Að sleppa út englinum sínum

Fyrir um tveimur árum breyttum við miklu hér innanhúss í sambandi við að nýtt svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús komust í gagnið. Þá fluttum við eldhúsið og settum upp nokkuð góða bráðabyrgða innréttingu. Snemma í fyrra var Valdís hjá Rósu og Pétri og vann þá að því að kynnast honum Hannesi Guðjóni. Á þeim tíma lauk ég við að ganga frá þessari bráðabyrgðainnréttingu eftir langa bið og ég eyddi meiri vinnu og efni í það en til stóð. Ég á ósköp erfitt að setja mér takmörk hvað svona lagað varðar.

Í dag er ég að byrja að rífa þessa innréttingu burt því að á mánudaginn kemur smiður sem ætlar að hjálpa mér að skipta um gólfið í gamla húsinu eins og það leggur sig. Eftir það verður gólfið af sömu gæðum og í þeim viðbyggingum sem við höfum komið upp. Tuttugu sendimetra einangrun í gólfinu, það verður ekki lélegt. Síðan lyftum við upp og endurbyggjum hluta af loftinu í þessum gamla hluta og eftir það er verður allt húsið sem nýtt. Einbýlishús upp á rúmlega 100 m2 með útsýni til lágra fjalla langt í vestri sem heita Kilsbergen, með skjólgóðan skóginn að baki húsinu og í skógarbotninum vaxa bláber, hindber og jarðarber sem smakkast svo ljúflega með rjómaögn eftir matinn á hlýjum sumarkvöldum.

En hvað er ég nú að skrifa. Það varð allt öðru vísi en ég hafði í huga þegar ég byrjaði. Og þó. Ég fékk í morgun e-póst frá honum Ove dagskrárstjóra í Vornesi þar sem hann spurði hvort ég gæti unnið með honum seinni hluta fimmtudags í næstu viku vegna þess að þá yrði allt annað ráðgjafalið á námskeiði. Ég sagði honum sem var að það gæti ég ekki þar sem ofangreind vinna mundi þá standa yfir og þá yrði ekkert annað gert af minni hálfu á meðan. Svo bætti ég við að við værum að byggja á þeim aldri sem svo margt fólk bara ætti orðið sitt húsnæði og byggi þar í ró og næði á eftirmiðdegi lífs síns.

En ég sagði líka að þegar þetta yrði tilbúið með vordögum eða snemmsumars kæmum við til með að fá góð ár að launum hér á Sólvöllum fyrir þann svita og blóð sem við hefðum fórnað fyrir þá góðu aðstöðu sem við hefðum komið okkur upp. En ég hafði með í þessu "ef Guð lofar" og "að við hefðum tekið þá áhættu að hann gerði það". Að þessu skrifuðu sendi ég e-póstinn til Ove og fór svo að vinna en var dálítið hugsi.

Þetta með blóð og svita minnti mig á frásögn sem ég las um daginn í bókinni hans Martins Lönnebo sem ég hef all oft minnst á áður. Þegar ég las þá frásögn tók ég hlé á lestrinum og reyndi að taka til mín boðskapinn og ég skynjaði hvað þessi frásögn bjó yfir miklum boðskap. Þegar ég hins vegar skrifaði línurnar til Ove var ég ekki í svo alvarlegum hugleiðingum en að skrifa þetta fékk mig þó inn á nokkuð æðri hugleiðingar.

Hinn aldraði Martin Lönnebo segir svo frá.

Yngri kunningi minn, góður Vasagöngumaður og prestur, horfði á rallykeppni. Einn bílanna rann til og kramdi barn til bana. Mamma barnsins stóð hjá, hvít eins og klakastólpi. Vinur minn, sem var sóknarprestur í söfnuðinum, áleit það vera skyldu sína að ganga til konunnar og segja einhver hughreystandi orð. Þegar hann kom til hennar og skynjaði örvæntingu hennar gat hann ekki sagt eitt einasta orð. Hann lagði arma sína utan um hana. Síðan stóðu þau þarna og biðu eftir sjúkrabílnum sem virtist aldrei ætla að koma. Hvað eftir annað reyndi hann að tala, en úr munni hans kom ekki eitt einasta orð. Við jarðarförina sagði konan við hann: Þakka þér fyrir prestur, þú bjargaðir lífi mínu. Blóðið var í þann veginn að renna úr líkama mínum, en þú stóðst þarna og hélst því eftir.

Og hvað segir maður svo? Það væri kannski best að segja ekki neitt. En þetta segir þó að nálægð, þó lítið eða ekkert finnist til að segja, er áhrifamikil -sterk, og virðist geta bjargað lífi. Ég fer gjarnan í vinnu í Vornesi þegar þar að kemur til að vera nálægur þegar maður eða kona í örvilnan leitar lífs og sátta og vill verða betri manneskja. Ég veit að þegar hún kemur þangað er hún einnig komin að sársaukamörkum en að komast að sársaukamörkum getur gert manneskjuna að einhverju afar verðmætu. Leiðin þangað er hins vegar mörgum þyrnum stráð. Síðan á endurfæðingin sér stað. Ég fæ jafnvel samviskubit í þau fáu skipti sem ég get ekki farið í Vornes til að vera nærstaddur þegar faðir eða móðir, systir eða bróðir, dóttir eða sonur vill sleppa út englinum sínum.



Aftur að húsinu því að nú er ég búinn að skrifa það sem bærðist í huga mér í dag. Við erum að flytja allt úr eldhúsinu og stofunni, sem hvort tveggja er í gamla hlutanum, inn í nýtt stórt herbergi og nýja forstofu. Því verki þurfum við að hafa lokið fyrir mánudag. Í dag tók ég stól og settist niður í nýja herberginu og reyndi að fá tilfinningu fyrir því hvað það mundi bjóða upp á þegar öllu þessu umstangi verður lokið. Ég er áður búinn að giska á hvernig það verður en núna var ég frekar að athuga það í reynd. Það kemur nú til með að bjóða upp á góða hvíld fyrir þann sem þarf á hvíld að halda. Á aðra hönd horfði ég út í skóginn og hugsaði mér vormorgun þegar sólin er að koma upp bakvið veltigrænt laufþykknið skammt austan við húsið. Svo sneri ég stólnum ögn, leit til vesturs, og hugsaði mér Kilsbergen í birtuflóði morgunsólarinnar. Jú, það verður gott að hvílast í þessu herbergi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0