Hörku vetur en allt á fullu

Það er kominn hörku vetur aftur, töluverður snjór og mikið frost. Í veðurspá fyrr í kvöld var spáð frosti sem er 10 til 20 stigum undir meðallagi á þessum árstíma. Það var komið svo gott veður að það var ögn erfitt að trúa að það mundi vetra svona hressilega á ný. En á Sólvöllum heldur lífið áfram og við látum ekki deigan síga. Vinnudagurinn byrjaði upp úr hálf sjö í morgun og endaði upp úr hálf sjö núna í kvöld. Ég byrjaði svona snemma til að vera tilbúinn með verkefnin mín áður en Anders kæmi. Það er alltaf sama kapphlaupið með það. En bíllinn hans bilaði hér á föstudaginn var og hann þurfti að skrá sumarbílinn sinn í morgun og aka svo hingað á sumardekkum og þá fékk ég smá framlengingu og var tilbúinn þegar hann kom.

Við Anders byrjum ekki vinnudag hér nema til þess að ljúka miklu og svo var það líka í dag. En eins og vant er hef ég líka fengið harðsperrur að launum. Það er ekki mikil hætta á að ég fái harðsperrur þegar ég vinn einn og vinn með mínum kjörhraða. Valdís tók myndir og fóðraði kallinn sinn og þess á milli prjónaði hún peysu á fjögurra ára stúlku sem er stjúpbarn vinkonu hennar.


Ég bað Valdísi að taka þessa mynd í gær til að fá það staðfest og geta sýnt fram á að ellilífeyrisþeginn er alls ekki stirðnað gamalmenni. Ég er þarna að koma plastdúk inn undir annað gólf og athugið! Ég tók mig upp hjálparlaust. Ég læt stundum eins og ég erfiði mikið en á þann hátt geri ég líka oft grín að sjálfum mér.


Þessi maður liggur hins vegar ekki í gólfinu, hann er að hugsa. Sá sem er lengra í burtu er ekki beinlínis á fullri ferð heldur ef ég sé rétt.


Anders stoppaði heldur ekki lengi. Þarna er hann kominn á fulla ferð aftur. Allir gólfbitar eru komnir á sinn stað og nýr áfangi er á næsta leyti.


Hér erum við búnir að velta út samanbrotnum plastdúknum sem á að verja gólfið uppgufun úr jörðinni. Síðan huldum við allt gólfið með honum.


Þessi mynd er tekin undir gólfbitana. Ofan á plastdúkinn settum við svokallaðar lecakulor sem líkjast grófum Hekluvikri. Þær eiga að hindra þann hita sem sleppur niður gegnum 20 sm einangrunina að sleppa niður í jörðina. Ég hef gaman að því að láta þetta líta vel út þó að það eigi kannski enginn maður eftir að sá það eftir að gólfinu verður lokað.


Svo bíða gólfplöturnar eftir að botninn undir einangrunina og einangrunin komi á sinn stað. Svo skulu þær á. Að vísu ætlar rafvirkinn fyrst að setja slatta af rafmagnsrörum milli bitanna. Bráðabyrgðabrú er komin þarna á milli herbergja þannig að við Valdís erum með hálfgert víðáttubrjálæði sem stendur. Hér með lýkur kennslustund í gólfgerð.

Meðan ég var að skrifa þetta var sagt frá sauðnautum í Härjedalen. Sauðnautin eru ekki árennileg dýr og kunnugur maður sagði að maður skyldi halda sig í hæfilegri fjarlægð frá þeim. Maður einn sagði frá því þegar hann heyrði mikið fnæs rétt hjá sér og þegar hann leit upp sá hann sauðnaut rétt hjá sér. Svo sagði hann hlæjandi frá skelfilegum flótta sínum frá sauðnautinu og sagðist hafa hlaupið svo rosalega að hann hélt jafnvel að hann hefði hlaupið á vatni.

Nú er mál að hvílast.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0