Völundarhús

Mikið var ég feginn þegar síðasti viðurinn komst undir þak í gær. Mikið var ég líka feginn þegar síðasta handtakið var gert við göngustígana. En mest var ég feginn þegar ég var búinn að grafa upp og laga frárennslislögnina. Þetta með frárennslislögnina var nefnilega þannig að þegar hann Jonas fór á skurðgröfunni inn á frágengið svæði og grafan sökk sem mest í rennblauta jörðina, þá seig lögnin undan gröfunni. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en eftir á og þá var ekki um annað að gera en að taka stunguspaðann og grafa niður á lögnina á sex metra svæði, lyfta henni og setja sand undir. Það var ánægjulegt að það var grunnt niður ná lögnina þegar ég gróf en ef hún hefði legið all nokkuð dýpra hefði hún heldur ekki sigið undan gröfunni. Það eru landfræðilegar ástæður fyrir því að lögnin er ekki á meira dýpi á þessum stað. Það eru ástæður fyrir mörgu hér á Sólvöllum, en einhvern tíma fyrr í lífi mínu hefði ég haft ástæðu til að fara í vont skap yfir þessum grefti. Þetta var nefnilega í annað skiptið sem ég þurfti að gera þetta vegna gröfuvinnu hér. En batnandi manni er best að lifa og ég gleðst yfir því að hafa þroskast frá svona vitleysu og fengið betri stjórn á lundarfari mínu.


Hugmyndin að láta sláttutæka gögustíga liðast um skóginn fæddist hægt og rólega. Fyrst var búið til svæði fyrir borð út í skóginum og þá þurfti að hafa góða gönguleið þangað. Svo varð sú gönguleið svo fín að við bættum aðeins við hana. Svo komu Hannes og Rósa og þá varð ljóst að þetta var stór sniðugt. Þá spurði Rósa hvort það væri ekki hægt að gera stíg "þangað" líka. Auðvitað var það hægt og þá bættum við meiru við en meiningin hafði verið að gera á þessu ári. En hvers vegna þessa stíga? Jú, í gær kom hann Lars nágranni með litlu Siw sem er 16 mánaða. Siw fór út á stíg sem ekki var tilbúinn en henni fannst þetta svo óskaplega gaman og hljóp og hljóp. Svo datt hún og fór að gráta. Lars pabbi fór og sótti hana en það var komið í ljós að stígarnir eru skemmtilegir fyrir börn.


Ég valdi fyrirsögnina Völundarhús og þessi mynd skýrir það kannski. Ég veit að þetta verður skemmtilegra fyrir fleiri en börn. Þetta verður líka fínt fyrir okkur sem erum eldri og aldeilis frábært fyrir ellilífeyrisþega sem oft fer út í skóg til að huga að vexti kunningja sinna þar. Svo verða líka ber meðfram stígunum.


Þegar fjögurra ára Alma systir Siw frétti af stígunum kom hún hlaupandi. Hún hleypur oft sú stúlka og nú fór hún að hlaupa stígana, í fyrsta lagi þá sem enn voru mold og ekki tilbúnir. Svo fór hún inn til Valdísar að fá sér að drekka. Það er nú eitt það skemmtilegasta sem hún gerir að fá að drekka með Valdísi og segja henni frá ævintýrum sínum.


Eftir góða hressingu kom svo Alma út með Valdísi og þær lögðu lokahönd á stígagerðina, þær völtuðu. Eins og ég hef sagt áður eru það tvö verk sem eru skemmtilegust við jarðvegsbætur, en það er að sá grasfræinu og valta. Eiginlega er nú mest gaman að valta en ég læt Valdísi þó völtunina eftir og sái sjálfur.


Svo var alveg rosalega mikið komið að því að koma viðnum undir þak og það var meira að segja eftir að kljúfa svolítið. Það er óbúmannslegt að koma ekki viðnum sínum undir þak tímanlega en nú er því lokið að þessu sinni, mun seinna en í meðalári.

Það verða engar myndir af lagfæringu á frárennslislögn. Það minnir bara á kúk.

Að lokum; við erum komin með heimasíma og númerið er 0585-77 41 77, eða eins og hringt er frá Íslandi 0046 585-77 41 77


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0