Serstaklega til Þórlaugar

Já Þórlaug, innlegg þitt á bloggið mitt næsta hér fyrir neðan var eitthvað til að hugsa um. Ég áttaði mig til dæmis á því að eitthvað sem er alveg á því hreina í mínum huga þegar ég blogga, er ekki endilega jafn klárt fyrir þá sem lesa. Hér á Sólvöllum er ég alveg hæst ánægður með það sem hefur verið gert þó að sumt af því sé gert á öðrum árstíma en einu sinni var hugsað. Við vorum einar fimm vikur út í skógi í vor við að grisja, hreinsa, mala greinar og hlú að á einn og annan hátt. Þetta var mikilsverð vinna og mun skila sér meira síðar, til dæmis eftir fimm ár. Sólvellir eru líka búnir að fá nýtt heimalandslag, landslag sem okkur hefur dreymt um öll ár síðan við keyptum. Og svo er húsbyggingin á góðri leið en það er sá þatturinn sem lendir á annarri árstíð en upphaflega var gert ráð fyrir. Hins vegar ber því ekki að neita að það verður okkur léttara ef miðað er við fjárhag. Ég mun vinna mikið meira að byggingunni sjálfur fyrst þessdi dráttur varð á. Svo er ég búinn að vinna það mikið í Vornesi að það sem af er byggingu, þá hef ég enn sem komið er unnið fyrir öllum kostnaði á árinu. Ég kem meira að því síðar.

En svo er nefnilega eitthvað hitt sem við höfum ekki gert á þessu annars afar fallega sumri. Við fengum dálítið af heimsóknum sumarið 1996 þegar við áttum heima í Falun. Það var regla varðandi þær heimsóknir að fara einn hring um vatnið Siljan með viðkomu í bænum Mora og borða á Hótel Gösta. Í einni þessara ferða vorum við þrjú, ég, Valdís og Binna systir hennar. Þegar við vorum vel á heimleið við suðaustanvert vatnið sá ág skilti sem á stóð Vidablick sem ég mun kalla Víðablik. Þetta þótti mér athyglisvert og ég stakk upp á að við heimsæktum þetta Víðablik. Þegar við komum á áfangastað vorum við á hæð einni sem er 352 m yfir sjávarmáli. Þar gaf að líta útsýnisturn einn sem reyndist 28 m hár og ég stakk upp á því að fara upp.

Þær systur völdu að sitja á bekk þar á jörðu niðri en ég lagði á brattann og gekk að mér fannst ótrúlega marga hringi áður en upp var komið. Þar hafði ég útsýni yfir gamlar furur og þetta útsýni er mér ógleymanlegt. Slíkt hafði ég aldrei séð áður. Fyrst leit ég til norðurs, sá yfir Siljan og síðan í mishæðótt landslag þar norðan við og mér fannst ég sjá óralangt. Ég leit til vesturs og sá verulega langt, styttra til suðurs og styttst til austurs. Hvert sem ég leit gaf að sjá gróið land eða stöðuvötn. Þetta gróna land var ýmist iðjagræn akurlönd eða skógur. Svo mikinn gróður hafði ég aldrei litið af einum og sama stað. Ég var algerlega heillaður. Ég veit að sjónlínan til norðvesturs frá Víðabliki til staðar sem heitir Älvdalen er 60 km og þangað sést alla leið. Síðar las ég um það að fyrir 360 milljónum ára hafði fallið gríðarlegur loftsteinn á jörðina og hann skall niður þar sem nú er ákveðið vatnasvæði sem Siljan er hluti af. Hitinn í ægilegu sárinu sem myndaðist var svo mikill að að jörðin sauð þar í 100 000 ár.

Við vorum þátttakendur í hópferð um Skán fyrir fáeinum árum. Við ferðuðumst þar allmikið og einn daginn heyrðum við þegar leiðsögumaðurinn sagði við bílstjórann að það væri alveg tími til að fara upp á Suðurásinn eins og það heitir. Á leiðinni upp mátulegan halla sagði leiðsögumaðurinn að við værum á leiðinni upp í skánsku Alpana. Mig minnir að hæðin hafi verið 168 m. Þegar upp var komið vorum við stödd mitt inn í gömlum beykiskógi, beykiskógi sem var nákvæmlega eins og friðaður beykiskógur á að vera. Botninn var brúnn vegna ljósleysis eins og það er í ekta beykiskógi en þeir sem til þekkja vita að áður en beykið springur út í lauf er botninn þakinn ógnarlegum fjölda af skógarliljum og öðrum vorgróðri.

Við gengum stuttan spöl frá rútunni og vorum brátt stödd á barmi mikillar gjár þar sem gott útsýni var til austurs. Þessi gjá myndaðist í einhverjum umbrotum fyrir einum miljón árum ef ég man rétt og útsýnið til austurs var beykivaxnar mjúkar hæðir svo lant sem augað eygði. Í minningunni var hópurinn stutta stund álíka hljóður og ég hafði verð einn mörgum árum áður uppi í turninum á Víðabliki.

Mér er vel ljóst að ég er búinn að blogga um báða þessa staði áður.

Það eru sjálfsagt einir þúsund staðir í Svíþjóð sem geta gefið okkur Valdísi svona sterka upplifun ef við sækjum þá heim. Bæði þessi atvik og mörg önnur lifa enn sem sólskinsbjartar minningar og það væri skemmtilegt að safna fleirum slíkum til að hafa sem veganesti inn í elliárin. Þakka þér fyrir þessa athugasemd Þórlaug, hún fékk mig til að hugsa og setja hugsunina í orð.

Beykiskógur á Skáni
Þessa mynd tókum við í "sænsku Ölpunum" á ferð okkar þar fyrir nokkrum árum. Fyrir miðri myndinni er gjáin sem ég talaði um ofar.


Kommentarer
Þórlaug

Takk fyrir þetta Guðjón, innleggið þitt fékk mig líka til að hugsa.



bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-09-29 @ 23:51:04


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0