Fínn tími til að blogga

"Það verður fínn tími fyrir þig að blogga í kvöld" sagði Valdís seinni partinn í dag, það er forkeppni í vali fyrir söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Já, ég skal viðurkenna að ég sit ekki yfir þessum þáttum með augun á stilkum og eyrun opin gegnum höfuðið. Hins vegar heyri ég álengdar hvað fer fram og öðru hvoru geng ég að sjónvarpinu til að sá og heyra betur. Svo er það að vísu ekki að þessu sinni þar sem sjónvarpsherbergið, skrifstofan, setustofan og svefnherbergið er eitt og sama herbergi þessa dagana eins og nég hef sagt við eitthvað annað tilfelli. Þess vegna er sjónvarpið ekki nema eins og tvo metra frá hægra eyranu og ég kemst ekki hjá því að heyra vel það sem þar fer fram.

Fínn tími til að blogga sagði Valdís. Já, en hvers vegna að vera endalaust að blogga? Jú, víst get ég bloggað eins og einhver annar horfir á val í söngvakeppni sjónvarpsstöðva, eða skreppur á barinn eða fer upp í fjöllin á skíðahótel eða bara hvað annað sem er. Ég er nú búinn að blogga síðan í desember 2006 og bloggin eru orðin 690. Það er mikið af myndum í þessum bloggum en þrátt fyrir það get ég ímyndað mér að þessi 690 blogg séu orðnar einar 500 til 600 síður.

Það er ekki erfitt að skilja að það sé hægt að æfa hástökk, þrístökk eða hundrað metra hlaup. En ætli það sé hægt að æfa að blogga -að skrifa. Ég get fullyrt að svo sé. Í byrjun hugsaði ég sem svo að í kvöld er ég í góðri stemmingu til að blogga og því er best að blogga. Önnur kvöld fann ég að andinn var ekki nálægur og þá bloggaði ég ekki. En svo byrjaði ég allt í einu að bjóða mér byrginn og blogga þó að mér fyndust öll sund lokuð. Og viti menn; ég komst að þvi að það væri hægt að æfa það líka svona eins og hástökk eða þrístökk. Þar að auki sé ég ekki annað en mér fari mun betur að blogga en að vera hér úti á lóð með tvær stengur og spotta á milli og æfa hástökk. Svo má segja að mörg af þessum æfingabloggum hafa verið afar innihaldslaus og ég hefði eins getað sleppt að birta þau.

Nú er ég kominn að nýjum þætti í mínu bloggandi og það er að æfa að blogga með sjónvarpið dynjandi í tveggja metra fjarlægð frá hægra eyranu. Þetta er líklega þriðja eða fjórða kvöldið sem ég geri það og ég er alveg með það á hreinu að það er einnig hægt að æfa það. Að hugsa sér svo þegar ég verð búinn að æfa dyggilega þennan þátt líka hvort andagiftin yrði ekki fullkomin ef ég sæti í fjallakyrðinni uppi á Lómagnúp við Skeiðarársand, á Esjunni eða Kaldbak við Eyjafjörð og með allt það útsýni sem þessi fjöll bjóða upp á. Það hlytu að verða dýrar bókmenntir sem mundu fæðast þar.

Sem endahnút á þessum hugleiðingum mínum get ég líka spurt mig hvort ég geti ekki skrifað allt þetta án þess að birta það. Jú, ég gæti vel gert það. En -þá yrði það alls ekki sama æfing sem ég fengi út úr þeim skrifum þar sem ég væri huglaus. Á þann hátt mundi ekki skipta máli hvernig ég skrifaði, ekki á sama hátt, og það er þess vegna sem ég hef birt þau þó að þau hafi stundum verið býsna innihaldslaus og ekki skrifuð af andagift.

Alveg er þetta merkilegt. Ég er búinn að blogga án þess að skrifa um byggingarframkvæmdirnar okkar. Það er vissulega æfing líka. Við erum nefnilega bæði svo ánægð með það sem við erum að gera hér á Sólvöllum í Krekklingesókn að það er erfitt að vera þögull um það. Ég veit að ég tala hér fyrir okkur Valdísi bæði því að ég hef spurt hana um það í fullri alvöru.

Svo má ég til að tala aðeins um þetta með tvær stengur með spotta á milli. Á bernskuárunum á Kálfafelli var hástökk æft af kostgæfni. Þar var ekki notast við tvær stengur með spotta á milli. Til að halda kirkjunni Kálfafelli niðri i miklum veðrum voru gildar keðjur á hverju horni frá þakskeggi og niður í einhverja festingu sem grafin var í jörð. Við systkinin sem vorum hændust að hástökkinu festum nefnilega annan endann á spottanum í eina af þessum keðjum og svo hélt einhver í hinn endan. Svo var það alla vega oft. Hástökkstækni okkar var kannski ekki alveg viðurkennd af þjálfurum. Alla vega var Snorri íþróttakennari í Skógum fljótur að breyta hástökkstækni minni enda breyttist árangur minn í hástökki verulega með þeirri tækni sem hann kenndi mér. Þökk sé þeim góða manni.



Kommentarer
Þórlaug

Guðjón ef þú birtir ekki bloggið þitt gætum við á klakanum ekki fylgst með ykkur!!

Endilega haltu áfram að blogga fyrir okkur. Eins og ég hef áður sagt er bloggið þitt mannbætandi og fær okkur sem lesum það oft til að hugsa.



Bestu kveðjur til ykkar Valdísar,



Þórlaug

2011-02-20 @ 00:12:53
þóra H Björgvinsdóttir

Ég er sammála Þórlaugu , haltu áfram að blogga það er svo gaman að fylgjast með ykkur og fá fréttir hvernig þið hafið það þarna í skóginum .

kveðja Þóra

2011-02-26 @ 00:31:23


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0