Ljúf náttúra

Mikið ef ég var ekki svolítið eftir mig í dag eftir skriðdýrsvinnuna undir húsinu í gær við gröft og með malar- og steypufötur fram og til baka. Alla vega var ég ekki neitt sérstaklega uppkjöftugur fram eftir degi og eftir það fannst mér ekki taka þvi að vera með rembing. Ég var ekki farinn að gera nokkurn skapaðan hlut klukkan tíu þegar sjónvarpsmessan byrjaði og eftir messuna fór ég afar rólega af stað. Að lokum var ég þó búinn að gera það sem mér lá á hjarta að gera áður en Anders smiður kemur í fyrramálið.

Valdís lagði plastpoka útfyrir dyrnar og þegar hún gerir það veit ég að ég á að fara með hann í moltukassann úti í skógi. Þegar ég fór í þá ferð var búið að gera hressilega hellidembu og gulnuðum birkilaufum hafði fjölgað á lóðinni og í skógarbotninum. Undanfarið hef ég bara farið hraðferð í moltuna og svo hraðferð til baka aftur. Í dag fór þessu öðru vísi. Ég fór rólega út að kassanum og svo hélt ég rólega áfram lengra út í skóginn að mörkum okkar skógar. Þegar ég var kominn þangað stoppaði ég, dró djúpt andann og fann angan af gróðri og jörð fylla líkamann. Það var kyrrt og það var einhvern veginn allt fullt af þægilegu umhverfi og andrúmslofti. Ég undraðist hvers vegna í ósköpunum mér hefur fundist undanfarið sem ég hefði ekki tíma til að gera þetta.

Ég horfði á grenitré sem höfðu vaxið einhver ósköp sumar og ég var þess fullviss að þau hefðu vaxið meira en nokkru sinni fyrr í Sólvallasögu okkar. Ég horfði á grenitrén tvö, þau stærstu þegar við felldum tré í fyrstu viðbygginguna 2006. Mikið var ég glaður að við skildum þau eftir þó að þau hefðu auðvitað gefið af sér marga góða planka. Ég gekk í kringum þau og horfði á þau frá auðu svæði en vegna hæðar sinnar var erfitt að sjá hvað þau höfðu vaxið mikið í sumar. Þessi tré hljóta að vera að nálgast 30 metra. Þarna hafa þau staðið hlið við hlið í ein 80 ár eins og þau væru trygg hjón og ekki haggast hvort frá öðru. Þau eru aldursforsetar í þessum skógi okkar ásamt furunni sem fór að halla í storminum 1969 og hallar enn.

Næsta sumar og framvegis þurfum við að eigna þessum skógi góðan tíma í staðinn fyrir að standa á haus í byggingarvinnu. Að vísu eignuðum við honum nokkrar vikur í vor en þá höfðum við ekki sinnt honum að marki í tvö ár. Gerum við það bjóðum við upp á það að geta átt mörg svona góð augnablik í þessum skógi lík því sem ég upplifði í þessari gönguferð í dag.


Þegar verið er við þetta borð er varla hægt að segja að komið sé út í skóginn. En samt gefur það eitthvað svo góða stemmingu að vera þarna og borða pönnukökur. Ég held meira að segja að hann Hannes Guðjón hafi fundið fyrir þessari stemmingu líka þegar hann var þarna með okkur að borða pönnukökurnar hennar Valdísar. Það er í nánd við þennan stað sem við höfum verið við göngustígagerðina undanfarið.


Þessa mynd tók ég 12. nóvember í fyrra þegar ég var á gönguferðum að æfa mig upp eftir mjaðmaaðgerðina. Ég fór þá oft framhjá þessum stað og fannst þessi sýn svo makalaust falleg. Svo tók ég myndavélina með og tók sýnina með mér heim. Það er eins og það sé eitthvað heillandi og leyndardómsfullt þarna inn á milli trjánna. Þetta er í skóginum hans Arnolds og þetta er dæmi um vel hirtan barrskóg. Nú þarf ekki að hirða hann lengur, hann sér um sig sjálfur með hóflegri birtu niður við jörð sem dregur úr óhóflegum botngróðri. Að þessu markmiði vinnum við í Sólvallaskóginum og svo lengi sem við erum ung í anda munum við hafa kraft til þess. Konan sem var hér á Sólvöllum á undan okkur var ein hér síðustu fimmtán árin og hún var hér síðast árið sem hún var 84 ára. Samkvæmt því eigum við mörg ár eftir hér.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0