kannski verður einhver hissa á því að við leggjum okkur niður við að búa svona en þá segi ég bara þetta: Komið í pönnukökukaffi í júní næstkomandi, eða hreinlega um miðjan maí, og eftir það verður enginn hissa.


Svona er hægt að hafa það í bráðabyrgðaeldhúsi eftir morgunverð, drekka fyrsta kaffibolla dagsins og þann besta og horfa á móti Kilsfjöllunum. (Pínulítil uppstilling var þetta nú fyrir myndatökuna man ég).


Þarna er svo konan sem lætur sig hafa það. Stundum segir hún að hún geri ekkert af því sem gert er hér en það er ekki rétt. Hún hjálpar mér oft sem handlangari en það er annað sem er mikilvægara; hún sér mér fyrir góðu fæði sem gerir það að verkum að ég get haldið áfram við að byggja draumahúsið. Þetta er líka í bráðabyrgðaeldhúsinu.

Frá því að smiðirnir tveir yfirgágfu okkur á mánudaginn var hef ég rembst eins og rjúpan við staurinn við að gera allt tilbúið til að byrja á nýja gólfinu. Það er að segja að rífa upp stórgrýti og koma út, jafna gólf, flytja til möl í fötum, jafna aftur og fá réttan halla á botninn áður en hann verður klæddur með plastdúk. Einnig að panta efni og flutning, bæta við pöntunina. Að fá rafvirkjan til að koma og ræða þá nýju mynd sem þetta hús hefur fengið á sig og sitthvað fleira. Svo leið að fimmtudagskvöldi og að morgni ætluðu tveir smiðir að koma og all stór vörubíll með efnið í nýja gólfið.

Spáin var mikil snjókoma og fólk almennt varað við því að vera á vegum úti. Ég reyndi að hafa allt klárt og Valdís minnti mig á að ég hefði ætlað að panta eitthvað sérstakt og ég gat ekki almennilega viðurkennt að ég hefði ekki munað eftir því. Ég fékk ekki samband við neinn af þeim snjóruðningsmönnum sem ég þekkti til þannig að ég sá sæng mína útbreidda og vissi hvað mér félli í hlut að morgni. Að lokinni átta stunda djúpri samveru með Óla Lokbrá hafði ég mig út um hálf sjö leytið og reyndi að vera svolítið spengilegur. Ég tók snjóskófluna og fót út í hliðið og byrjaði að moka upp undir 30 sm djúpum snjó.

Þegar ég var búinn að moka eins og einum fimmtánda af því sem ég þurfti að moka kom kom ókunnug snjóruðningsvél og ég gekk út að vegi. Ég rétti upp hendina og viti menn; þessi ókunnuga vél stoppaði og langt þar uppi opnaðist hurð og þar gaf að líta hæglátan mann sem horfði niður til mín og mér fannst ég sáralítill við hliðina á þessari mikla tæki.

Getur þú hjálpað mér, spurði ég. Bráðum kemur vörubíll með byggingarefni og ég get ekki tekið á móti honum nema að losna við eitthvað af þessum snjó. Alveg sjálfsagt, svaraði hægláti maðurinn þarna uppi, ég skal gera það í bakaleiðinni eftir fáeinar mínútur. Svo hélt hann áfram. Þá kom smiðurinn Anders og var einn og sagðist varla hafa komist í annað eins á sænskum vegum. Hann ætlaði líka að vera hér hálftíma fyrr en bara náði ekki. Eftir nokkrar mínútur kom snjóruðningsvélin til baka og hann hreinsaði stórt svæði á örfáum mínútum. Hvað á ég að borga? Ekkert. þú ert að byggja og það kostar mikla peninga. Ég býð upp á þetta. Ég kannaðist við að hafa séð þennan mann áður en vissi ekki hvar en hann vissi greinilega að við vorum að byggja. Ég gerði hann að bónda hér í nágrenninu og ég var honum þakklátur. Svo fór hann.

