Að skjalfesta einn daginn enn

Daginn í dag verð ég nú bara að skjalfesta. Á mánudaginn var kom Anders smiður í síðdegisheimsókn og við gengum kringum húsið. Svo stóðum við utan við þann hlutann sem er kominn undir þak þegar Anders varð að orði: Heyrðu, heldurðu ekki að það væri ráð að grafa þarna innan við miðstöpulinn undir gamla gaflinum og steypa þar sterka undirstöðu. Þessi gafl kemur til með að halda uppi límtrésbitum og þaki í báðar áttir. Þetta verður vel byggt hús ef við gerum svona lagði hann áherslu á.

Mér fannst þetta alveg frábær hugmynd og mér létti. Ég var nefnilega búinn að velta því heilmikið fyrir mér hvort þetta væri virkilega í lagi. Límtrésbiti er kominn upp sem heldur uppi nýja þakinu og við ætlum að stinga öðrum límtrésbita inn á gamla loftið á mánudaginn og nota hann síðar til að hækka til lofts í því sem við köllum stofu í gamla hlutanum. Þar með verður gamli gaflinn kominn í það hlutverk að bera mikið uppi í báðar áttir. Ég er viss um að Anders hefur líka verið búinn að velta því fyrir sér hvað bæri að gera varðandi þetta.

Þegar ég var búinn að láta í ljósi gleði mína yfir þessari hugmynd varð mér líka ljóst að það þyrfti einhver að framkvæma þetta, enda spurði Anders hvort ég treysti mér til að gera það sjálfur. Ekkert mál eða eitthvað svoleiðis varð mér að orði. Samt var það alls ekki svo einfalt því að það kom í mig geigur yfir því að þurfa að skríða þarna undir eins og hundur á flótta. Samt hvarflaði ekki að mér að nefna það einu orði að hann gerði þetta.

Á hverjum morgni síðan þetta barst í tal á mánudaginn var hef ég hugsað ögn þungum huga til holunnar sem ég ætti eftir að grafa undir húsinu. Það var ekkert sem lá á en eitthvað sem þyrfti að gera í september mánuði. Í morgun þegar ég var að læðast fram hugsaði ég sem svo að það væri best að byrja á ansans holunni til að eiga hana ekki alla eftir. Það væri verkefni sem ylli engum hávaða svona snemma laugardagsmorguns og því heppilegt að byrja daginn þar.

Og svo varð -og holan er grafin og steypan komin í hana. Eftir á að hyggja var þetta hið skemmtilegasta verk en það segir kannski nokkuð til um það hve mikill einfeldningur ég er.


Það er vont að taka mynd á svona stað en ennþá verra að grafa holu við svona aðstæður. Ég skreið undir húsið með stórt kúbein sem fylgdi með í Sólvallakaupunum og notaði það fyrir haka. Stunguspaða hafði ég líka með og eitt áhald enn sem ég kem að síðar. Svo hafði ég svarta sterka plastfötu með. Þrjár hjólbörur eða tólf fötur af möl komu úr þessari margumræddu holu og margir fastir steinar. Steinarnir sem eru þarna eru líklega búnir að vera á þessum stað í tíu þúsund ár og þeir eru stærri en sýnist og vel fastir og góð undirstaða. Ég er einnig búinn að fínhreinsa þá að hætti fornleifafræðinga.


Ég bað Valdísi að taka mynd af mér við vinnuna þarna og þetta er árangurinn. Ég held að það sjáist í skó lengst til vinstri á myndinni. Ég veit ekki hvort þessi vinnubrögð eru nokkuð í líkingu við vinnuna við tónlistarhúsið en það er alla vega meira sakrifað um þessi vinnubrögð. Neðst á myndinni má sjá eitt verkfæranna sem ég notaði við gröftinn, en það er einhvers konar ausa sem notuð var við afgreiðslu á mjöli til dæmis í kaupfélaginu í Hrísey um 1960 og eitthvað síðar.


Þarna eru fyrstu tvær steypuföturnar komnar niður og þá var farið að vera eitthvað vit í þessu. Sívalningurinn til vinstri er steypufyllt átta tommu steinrör, eitt þeirra sem borið hefur uppi húsið í 43 ár. Við köllum þetta plinta og nú er þessi plinti að fá góða styrkingu.


Það er ekki allt vistlegt við byggingarvinnuna en komið bara í kaffisopa á Þorláksmessu. Þá verður vistlegt að koma að Sólvallahúsinu með ljós í gluggum, útiljós á tveimur stöfnum og angandi jólakökulykt frá eldhúsi Valdísar. Það verður ógleymanlegt Þorláksmessukvöld.


En það er ekki bara fjórir fætur, drulla, möl og grjót á Sólvöllum þessa dagana. Það eru líka bjartar hliðar, mest bjartar hliðar. Þarna er Valdís að slá bletti á milli nýsáninga. Við sáðum í stóra blettinn aftan við hana um mánaðamótin og þar spírar fræið vel nú á haustdögunum. Ég er alveg rosalega ánægður yfir að holan er orðin full af steypu og tilbúið að slá upp mótum á hana til að geta svo steypt lítinn vegg sem mun hafa það að hlutverki að halda uppi hluta af einbýlishúsi. Ég er nú ekki heldur meira en 68 ára. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Þegar ég var búinn að klæða mig úr drullugum gallanum og kom inn var Valdís búin að baka jólaköku úr spelthveiti. Góður var því eftirrétturinn á eftir gúllasinu, nammi namm.


Kommentarer
Þórlaug

Enginn smá dugnaður í ykkur :-)



Kveðja úr Kópavoginum,

Þórlaug

2010-09-12 @ 00:57:58
Guðjón Björnsson

Dugnaður Þórlaug -eða kannski bjálfagangur. Það var líka hægt að fá skurðgröfuna til að brjóta niður gamla húsið og byrja upp á nýtt eins og sannur höfðingi! Ég talaði um það við smið fyrir nokkrum árum og vildi sjá viðbrögð hans. Hann hugsaði sig um um stund en sagði svo: 40 fermetrar segirðu, og ef þú átt þá 400 000 krónur afgangs þá getur þú gert það. Við gerðum það ekki.



Kveðja,



Guðjón

2010-09-12 @ 11:11:12
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0