Hlutirnir riðlast

Hlutirnir fara ekki alltaf eins og ætlað er og meira að segja ekki hjá mér. Eftir að ég kom heim úr vinnunni í fyrradag, sunnudag, hugsaði ég um framhald byggingarvinnu og skipulagði mánudaginn, gærdaginn. Ég vandaði mig við þetta og gekk í gegnum það hvað eftir annað. Svo byrjaði ég undirbúning. Í gærmorgun lá ég á bakinu í volgu rúminu, horfði upp í loftið og gekk í gegnum þetta einu sinni enn. Gluggaáfellurnar runnu gegnum hendurnar á mér ein eftir aðra og svo grunnmálaði ég þær. Síðan byrjaði ég að setja þær upp. Þetta verður stór dagur hugsaði ég og setti vinstri fótinn yfir rúmstokkinn og þá var klukkan átta. Áður en fóturinn náði niður á gólfið hringdi síminn fram í borðkróknum.

Nei, nei, nei, hugsaði ég, þetta má bara ekki vera Ove. En það var mikið verra. Það var sjálf Birgitta. Það var ennþá alvarlegra enda kom í ljós að hún hringdi vegna þess að Ove var slæmur í maga. Ekki bætti úr skák að konan sem átti að vinna kvöldið var með sama sjúkdóm. Allt þetta varðaði Vornes. Hvað gerir maður þá? Eftir tregt samtal við mig ákvað Birgitta að tala við Finnan Jorma sem er líka ellilífeyrisþegi. Ég sagði henni þó að ef það gengi ekki skyldi hún hringja aftur. Svo hringdi hún aftur. Jorma var með flensu. Svíar geta ekki og Finnar geta ekki og þá gengur auðvitað hnarreistur Íslendingur fram á leikvanginn. Vornes er svolítið eins og leikskóli þar sem margir mætast og eru nálægt hver öðrum og umgangspestir eiga auðvelt með að ráða húsum.

Valdís stappaði í mig stálinu og sagði að við yrðum bara fegin þegar reikningarnir yrðu borgaðir í næsta mánuði. Hún sagði að það færi vel um sig eina heima með saumana sína ásamt lestri og sjónvarpi. Húsið mundi klárast samt sem áður. Svo lagði ég af stað í Vornes eftir að við höfðum farið til Fjugesta í verslunarerindum. Sagarblaðið var alla vega keypt og það var forsenda fyrir vinnunni sem ég hafði skipulagt í smáatriðum.

Eins og ég hef oft sagt áður er gott að koma í Vornes -sem betur fer. Þar er fólk sem getur litið í eigin barm, fólk sem vill verða betri manneskjur, fólk sem getur unnið úr krítik, tekið góðum ráðum, fólk sem á sér ósk um að verða betri manneskjur. Það tekst ekki öllum en mörgum og þeir sem ekki ná alla leið losna fæstir við Vornes úr lífi sínu framar. Að hugsa sér ef ráðamenn gætu tileinkað sér þessa eiginleikana, eiginleikana sem fólkið á sem hefur komið að ystu sársaukamörkum í lífs síns. Og svo eru margir sem líta niður á þetta fólk. "Sá yðar sem saklaus er kasti fyrsta steininum" var sagt fyrir 2000 árum.

Nú er orðið nokkuð áliðið kvölds og ég er á leiðinni að skipuleggja á ný það sem riðlaðist í gær. Það eru sömu verkefni og sömu handtök og það er bara að virkja á ný það sem ég var búinn að undirbúa fyrir gærdaginn. Ég hlakka til að ná upp í nótt þeim svefni sem ég tapaði síðastliðna nótt og kannski ætti ég að setja hinn fótinn framúr fyrst í fyrramálið ef það gæti komið í veg fyrir að það verði einhver veikur í Vornesi. Í dag áttum við erindi til Örebro en skýrslugerð um það verður skotið til framtíðar. Eitthvað verðum við að hafa út af fyrir okkur líka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0