Þá hringdi Mats á vörubílnum og spurði hvort hann ætti að beygja við skiltið Västanbäck. Já, gerðu það og svo skal ég vera úti við veg. Ég sneri mér að Anders og við byrjuðum að tala saman og þá hringdi síminn. Það var Mats á vörubílnum og hann sagðist ekki komast upp brekkuna og það væri snjóruðningstæki í brekkunni. Ég skal fara og biðja hann að færa sig og bíða þar til þú ert kominn upp brekkuna. Svo lagði ég af stað og þá bakkaði snjóruðningstækið upp brekkuna, Mats bakkaði niður á jafnsléttu og tók svo tilhlaup á brekkuna.

Þegar Mats hafði stoppað á veginum við hliðina á húsinu og komið út úr bílnum sagði hann að hann hefði varla komist í annað eins á vegunum hingað til. Svo fórum við að losa bílinn og ég skildi ekkert í því hvað ég dansaði mikið á rudda svæðinu. Ég rann til og tók miklar sveiflur og komst svo að því að skálarnar sem snjóplógurinn hvílir á skildi eftir flughála flekki. Eins gott að detta ekki því að þá gæti gerfimjöðmin farið úr liði. Svo gætti ég meiri varúðar. Vörubíllinn fór og við Anders fórum inn í grautinn og árdegiskaffið. Valdís var mætt í bráðabyrgðaeldhúsið og það angaði af kaffi og hafragrauturinn rauk í pottinum.

Eftir það fórum við að smíða.


Gólframmi er kominn innan á fótstykkin undir húsinu og Anders er að ljúka við dregara sem liggur eftir því miðju. Steinnökkvinn undir súlunni er efsti hlutinn af undirstöðu sem ég gróf fyrir og steypti fyrr í vetur við hinar verstu aðstæður þar sem grafa þurfti gegnum gólfið og undir gömlu bitana. Alveg það sama er að segja um steypuhnullunginn undir hamrinum hans Anders. En núna er ég svo feginn að ég framkvæmdi þetta þá en þurfti ekki að gera það núna. Þegar hér var komið í dag var ég kominn með harðsperrur eftir hamaganginn frá í morgun. Ég útskýrði það sem vaxtaverki fyrir Valdísi og Anders. Gardínan yfir kollinum á Anders er til að hylja sárið eftir glugga sem einu sinni var.


Þannig leit það út um þrjú leytið þegar Anders hætti. Bitarnir næst okkur eru helmingi þéttari en lengra frá. Það er gert vegna þess að þar sem bitarnir eru þéttari skal flísaleggja en á hitt skal koma parket. Um helgina ætla ég að plasta botninn undir þessum hluta, það er að segja að leggja plast á jörðina. Það skal fyrirbyggja að uppgufun frá jörðinni skemmi gólfið. Ég ætla líka að gera þetta, þetta, það og hitt sem svo aldrei sést en verður að gera.


Kommentarer
Þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt , það má nú leggja ýmislegt á sig á meðan verið er að gera heimilið sitt eins og maður vill hafa það og ekert að því að búa svona á meðan ,mér finnst vera ofurkarftur í ykkur við þessar framkvæmdir og myndirnar sýna að þið eruð bara spræk miða við allt stússið, mikið væri nú gaman fyrir börnin og afabörnin þín að eiga allar þessar dagbókarfærlur þínar í bók og lesa fyrir afkomendur ykkar og vera stolt af , farið bara vel með ykkur í öllu þessum framkvæmdum og ég kaupi bókina ef þú skrifar hana

kveðja til ykkar Valdísar

Þóra

2011-02-12 @ 01:50:26
Guðjón Björnsson

Þakka ér fyrir Þóra mín, þú ert alltaf jafn vingjarnleg. Ég man eftir systrum sem voru duglegar við að hjálpa til heima fyrir meira en 40 árum þegar smíðavinna stóð þar yfir. Þið systur hituðuð kaffi, smurðuð brauð og lögðuð á borð fyrir hungraða smiði.



Með bestu kveðju frá Guðjóni

2011-02-12 @ 08:16:20
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Dugnaðurinn í ykkur, það er ekki skrýtið þó þú sért með harðsperrur eftir daginn.



Bestu kveðjur til ykkar beggja,

Þórlaug

2011-02-12 @ 13:29:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0