Hvílíkur vinnukraftur

Í gær sagði ég í bloggi að það yrði sjálfsagt ekkert bloggandi hér næstu dagana en þetta var bara þvílíkur dagur að ég get hreinlega ekki haldið mér saman. Það komu tveir smiðir til að vinna í dag og það voru engar smíðar. Mennirnir rifu gólf og grófu með haka og skóflu. Þeir víla svoleiðis ekkert fyrir sér þessir smiðir þó að vinnan fari aðeins út fyrir fagið. Að vísu reyndi ég að stjórna hakanum. Yngri smiðurinn sem er liðlega tvítugur er of ungur til að vita hvað haki heitir og til hvers verkfærið er. Hann veit það núna. Það voru teknar margar myndir og sjáum hvað þær segja.


Hér er Jóhann, sá rúmlega tvítugi. Panellinn er kominn út á bala, einangrunin í haug úti og þeir sem byggðu þetta hús notuðu mikinn veggjapappa, bæði undir og yfir einangrun. Síðustu pappaflygsurnar eru á leiðinni út.


Ef einhverjum dettur í hug að þessir menn hafi ekki unnið alveg á fullu í dag þá sannar þessi mynd hið gagnstæða. Jóhann er þarna búinn að þjóta út með pappann sem hann var að plokka upp á fyrri mynd og er þarna á leiðinni inn aftur -hreinlega á fullu.


Anders er þarna með fullt fangið af borðum sem við ætlum að nota til kyndingar. Hann fær hins vegar allan panelinn vegna þess að hann er lakkaður. Anders er með vatnsmiðstöð og kyndiklefa og því telur hann að það sé skaðlaust fyrir hann að nota lakkaðan panel til hitunar.

 
En við kyndum með kamínu sem er inn í íbúðinni, sést þarna til vinstri, og þess vegna notum við hvorki lakkaðan eða málaðan við.


Anders sækir þarna síðasta viðarbútinn sem borinn var út í dag áður en við fórum að grafa. Ég byrjaði daginn snemma til að við værum tilbúin þegar þeir kæmu. Og þegar þeir komu fór allt á fulla ferð. Þeir eru svo ósérhlífnir og duglegir þessir menn að það kom mér alveg á óvart. Ég hef aldrei kynnst slíkum vinnuhraða fyrr en þeir byrjuðu að vinna hjá okkur í fyrra, ég hélt bara að menn sem ynnu í tímavinnu gerðu ekki slíkt. Þegar klukkan var þrjú og þeir hættu var ég gersamlega búinn að vera. Svo settumst við inn í kaffi hjá Valdísi í bráðabirgðaeldhúsinu í nýju viðbyggingunni. Hún hafði hitað kanelsnúða og ósætt vínarbrauð í örbylgjuofninum þannig að það ilmaði dásamlega. Allir voru kátir og þótti kaffið gott og brauðið hjá Valdísi var þó best. Ég var mest kátur vegna þess hversu mikið hafði áunnist í dag. Á morgun kemur Anders og við steypum nokkrar undirstöður. Ég var orðinn svo hress eftir kaffið að ég fór með mestu gleði tvær ferðir til Örebro til að sækja sement. Þegar það var búið var Valdís tilbúinn með helling af góðum mat. Einn dagur á Sólvöllum er liðinn.


Það er hægt að segja að allt líti fremur óhrjálega út á myndunum ofan. Það gerði það líka undir nýbyggingunni þangað til ég var búinn að ganga þar frá öllu. Þá leit það svona út. Við litum þangað inn í dag þar sem nú er opið þangað inn frá svæðinu sem við rýmdum í dag. Þeim leist vel á og Jóhann hinn ungi sagði hvað eftir annað, mikið rosalega lítur þetta þrifalega út. Svoleiðis á það líka að vera.



Kommentarer
Hrafn Karlsson

Mikil aðgerð, verður örugglega flott í restina, ef ég þekki Guðjón rétt.

Kær kveðja frá Lyndu og Krumma.

2011-02-07 @ 23:46:51
Guðjón Björnsson

Já Krummi, það verður fínt allt saman. Skitbra som svenskarna s´ger.

2011-02-10 @ 13:21:35
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0