Haustlitir

Vorið er liðið og sumarið er liðið og það er komið haust. Haustið er hins vegar ekki liðið og eiginlega eru haustlitirnir bara rétt byrjaðir þó að það sé búið að vera töluvert lauffall. Það er um þetta leyti sem mér verður alltaf hugsað til þess hvernig ég hafi ávaxtað sumarið. Ég hef ekki ávaxtað sumarið sem skyldi og það mesta sem ég hef gert í vor og sumar hef ég gert með það fyrir augum að fá rólegra sumar að ári. Ég hef talað um Hurtigruten, Stokkhólmsskerjagarð, beykiskógana á Skáni, Härjedalen, Torneälven, Jämtland og svo hefur sumarið liðið og engan þessara staða höfum við heimsótt svo að ekki sé talað um að við höfum siglt norska Hurtigruten.

Í dag var ég á faralds fæti og fór til Eskilstuna, um 100 km austan við Örebro, og hitti þar helling af góðu fólki. Valdís var heima og gætti búsins. Á báðum leiðum hugsaði ég um þetta, að hafa ekki ávaxtað sumarið, og ég dáðist að náttúru þessa lands sem ég hafði vanrækt heilt sumar. Við höfum nú ekki verið svo léleg neitt annað sumar held ég við að skoða landið sem við höfum verið núna í ár. Það er eins gott að klára það sem fyrir liggur á þessu ári og fara svo að njóta ellilífeyrisáranna ögn meira. Fyrst af öllu verður þó ferð til Íslands og Vestmannaeyja að vori. Þá verður hún Erla dótturdóttir okkar fermd. Annars er ég alveg til í að vinna eitthvað áfram á næsta ári ef þau vilja hafa mig áfram í Vornesi þá líka.

Ég fékk svo góða einkunn í gær varðandi aldur minn að ég get ekki séð að ellihrumleiki minn fyrirbyggi að ég geti unnið með fólk eitthvað áfram. Ég fékk líka svo góðar móttökur í Eskilstuna í dag að ég finn mig færan í flestan sjó varðandi vinnuna mína. En það er einmitt meðan við erum það hress sem við erum sem við eigum að skoða landið og leika okkur. Við vorum á leið til Stokkhólms um miðjan mánuðinn og stoppuðum á stað sem við köllum oft Hreðavatnsskála og fengum okkur að borða. Þar var þá hópur aldraðra á ferð, tvær stórar rútur, og þetta fólk var að borða allt í kringum okkur. Alveg var frábært hvað þetta fólk var glatt og vel útlítandi. Konurnar voru greinilega nýbúnar að fara á hárgreiðslustofu og kallarnir voru fínrakaðir og mjúkir um vangann að sjá. Það má mikið vera ef það var ekki töluvert kelerí á náttstað þeirra um kvöldið og kannski smávegis kitl í nárann líka.

En nú er kominn svefngalsi í mig svo að það er best að ég fari að bursta og ..... áður en ég geng á vit Óla vinar míns Lokbrá. Ég sagði áðan að ég hefði dáðst að náttúru þessa lands og eftir að ég kom heim úr ferð minni sá ég mynd á fésbókinni, mynd sem einmitt er tekinn svo nálægt staðnum þar sem ég var í dag. Ég hitti þar líka ljósmyndara þessarar myndar og þegar ég svo sá myndina eftir heimkomuna bað ég leyfis að fá að nota hana á bloggið mitt sem mér var svo velkomið að gera. Myndin er tekin heldur seinna að hausti 2006 og sýnir sænskt haust í sinni allra fegurstu mynd.



Kommentarer
Auja

Guðjón það er alltaf svo nærandi fyrir sálina að lesa bloggin þín, maður upplifr svo mikið sænska "lífið" hjá ykkur og allt sem er í gangi, hugurinn er mjög mikið þar Takk fyrir að deila þessu með okkur

Knús í hús

2010-09-26 @ 02:03:53
Þórlaug

Gupjón, ég varð svo hissa þegar ég las að þú hafir ekki nýtt sumarið. Þú sem ert búinn að vera á fullu að byggja í allt sumar og vinna helling með. Þú hlýtur að vera sá eini sem heldur þetta!!!

Gaman að heyra að þið komið til landsins næsta vor, kannski hittumst við þá??



Bestu kveðjur úr haustinu á Íslandi,



Þórlaug

2010-09-26 @ 11:12:41
Guðjón Björnsson

Takk fyrir innleggin ykkar Auður og Þórlaug. Næsta blogg ofan við er tengt þessum innleggum.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2010-09-26 @ 21:39:04
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0