Lítill athafnadagur í dag

Í dag hef ég ekki unnið mér neitt til frægðar. Smiðurinn kom í morgun og vann tvo tíma til að ljúka stóra áfanganum sem stóð yfir í gær og fyrradag. Ég hef ekki gert svo mikið annað í dag en að leita að tommustokknum og blýantinum og hringsnúast svo kringum sjálfan mig. Ég var meira að segja farinn að tala um það við Valdísi að ég væri þreyttur. Ég held nú samt að það hafi verið meira vatnsskortur en þreyta sem hrjáði mig. Það er merkilegt að vera 68 ára og gleyma suma daga að drekka nægilega mikið af vatni. Hann segist líka lenda í þessu stöku sinnum hann Ingemar vinnufélagi og ellilífeyrisþegi og þá verði hann svo voðalega þreyttur. Reyndar hef ég grun um að það lendi margir í þessu.

Ég bætti úr mínum vatnsskorti um miðjan dag og þá fékk ég kraft í mig til að fara með gamlan, ónýtan panel á endurvinnslustöðina og kaupa stoðir og sperruefni í forstofuna. Það hefur safnast mikið upp sem þarfa að koma í endurvinnsluna og í næstu viku verða góð tækifæri. Ég ofhlóð svo kerruna af byggingarefninu sem ég keypti í leiðinni til baka, sérstaklega þannig að hún var of afturþung. Svo keyrði ég hingað með hálf lélega samvisku og afskaplega rólega. Valdís gerði innkaup meðan ég sýslaði í endurvinnslunni og byggingarvöruversluninni. Við reynum að sameina ferðirnar eftir bestu getu ellilífeyrisþegarnir og vera þannig bæði umhverfisvæn og sparsöm. Hins vegar verð ég ekki svo umhverfisvænn um helgina því að það verður tveggja glugga vinna hjá mér um helgina, það er að segja tvær nætur.

Ég er svo yfir mig hrifinn af veðurspá sænsku veðurstofunnar sem spáir fram til 11. september og það á að vera þurrt og hlýtt. Norska veðurstofan gerir sama en reynir þó að spá 0,2 mm úrkomu tvo daga í næstu viku. Það er svo lítið að ég hlusta ekki á það. Ég gekk út að kerrunni snemma í morgun og pollur af vatni sem var ofan á yfirtrekkinu var frosinn. Samt sýndi mælirinn í skuggahorninu tveggja stiga hita klukkan sjö. Annars er landið fagurt og grænt ennþá og haustsánu akrarnir eru byrjaðir að grænka.

Klukkan er tíu og mál fyrir mig að ganga til fundar við Óla Lokbrá. Ég á möguleika á að sofa í tíu tíma áður en ég legg af stað í vinnu á morgun og ég skal vera alveg heiðarlegur og segja að mig langar til að sofa þessa tíu tíma, taka svo rólegan morgunverð og sýsla aðeins eitt og annað áður en ég vinka Valdísi bless og bið hana að fara varlega. Ég get eiginlega ekki skilið það að ég sé ellilífeyrisþegi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0