Frá aðalmiðstöð

Á þriðjudaginn var, í fyrradag, var ég einn að smíða vestan við húsið, var hálf boginn að negla, þegar ég sá allt í einu mannsfætur og hund rétt við nefið á mér. Það lá við að ég tæki svolítið viðbragð en hélt þó sönsum. Þarna var á ferðinni maður úr nágrenninu, maður aðeins yngri en við, sem oft hefur talað við okkur yfir grjótgarðinn milli lóðar og vegar og að vísu líka komið hingað heim. Það varð spjall um daginn og veginn eins og gengur en mér fannst eins og hann hefði huga á nánara spjalli en venjulega. Þegar ég spurði hvernig það gengi með blóðþrýstinginn sagði hann að enn væri verið að ná jafnvægi með lyfjagjöfina.

En svo var eitthvað fleira á ferðinni. Hann hafði farið til læknis vegna þess að honum fannst hann verða of þreyttur við litla áreynslu. Læknirinn komst að því að það kæmi til af hjartsláttartruflunum. Hann hafði því fengið rafstuð tvisvar sinnum vegna þessa og hann hélt að það hefði hjálpað eitthvað. En læknirinn vildi ekki láta þar við kyrrt liggja og fór að tala um gangráð. Þar var málið nú í biðstöðu. Eitthvað fleira angraði manninn en svo var komið að hundinum.

Hann hafði líka verið hjá lækni og kom í ljósað hann var með æxli við endaþarminn. Eftir þrettán ára samvistir var nú ljóst að þeim dögum færi fækkandi. En hundurinn er brattur, sjáðu, sagði granninn en í því hringdi síminn. Ég heyrði vel á samtalinu að það var að heiman. Þegar hann hafði lagt á sagði hann: Þetta var aðalmiðstöð. Svo lögðu þeir af stað heim, maður og hundur og hvorugur gekk heill til skógar. Sérstaklega maðurinn gekk hægum frekar þungum skrefum.

Aðeins meira um þetta með aðalmiðstöðina. Við hittumst eitt sinn inn í skógi og tókum tal saman. Þá var líka hringt frá aðalmiðstöð og hann sagði eftir samtalið: Þú sérð að ég er undir eftirliti. Í hvorugt skiptið var hann háðskur og þar að auki, eftir spjallið um heilsufarið, skil ég betur að aðalmiðstöð vilji vita hvernig honum vegni gönguferðirnar. Svo hélt ég áfram að smíða um stund en tók svo þá erfiðu ákvörðun um að fara í önnur verkefni daginn eftir.

Svo kom dagurinn eftir, miðvikudagur, og ég læddist út um sjö leytið og fór að flytja mold á hjólbörum út í skóg. Eftir sjö hjólbörur af blautri og þungri mold var ég orðinn þreyttur sem mér líkaði ekki. Var ég að verða lasinn eða hvað? Nei, en var ég kannski ímyndunarveikur eftir heimsókn nágrannans deginum áður. Ég ákvað að fara að flytja inn það sem eftir væri af eldivið úti. Það væri léttari vinna. Í því opnaði Valdís útidyrnar og spurði hvort ég væri orðinn bilaður. Ég benti á höfuðið á mér og spurði nokkuð háðskur hvort henni dytti í hug að þessi maður væri bilaður. En með það fór ég inn og borðaði mikinn morgunverð. Ég á ekki að vera háðskur móti Valdísi.

Það er skemmst frá því að segja að eftir klukkutíma morgunverð komst ég í gang af þvílíkum krafti að ég varð ekkert ánægður þegar Arnold bóndi stoppaði við heimkeyrsluna og gekk inn á lóðina til mín. Þegar við vorum farnir að spjalla saman fannst mér þó reglulega gaman að kallinn skyldi líta við. Þá var ég að tína eldivið í hjólbörurnar. Mér finnst svolítið skammarlegt að viðurinn liggi úti ennþá varð mér að orði. Já, það má kannski segja það, svaraði hann, en þú hefur líka í mörgu öðru að snúast. Þarna, gott að einhver sá að ég hef í mörgu að snúast.

Svo töluðum við um búskap. Ég er búinn að taka ákvörðun, sagði Arnold. Og hvað nú Arnold? Ég er búinn að taka stóra ákvörðun, ég er hættur búskap og ég er búinn að leigja Mikka öll mín akurlönd. Ja hérna. En er það ekki bara fínt Arnold og svo hefur þú skóginn. Jú, það er fínt. Þá get ég sleppt áhyggjunum og ef það rignir þegar ég lít út um gluggann á morgnana, þá nær það ekki lengra. Það er þá ekkert sem þvingar mig út í skóg. Svo hringdi síminn og ég heyrði vel að það var frá aðalmiðstöð. Ég er hérna upp á brekkunni að tala við Íslendinginn sagði hann í símann. Þegar hann hafði lagt á sagði hann að það hefði verið konan.

Arnold er maðurinn sem fór á fólksvagen bjöllu til Kumla til að biðja sér konu snjóaveturinn 1966. Þau eru ennþá hjón og búa í hvíta húsinu niður við malbikaða veginn. Ég sagði Valdísi frá þessum hringingum frá aðalmiðstöðvunum og hún spurði þá hvort ég væri ekki feginn að hún væri ekki alltaf að hringja á eftir mér. Jú, ég var það, en ýmsar aðstæður geta samt valdið því að þessara hringinga sé þörf. Síðan skrapp ég með hana til Örebrú og fór með gmlan panel í endurvinnsluna um leið.

Eftir heimkomuna fór ég enn í moldarflutning í göngustígana. Það er nú sérkapítuli sem bíður morguns en þessir göngustígar eiga ábyggilega eftir að verða til ánægju fyrir fleiri kynslóðir.



Kommentarer
Valgerður

Systkini Jónatans kalla það að fara í stjórnstöð að skreppa til Möggu systur og mömmu sína kalla þau stundum framkvæmdastjórann (en það kalla þau Möggu líka stundum).

VG

2010-09-10 @ 13:11:42
Guðjón Björnsson

Það eru líklega til svona séreinkenni í flestum fjölskyldum.

GB

2010-09-10 @ 20:42:50
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0