Kvöldhugleiðingar í Stokkhólmi

Á tólfta tímanum á laugardagsvköldi heima á nýja heimili Rósu, Péturs og Hannsar Guðjóns í Stokkhómi. Allir eru lagstir til hvílu og ég heyri svefnhljóð frá Valdísi þannig að nú sit ég einn að kvöldkyrrðinni. Í morgun fór ég í sturtu og reyndi að sturta af mér svo miklu sem ég gat af eymdinni sem ég bloggaði um í morgun. Þegar ég var þar að ganga frá mér eftir sturtuna heyrði ég gítarleik og söng framan úr íbúðinni. Pétur pabbi spilaði á gítar fyrir Hannes Guðjón og hann, mamma og amma sungu öll Litlu andarungarnir. Mér fannst þetta svo undur fallegt og fallega gert og síðar í dag spurði ég hvernig Hannes hefði tekið þessu. Jú, hann hafði bara staðið kyrr og hlustað.

Þetta var svo ólíkt því sem ég kynntist í mínu uppeldi og ég hugsaði sem svo að ef slíkt hefði verið viðhaft á Kálfafelli á mínum bernskuárum þyrði ég kannski að taka undir þegar fólk syngur. Ég er ekki að kvarta undan mínum uppvexti þó að ég segi þetta og ég tel bara að sú uppfóstran sem ég fékk hafi skilað mér vel áfram á lifsleiðinni. Allra flestir foreldrar gera sitt besta og gera það vegna þess að þeir telja það rétt. Hins vegar hef ég kynnst mörgum á síðustu sautján árum sem elta gamla hluti frá uppvexti eða öðru frá æskuárunum og eiga alltaf erfitt uppdráttar svo lengu sem þeir ná ekki sátt. Svo eru aðrir sem hafa lent í ennþá verri hlutum en tekst að sættast vegna liðinna atburða og fyrirgefa og lifsleið þeirra verður greið.

En nú ætla ég að sleppa þessum hugleiðingum en minningin fá í morgun er sem ég sagði áður falleg. Ég hef ekki hreyft mig út úr húsi í dag en þó fengið að upplifa meðal annars þetta fallega frá í morgun. Annars finnst mér alltaf Stokkhólmur vera mikið falleg og skemmtileg borg, hvort heldur er að sumri eða vetri. En ég held að ég sé samt sammála Valdísi um að ég vildi ekki eiga heima hérna. Þó runnu á mig tvær grímur um daginn þegar Rósa benti á fallegt hús með útsýni yfir eitt af Stokkhólms fallegu sundum og hún spurði hvort við vildum ekki sækja um elliheimilispláss þar. Þetta heillaði mig eitt augnablik en svo komu aðrir hlutir að hugsa um.

Það var vetur fyrir svo sem sextíu árum að við stóðum nokkur úti á hlaði á Kálfafelli. Það var hörkufrost, stjörnubjart, tunglssjós og mjög hljóðbært. Við hlustuðum eftir hljóðum frá hestvagnahjólum fjöruferðarmanna sem þá áttu að vera á leið heim. Þessar vetrarferðir voru farnar á ís og til að sækja rekavið sem var mikil búbót í þá daga. Ég get ekki munað hvort menn voru eina eða tvær nætur burtu í þessum ferðum. Páll bróðir var með í þessaari ferð. Við töldum okkur heyra hljóðin og þá hlutu þeir að vera að nálgast byggð eftir óralanga ferð frá strönd Atlantshafsins á ísum. Það var ævintýraleg hugsun fyrir mig, rosalega ævintýraleg. Þegar Páll kom heim var ég sofnaður.

Þetta var á þeim árum þegar ég taldi að ég mundi aldrei koma í Öræfin vegna þess að þau voru hinu megin við Skeiðarársand, þennan voðalega sand með Skeiðará og Núpsvötnum og öllum hinum vötnunum. Einmitt þetta kvöld sem við stóum þarna má reikna með að útsýnið til Öræfajökuls hafi verið frábærilega fallegt. Í mínum augum var ferði til útlanda fyrir einhverja allt aðra en mig. Nú er ég hjá barnabarninu mínu hér í Stokkhólmi og að fylgjast með athöfnum og vexti þessa barns sem fær mig til að hugsa um margt frá minni barnæsku.

Við sungum ekki á Kálfafelli en ég hafði mikið gaman af að skoppa um hraun og holt og hæðir og vissir staðir eru mér sem nokkurs konar helgidómur í minningunni eftir mitt einfararölt þar fyrir meira en hálfri öld. Ég var nú mikll einfari held ég og ég er það enn í dag, en ég vil þó segja í hófi. Mér þykir vænt um að hitta sjálfan mig í einrúmi og eiga við mig kunningsskap og sjálfsskoðun. Ef ég ekki gerði það hefði mér til dæmis ekki tekist að koma saman þessum línum. En nú er líka kominn tími fyrir mig að ganga á vit Óla Lokbrá og þá munu líka fara að berast frá mér svefnhljóð innan skamms. Ég prófles þetta í fyrramálið.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0