Afi minn, viltu vera svo góður að . . .

Seinni partinn í gær og í gærkvöldi var ég þreyttur eftir að hafa gert ótrúlega lítið, undarlega þreyttur. Því lagði ég mig um hálftíu leytið og endilangur í rúminu hafði ég ekki einu sinni kraft til að lesa eitthvað gott. Rétt fyrir klukkan tvö í nótt vaknaði ég og fann strax að nú mundi ég ekki sofna strax aftur. Áhyggjur sóttu að mér og ég fór að trúa því að við færðumst of mikið í fang og það var ég sem var leiðtoginn í öllu saman. Ég vissi að þetta var þessi óraunveruleiki sem ég og svo margir aðrir geta lent í um miðja nótt og bara að gera sér grein fyrir því er til hjálpar. Eftir einhvern klukkutíma sofnaði ég aftur.

Rúmlega átta í morgun var ég að komast á hreyfingu móti nýjum degi. Enn var ég ekki alveg ánægður en tókst nokkurn veginn að hrista það af mér. Morgunverðurinn hjá okkur var seinn morgunverður og svona smám saman komst ég í sæmilega í gang. Ég gekk markvisst til verks við að halda áfram að tæma gamla húsið. Ég reif lausan stóran skáp sem tilheyrði bráðabyrgðainnréttingunni í eldhúsinu. Valdís gekk í gegnum það sem var á hillunum sem ég hafði tekið úr skápnum og dreift víða og að lokum var þessi skápur aftur kominn í gagnið til bráðabyrgða í nýbyggingunni. Þá var komið að ísskápnum/frystinum og aftur dreifði ég hillum og innihaldi víða og svo gekk Valdís í gegnum það. Og að lokum var ísskápurinn/frystirinn kominn í gagnið frammi í nýju forstofunni og Valdís meira að segja búinn að afþíða hann.

Inn í þessi verkefni blandaðist ýmislegt annað en ég var þó einhvern veginn ekki upp á mitt besta. Samt hafði ég lesið ýmislegt gott áður en ég fór á fætur því að ég er vel meðvitaður um að það er mikilvægt að næra andann líka. Allt í einu var tekið í annað eyrað á mér af einhverjum ósýnilegum krafti og ég leiddur út að austurglugga. Þar var ég hreinlega látinn líta út á móti skóginum. Það var aðeins farið að bregða birtu. Já, einmitt! Ég sem er oft að gorta af þessum skógi hef ekki verið þar í fleiri mánuði enda má segja að það hafi lengi verið ófært að taka sig í gegnum hann nema þá á skíðum. Samt eru fleiri dagar, næstum vikur, síðan það var komin brúkleg færð um hann.

Valdís! kallaði ég, ég ætla einn hring í skóginum. Svo lagði ég af stað og ég var ekki kominn nema rétt yfir brúna á skurðinum þegar ég fann að nú var ég að gera eitthvað mikilvægt. Ég kom að gamalkunnum eikarplöntum, rúmlega mittis háum, sem elgurinn át ofan af í fyrra. En sjáum nú til, nú hafa þær fengið að vera í friði. Þá ná þær nú að komast upp í þá hæð í sumar að líkurnar á að sleppa næsta vetur eru mikið meiri. Svo studdi ég mig upp við stórt grenitré sem hefur stækkað mikið síðan við keyptum Sólvelli og þá er ég að tala um næstum þrjátíu metra tré. Ég leit yfir slóðina sem ég hafði gengið og ég leit fram á við til að ákveða hvert ég færi næst. Ég var mitt á meðal kunningja minna.

Það var eitthvað svo ótrúlega magnað sem átti sér stað á þessari göngu minni og heimsókn til margra grænna kunningja. Ég varð allur annar maður og ég get einfaldlega ekki sagt það með öðrum orðum en þeim að ég varð alveg ótrúlega hamingjusamur. Og þegar ég kom til baka var sjónvarpið á og það voru að byrja fréttir. Þar voru sagðar svo góðar fréttir að ég varð ennþá glaðari. Þar var sagt frá nýrri aðferð sem unnið er að langt norður í landi við að gera tréflísar að kolum og voru þessi kol nefnd græn kol í fréttinni. Verið er að reisa stóra verksmiðju þarna norðurfrá og viðskiptavinir suður í Evrópu bíða bara eftir að framleiðslan hefjist. Með í fréttinni var þess getið að þessa aðferð verður væntanlega hægt að þróa út í það að framleiða einnig hráolíu úr þessum grænu kolum. Svo kom önnur frétt fast á hælanna á þessari og hún var þess efnis að tískuföt eru í vaxandi mæli framleidd úr endurvinnanlegum efnum. Jahérnanahér.

Nokkur síðustu árin sem ég var fastráðinn í Vornesi áttum við bíl, Renó clíó, sem var mjög sparneytinn. Bíllinn var allt of lítill fyrir mig í þessar ferðir en haltur og skakkur lét ég mig hafa það. Ég hins vegar var oft þessi síðustu ár búinn að lofa mér og Valdísi því að þegar ég yrði ellilífeyrisþegi og færi að aka minna skyldum við eignast rúmbetri bíl. Svo varð ég ellilífeyrisþegi, vann mikið og ók eiginlega ekkert minna. Samt eignuðumst við betri bíl og til að halda áfram að reyna að vera umhverfisvæn keyptum við bíl sem brenndi etanoli. Etanol er 85 % sérstakur spíritus og 15 % bensín og var talið mun umhverfisvænna og er talið enn.

Í dag eigum við bíl sem er líklega enn umhverfisvænni en etanolbílinn, en það er mjög sparneytinn díselbíll. Ótrúlega sparneytinn. Meðan ég var á skógargöngunni um dimmumótin gekk ég framhjá nokkrum trjám sem eru dæmt til að verða að eldivið við fyrsta tækifæri. Við höfum kynt mikið með við síðan við eignuðumst Sólvelli en vegna lítillar einangrunar á húsinu höfum við kannski ekki verið svo umhverfisvæn á þessu sviði. Nú stendur það til bóta þar sem við byrjum á mánudaginn kemur að auka einangrunina á síðasta hluta hússins okkar þannig að eftir það verður húsið einangrað all nokkuð meira en í meðallagi. Eftir það förum við að hita upp mjög umhverfisvænt.

Ég get alveg heyrt hann litla Hannes Guðjón nafna minn segja við mig: Afi minn, viltu vera svo góður að taka þátt í því að gera Jörðina okkar svo umhverfisvæna að ég geti seinna meir eignast fjölskyldu og lifað eðlilegu lífi án þess að eiga á hættu að fara illa í óhreinindum sem verða til löngu áður en ég get farið að hafa áhrif á það sjálfur. Þetta var fyrsta hugsunin sem greip mig þegar ég frétti að þessi drengur væri kominn nokkra mánuði á leið. Hin barnabörnin okkar eru komin á þann aldur að þau eru farin að, eða í þann veginn að fara að taka ábyrgð á þessu líka.

Núna er ég svo þægilega þreyttur að það boðar góða drauma þegar ég geng til fundar við Óla vin okkar Lokbrá. Það skeði kraftaverk í skóginum í dag og þess vegna verður það fyrsta verk mitt í fyrramálið að fara einn hring þar meðal vinanna minna grænu. Ég hlakka til að geta gengið þar um með honum nafna mínum og kynna þessa vini fyrir honum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0