Svona er lífið

Hér á bæ okkar Valdísar eru þvílíkar framkvæmdir í gangi að ég ætla bara ekki að tala um það sem stendur. Þó að þetta sé bara pínulítið brot af því sem margir aðrir framkvæma eru það eins og ég sagði þvílíkar framkvæmdir á okkar mælikvarða.

Í gærmorgun þegar ég kom fram í þvottahús og leit út í skóginn sá ég fjögur dádýr og voru tvö þeirra bara eins og tíu metra að baki húsinu. Ég vakti Valdísi og þar sem við horfðum á þau tók Valdís allt í einu eftir því að það virtist vanta neðsta hlutann á annan framfótinn á öðru dýrinu sem næst húsinu var. Og mikið rétt, dýrið haltraði og það var greinilega eitthvað mikið að. Og svo var hörku frost. Tvö dýranna fóru af stað og hurfu en þessi tvö færðu sig rólega út að skurðinum í svo sem þrjátíu metra fjarlægð inn í skóginn. Þar stóðu þau á móti hvort öðru, sleiktu andlit hvors annars og það var hreinlega eins og þau væru að kyssast og kela.

Það var eiginlega sorglegt að sjá það þar sem ég var þá þegar búinn að taka ákvörðun. Ég ætlaði að hringja í Lars veiðimann, nágranna í öðru húsinu til suðurs, og segja honum að þetta virtist of alvarlegt til að bara horfa á það. Lars var ekki heima við en sagðist mundi tala um þetta við Ívar veiðimann sem á heima í öðru húsinu norðan við. Nokkru síðar sá ég Ívar ganga suður veginn skimandi í allar áttir. Svo hugsaði ég ekki meira um það, þetta var komið í hendur manna sem gátu annast það og við vorum að byggja.

Ekki hef ég frétt af því hvernig Ívari gekk en í morgun sá ég bara eitt dádýr út um þvottahúsgluggann og það haltraði ekki. Kannski fann Ívar skaðaða dýrið eða að refurinn annaðist verkið. Þeir veikustu verða fyrsta bráðin fyrir hungruð rándýr. Vissulegsa hefði aðferð Ívars orðið miskunnsamari til að stytta þjáninguna.

Hugsum okkur sumardag. Dádýrsmamman og kið hennar eru á beit í skóginum og lífið leikur við þau. Friðsæla stundin tekur þó snöggan enda þegar refurinn stekkur fram frá föllnu tré og grípur kiðið taki. Mamman gengur til orrustu en þá birtist annar refur og yrðlingar dansa á vígvellinum. Dádýrsmamman getur ekkert gert annað en að gelta þessu háa hvella gelti í mikilli örvæntingu og hjartað berst óstjórnlega. Kiðið brýst um í lengstu lög en að lokum liggur það máttvana í lynginu og lífi þess er lokið.

Heil refafjölskylda seður hungur sitt og þegar veislan er vel hafin hverfur ráðlaus dádýrsmamman á braut og sorgin umlykur hjartað. Eftir einhvern klukkutíma er refafjölskyldan mett og leggst til hvíldar. Allir fjölskyldumeðlimirnir finna næringuna fylla kroppinn yndislegu lífi, lífi sem ólgar, sólin skín, allt er dásamlegt hjá þessari fjölskyldu og allar óskir eru uppfylltar. Ekkert vantar. Dádýrsmamman fjarlægist og sorgin dvínar en næstu daga lítur hún snöggt upp þegar hún verður vör hreyfingar en þrátt fyrir væntingar er það ekki kiðið hennar sem er að koma.

Þegar refafjölskyldan vaknar eftir miðdegisblundinn teygja allir úr sér, yrðlingarnir sem ennþá njóta þess að vera mettir verða brátt leikfullir og ærslast. Lífið er gott. Undir kvöldið étur þessi fjölskylda það sem eftir er af kiðinu. Það getur orðið bið á næstu góðu máltíð.

Fjölskylda stendur upp frá borðum og allir eru einnig mettir þar. En það er ekki nóg. Það þarf að gera ráðstafanir, fara í vinnu, þéna meira því að það þarf að auka neysluna svo að hjól atvinnulífsins gangi hratt og hraðar en nokkru sinni fyrr. Og til að hjól atvinnulifsins snúist nægjanlega hratt til að skila meiri arði en nokkru sinni fyrr þarf að auka neysluna upp í margfalda framleiðslugetu móður Jarðar. Þá á lífið að verða gott.

Hvað er svo neysla? Fyrir refafjölskylduna var það að verða mett og hvílast í sólinni. Sagan er sjálfsagt orðin gömul og löngu slitin um fólkið við vatnið í Afríku sem mætti ekki til skips daginn eftir fyrsta góða veiðidaginn. Skipstjórinn frá Vesturheimi sem var að kenna þeim að fiska varð alveg steinhissa. Þegar hann gekk í land til að athuga hverju þetta sætti komst hann að því að allir voru mettir og ánægðir vegna þess að afli gærdagsins var meira að segja svo mikill að hann mundi duga til næstu daga líka. Þeir sem vissu ekki að fyrirbærið "hjól atvinnulífsins" væri til voru ánægðir með þetta.

Refurinn drap dádýrskiðið en ég vil drepa mömmuna líka. Ég vil líka drepa elgina og skjóta allan gæsahópinn sem flýgur yfir en samt er ég saddur. Þess vegna vil ég líka klára málminn úr fjallinu. Svo vil ég klára allan fosfór sem jörðin hefur að geyma og ef ég get grætt á því að klára eitthvað annað líka verð ég að gera það. Ég vil eiga tvo bíla og ég vil eiga sumarbústað í fjöllunum og ég vil eiga snekkju og í staðinn fyrir Sólvelli vil ég eiga höll. Svo vil ég eiga hjákonu.

Nei. Ég auglýsi eftir nýrri forskrift að því sem kalla mætti gott líf.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0