Valdís hélt að ég hefði sofnað

Það var langur vinnudagur á sveitasetrinu í dag og síðan var það vefrslunarferð. Ég ákvað að því loknu að setjast framan við sjónvarpið og horfa alla vega á fréttirnar og slappa notalega af. Óli kom auðvitað og daðraði svolítið við mig og fékk mig til að loka augunum og Valdís hélt hreinlega að ég hefði sofnað. Ha ha, auðvitað steinsofnaði ég. Svo vaknaði ég við það að besti grínleikari landsins og sá sprellikall sem hefur oftast fengið mig til að skellihlæja, Robert Gustavsson, var kominn á skjáinn. Ég svo sem horfði á hann um stund en hló bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég held bara að ég hafi verið of hrokafullur til að hlæja að honum. Ég var þreyttur og brást við því með hroka. Ekki get ég, fyrrverandi skaftfellskur smalamaður, viðurkennt að ég sé þreyttur. Nehei. En ég viðurkenni að ég sé ánægður með að húsið verður formlega fokhelt í næstu viku ef ekkert sérstakt kemur til.

En ég náði því þó áður en ég sofnaði yfir fréttunum að fjárhagur sveitarfélaga er svo góður í ár að það eru milljarðatugir í afgang hjá þeim og krepputímabili er því lokið samkvæmt útreikningum snillinga. Kannski það sé ellilifeyrisþegum að þakka sem halda áfram að vinna og byggja fyrir umframpeningana og skaffa vinnu. Enn einu sinni er unga starfsfólkið í Vornesi veikt og ég kem til með að vinna um nstu helgi. Það er að vísu búin að vera meiningin síðan snemma í vor en nú þurfti meira að koma til.

Jorma, finnskur maður og nýbakaður ellilífeyrisþegi sem unnið hefur í Vornesi í nokkur ár kom í heimsókn í gær á fjórhjólinu sínu. Hann býr í Vermlandi. Meðan hann sat hér hringdi forstöðukonan í Vornesi í hann gegnum farsímann og reyndi að semja við hann um helgina. Ég vissi að hún ætlaði að tala um þetta við hann og skildi vel hvað þeim fór á milli. Nokkrum augnablikum eftir að Jorma lagði á hringdi hún í mig og ég byrjaði á að spyrja hana hvort hún hefði náð sambandi við Jorma. Hún kvaðst hafa gert það og hann væri tilbúinn að vinna. Nú var það Jorma sem hlustaði á okkur og hann horfði skáhalt upp í loftið og glotti við.

Þannig létum við ellilífeyrisþegarnir eins og smá strákar sem halda að þeir séu rosa sniðugir. Við Jorma komum til með að hittast í Vornesi um helgina. Eftir helgi er spáð afar góður veðri, þessu fallega veðri sem september býður svo oft upp á. Haustlitirnir taka sífellt meira völdin og laufið er byrjað að klæða skógarbotninn þar sem það ætlar að verða að nýrri næringu næsta sumar og einhver sumur þar á eftir.

Fyrr í kvöld þegar ég var of snobbaður til að hlæja að Robert Gustavssyni gerði ég tilraun til að blogga. Ég komst ekki einu sinni svo langt þá að byrja á fyrirsögn. Nú er kvöldværð komin yfir mig og ég hlakka til að leggja mig á koddann og ennþá meira til að takast á við nýjan dag á morgun.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0