Dagur 4 viðbygging

Ég var ekki einu sinni byrjaður að borða ristuðu brauðsneiðina með þykka álegginu þegar Anders renndi í hlað í gærmorgun upp úr klukkan sjö og það var ekki beðið boðana. Nú byrjum við á að smíða sperrurnar sagði yfirsmiðurinn og svo var gengið til verka.

Í árslok 2002 var bóndi innskrifaður í Vornesi, hinn grandvarasti maður að verða sjötugur. Og ég get sagt að hann var grandvar ekki síst vegna þess að hann vildi gera eitthvað í sínum málum og halda áfram að vera grandvar og góður maður. Ég hafði sagt frá því í fyrirlestri í Vornesi að við værum að skoða kaup á sumarhúsi. Ég gef oft dæmi um það sem fólk getur gert ef það er ekki er að sulla í brennivíni eða einhverjum óþverra í tíma og ótíma.

Þegar þessi maður kom svo í sína síðustu endurkomu nokkrum dögum áður en við endanlega gengum frá kaupunum langaði hann að tala við mig. Hann vildi bara ýta undir að við gerðum þetta, keyptum sumarhúsið, og sagði að með þessa stærð af skógi gætum við kynt upp einungis með viði úr skóginum. Svo sagði bóndinn annað. Þegar maður verður 65 ára eða svo fer jafnvægið að breytast. Ef þú ætlar að gera eitthvað fyrir þetta hús skaltu vera búinn með alla þakvinnu fyrir þann tíma. Eftir 65 ára aldur er best að vera ekki svo mikið að hlaupa upp á þaki. (Ég er vel meðvitaður um að ég hef sagt þetta í bloggi áður)


Ekki er hægt að segja að Sólvellir séu með háu þaki en það er þó vel í meðallagi bratt. Nú var Anders yfirsmiður eini aðkomusmiðurinn þennan morgun þannig að ég var í alvöru aðstoðarsmiður fram að hádegi og meira að segja negldi nokkra nagla, sagaði og handlangaði sperrunum af vinnupallinum mín megin yfir til Anders. Pallurinn var óstífaður og riðaði því all mikið þegar ég hreyfði mig á honum og það var þá sem ég minntist orða grandvara bóndans. En nú var bara málið að mér fannst þetta allt í lagi bara þegar ég var búinn að ganga nokkur skref þarna uppi og venjast pallinum.


Samt skal ég viðurkenna að Anders var liprari þarna uppi og hann leyfði sér að hlaupa. Ég man líka eftir því að þegar við vorum að vinna á þökum í gamla daga að þá var oft betra að hlaupa uppi á þökum í vissum tilfellum. Alla vega var það allra versta að vera stirður í hreyfingum upp á þki.


Í hádeginu kom Lars og þeir félagar fóru út að borðinu í skóginum og borðuðu sinn hádegismat þar. Þar sem Lars var mættur var ég ekki aðstoðarsmiður lengur. Ég var gerður að handlangara og sendli. Það eru harðar reglur í mannanna ríki og það er ekkert annað val fyrir ellilifeyrisskráðan áfengisráðgjafa en að láta leiðast af auðmýktinni. Þar að auki er ég kominn af skaftfellskum landpóstum og er því ekki í neinum vandræðum með að skipta um hlutverk. Þessir menn skiptust á að vera landpóstar, ferðafélagar og bændur.

Þegar Lars var hér um daginn sagði ég frá orðum bóndans um jafnvægið og hann sem er 61 árs sagi að þetta væri nú nokkuð til að virða. Maður yrði að verða gætnari með aldrinum. Lars er duglegur eins og Anders, hann talar gætilega, er þroskaður maður af lífsreynslu sinni og metur mikils það góða í lífinu, bæði það stóra og smáa. Þessir menn, Anders og Lars, eru ólíkir en afar duglegir báðir eins og ég hef áður talað um og það er eitthvað gott við þá báða sem gerir að verkum að það er heiður að vinna með þeim og hafa þá í vinnu.


Það er spennandi að sjá húsið sitt fæðast. Valdís var á ferðinni með myndavélina og hún bakaði vöfflur svo að öll sveitin angaði. Svo bauð hún upp á vöfflur með rjóma. Áður en þeir félagar fóru hjálpuðumst við að við koma 6,5 metra löngum límtrésbita upp á loftið yfir gamla hlutanum. Þar fær hann svo að bíða þar til ákveðið verður að endurbyggja loftið þar.


Já, þetta með að hafa jafnvægi upp á þaki, vera hress og meta bæði það stóra og smáa í lífinu eins og ég talaði um að Lars gerði á áberandi hátt, það er mikils virði. Þeir gera þetta reyndar báðir smiðirnir hvor á sinn hátt. Eftir að Anders hlóð 150 múrsteinum upp í grunninum í 32 stiga hita í sumar og við höfðum báðir verið að, sagði hann áður en hann fór: Vertu svo gætinn og ekki vinna þig í hel. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta hlýlega sagt. Það var núna eins og venjulega þegar smiðurinn eða smiðirnir eru farnir að þá er þriggja tíma vinna eftir hér heima við að ganga frá, sækja byggingarefni, ljúka einhverju og taka til.

Í tvö síðustu skipti sem ég hef verið í vinnunni í Vornesi hefur verið mikið kvef þar. Hóstaregnið gekk þá á andliti mínu þannig að stundum var bara að þurrka af með erminni. Ekki fékk ég kvef. Ég var að í þrettán tíma í gær og vaknaði svo klukkan sjö í morgun vel úthvíldur. Ég hef mikið að vera þakklátur fyrir. Ég er líka mikið þakklátur fyrir nýja mjaðmaliðinn sem ég fékk frágenginn og ísettan frá sænska ríkinu fyrir 400 krónur. Sá liður breytti miklu í lífi mínu.

Núna þegar ég er að skrifa þessar lokalínur er kona bakvið mig að búa um rúmið. Við hittumst í Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík 17. ágúst fyrir 50 árum.


Kommentarer
Rósa

Mikið er ég glöð að mamma er dugleg við að taka myndir. Það er gaman að sjá herbergin vaxa fram á myndunum.



Svo vissi ég ekki að Sjallinn hafði verið til fyrir hálfri öld. En ég er ansi ánægð með að það. Annars væri ég ekki til.



Kveðja,



R

2010-09-14 @ 09:53:44
Valgerður

Ertu ekki að rugla systir, pabbi er að tala um Sjallan í Reykjavík, ekki Akureyri. En fimmtíu ár er langur tími, til lukku með það bði tvö. Ég er reyndar alveg að verða 48 ára svo þið hafið hist a.m.k. níu mánuðum fyrir fæðingu mína..... tí hí hí

Valgerður

2010-09-14 @ 10:48:37
Guðjón Björnsson

Líklega var þetta alltaf kallað Sjálfstæðishúsið en ekki Sjallinn. Staðurinn var við Austurvöll þannig að ef staðið var á tröppum Alþingishússins og horft út yfir Austurvöll var inngangurinn næstum inn í horninu vinstra megin.



Kveðja,



GB

2010-09-14 @ 12:19:17
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0