Kannski er ég svolítið auðtrúa

Við höfum talað um að setja upp loftvarmadælu til að hita upp Sólvelli. Loftvarmadæla hefur marga mikla kosti en hún hefur líka einn mikinn galla. Hún er vélknúin og það heyrist ákveðið hljóð frá henni sem mér líst ekki nógu vel á. Margir segja að maður venjist því og hætti að heyra hljóðið. En hver segir að það sé allt í lagi að hætta að heyra það. Guðjón segir ekki ég. Þess vegna verður sennilega ekki sett upp loftvarmadæla á Sólvöllum, heldur byggt á góðri einangrun og viðarupphitun.

Við vorum spurð um daginn hvaða raflagnafyrirtæki ynni fyrir okkur. Þegar spyrjandinn heyrði það fengum við skilmerkilega að vita að þetta væri dýrasta raflagnafyrirtæki í allri Svíþjóð. Ég varð nú svolítið hissa og mér brá líka, en ég varð einnig ögn tortrygginn. Nei, þetta stemmir ekki hugsaði ég eina mínútuna og aðra mínutuna hugsaði ég sem svo að kannski væru þetta orðnir voðalegir okrarar. Gamall nágranni okkar inni í Örebro sem er rafvirki spurði okkur eitt sinn hvaða raflagnafyrirtæki við hefðum og þegar hann heyrði það sagði hann; já fyrirtækin hérna í Örebro eru mun dýrari þannig að þið gerðuð alveg rétt í því að ráða fyrirtæki frá Fjugesta. Okkur fannst gott að heyra þetta.

Stuttu eftir þessa heimsókn talaði ég við Patrik rafvirkja sem vinnur hjá okkur og veitir raflagnafyrirtækinu forstöðu. Þegar ég heyrði röddina fannst mér sem svo að þessi rödd hljómaði ekki eins og hjá manni sem gæti verið ósvífinn. Ég nefndi við hann hvort það væri til nokkur þumalputtaregla til að sjá út hvað það kostaði að leggja rafmagn í einbýlishús. Svo virtist ekki vera. Ég hugsaði sem svo að ef næsti reikningur færi yfir 28 000 kr yrði ég óánægður. Svo kom reikningurinn og hann var upp á 12 500 krónur. Þetta var ekki lokareikningur en gert ráð fyrir að 15 % stæðu eftir þangað til meira yrði unnið hjá okkur. Það er auðvelt að láta hafa áhrif á huga sinn ef maður er auðtrúa.

Varðandi loftvarmadæluna, þá hafði ég talað um hana við Patrik alla vega í ein þrjú skipti. Niðurstaðan varð alltaf sú sama að réttast væri að bíða og sjá. Síðast þegar við töluðum um þetta, og það var eftir að við heyrðum að þeir væru svona dýrir, sagði Patrik að hann væri jú umboðsmaður fyrir þessar dælur og ætti því að mæla eindregið með því að við keyptum eina slíka, en ég bara get ekki gert það hélt hann áfram. Þið hafið einangrað svo vel og vandað bygginguna og þið hafið viðarkamínuna þannig að ég get ekki mælt með því með góðri samvisku. Þið getið þá alltaf ákveðið ykkur síðar og þá verður ekkert vandamá að setja hana upp. Það verður bara að bora eitt gat gegnum vegg og rafmagnstengingin er þegar til staðar úti.

Fyrirgefðu Patrik að ég næstum trúði því að þú værir óttalegur okrari.

Pabbi Patriks er Anders sem nú er ellilífeyrisþegi en vann hjá okkur áður en hann hætti að vinna og þá var hann forstöðumaður fyrirtækisins. Anders hefur þegið margan kaffibollann hjá Valdísi, brauð með dönsku salamí og einnig ungverska gúllassúpu sem honum finnst mjög góð. Eitt sinn þegar við spjölluðum um ellilífeyri yfir kaffibolla sagði hann að konan hans hefði lítið unnið meðan börnin voru lítil og hún hefði ekki unnið fulla vinnu fyrr en á seinni árum. Þetta hefur áhrif á upphæð ellilífeyris í Svíþjóð. En hann sagði að konan hans hefði áhyggjur af því að hún mundi skaffa svo mikið minna eftir að þau færu á ellilaun. Svo sagði Anders eftirfarandi: En ég segi henni alltaf að peningarnir hennar og peningarnir mínir, það séu peningarnir okkar. Fallega sagt eða hvað?

Ég skrifa þetta til að viðurkenna að ég er svo ófullkominn að mér getur orðið á í messunni. Ef ég byggi á Íslandi og hlustaði á allan þann áróður og vélabrögð sem mér heyrist að þar sé í gangi held ég að ég yrði alveg geggjaður. Og ef ég gæti þjálfað mig í að heyra það ekki eins og sagt er með loftvarmadælurnar er ég heldur ekki viss um að það væri í lagi. Ég gæti trúað að ég mundi reyna að leysa málið með því að fara að hafa samband við kunningja og vini á sama hátt og gert var áður en sjónvarp tók yfirhöndina.

Já, þetta voru nú bar spekúleringarnar mínar í kvöld. Í fyrramálið kemur Aners smiður og eftir það verður lítill tími til bloggunar á næstunni en þeim mun meiri vinna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0