Ég treysti á þig afi

Ég er jú búinn að fara mörgum orðum um nýbyggingu og endurbyggingu og einangrun. Nú er það orðið svo að við bara kyndum sáralítið með rafmagni á nóttunni, kveikjum upp í kamínunni á morgnana og svo er heitt allan daginn. Svo er kveikt sem snöggvast  upp aftur á kvöldin. Þetta kemur til með að spara mikla vinnu við eldivið og annað sem er mikið meira atriði; þetta er mikið umhverfisvænna. Að hita upp hús með eldivið er jú talið nokkuð umhverfisvænt en fer þó vissulega eftir þeim útbúnaði sem eldað er í.

Eftir að rokkið var orðið úti seinni partinn í dag var ég að saga veggjastoðir í vélsöginni okkar, en þær eiga að koma innan á nokkra metra af gömlum veggjum. Þessar stoðir eru settar innan á veggina til styrkingar á það litla sem eftir er að styrkja og það sem meira atriði er; til að einangrunin í öllu húsinu sé samsvarandi. Og þar sem ég var þarna úti að saga var ég að hugsa um þann mun sem nú þegar er orðinn og enn er þó svolítið eftir að viðbótareinangra. Mikill gríðarlegur munur þetta verður þetta hugsaði ég og fann til mikillar ánægju með framkvæmdirnar.

Mér er tíðrætt um umhverfi. Ég hugsaði líka um umhverfi meðan ég var þarna úti og þegar ég var búinn að saga breiddi ég vandlega yfir það byggingarefni sem eftir var úti. Kyrrðin og rökkrið framkölluðu ró og góðar hugsanir. Útfrá því sem ég hef nú þegar komið inn á hugsaði ég til hans nafna míns, Hannesar Guðjóns, og heyrði hann beina biðjandi orðum til mín.

Viltu gera það fyrir mig afi að gera þitt besta til að það verði eitthvað eftir handa mér þegar ég verð fullorðinn og vil eignast fjölskyldu. Viltu einnig reyna að hafa áhrif á aðra fullorðna svo að það verði eitthvað eftir handa jafnöldrum mínum líka. Kannski verð ég trúr Íslendingur og þá hugsa ég að ég og jafnaldrar mínir viljum að það verði eftir svo sem einn foss sem við getum tekið skynsamlega ákvörðun um. Það væri líka voða gaman að það yrði eftir svolítill jarðhiti svo að við þurfum ekki að fara á fornleifasafn með börnin okkar til að upplifa hann. Varla verðið þið sem eruð fullorðin endilega að vera svo peningasjúk að þið klárið þetta allt saman.

Ég treysti á þig afi.

Og hvernig verður afa ellilífeyrisþega við þegar hann heyrir barnsröddina bera fram þessa bæn þar sem hann er að paufast úti í myrkrinu. Jú, hann verður svolítið votur um hjartað og hugsar sem svo að hann geti ekki bara skotið við skollaeyrum. Við eigum fleiri barnabörn sem ég hef ekki nefnt en þau eru komin á þann aldur að það er að verða þeirra að skilja þetta og taka ábyrgðina líka. Það sem ég er búinn að skrifa núna er raunar orsökin til að ég vil lifa eins og við gerum. Við berumst ekki mikið á en gleðjumst samt oft yfir áföngum. Við erum búin að hafa bílinn í mánuð og erum enn að nota fyrstu áfyllinguna og munum gera næstu viku en höfum samt þurft að hreyfa okkur all mikið. Ég gæti talið fleira upp en sleppi því. Við getum öll lagt eitthvað af mörkum og við Valdís erum enn að þróa umhverfisvænleika okkar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0