Dagur 2 nýbygging

Ég sagði eitthvað á þá leið í blogginu í gærkvöldi að ég ætlaði ekki að ljóstra upp um það hvað dagur 2 bæri í skauti sér. Það var þó uppi mjög ákveðin áætlun um markmið dagsins og hún stóðst að fullu og öllu að öðru leyti en því að ég var ekki búinn að taka til á byggingarsvæðinu eins og ég hafði hugsað mér þegar ég fór á AA fund í Fjugesta klukkan sjö. Ég verð bara ákveðnari og ákveðnari í því með aldrinum að það eigi ekki allt að vera í rusli á Sólvöllum þó að það standi yfir einhverjar framkvæmdir.

En hvað um það, um hálf átta í morgun brunuðu tveir bílar í hlað og út stigu galvaskir menn. Þar var margnefndur Anders smiður, hinn nítján ára gamli Johan lærlingur og hinn 61 árs gmli Lars smiður og verktaki. Það eru nefnilega margir litlir byggingarverktakar á Örebrosvæðinu og þeir þekkjast meira og minna. Þegar einhver þeirra þarf á aðstoð að halda hringir hann til einhvers hinna og fær aðstoð. Anders hringdi því til Lars fyrr í vikunni og hann lofaði að koma í dag. Hann hringdi líka í Bússa bróður sinn og hann sendi Johan lærling. Þar með voru þeir orðnir þrír. Anders hefur áður aðstoðað og á eftir að aðstoða þessa menn þegar svo stendur á hjá þeim. Góð svona samtrygging eða hvað?


Þannig leit það út um ellefu leytið. Allar sperrur komnar upp, útlitið spennandi og lífið alveg sérstaklega skemmtilegt. Nú var komið að pásu og nokkrum augnablikum eftir að þessi mynd var tekin voru þeir allir sestir á fótstykkið á gaflinum með matarföturnar sínar.


Þessi mynd er tekin um tólf leytið og Valdís stendur þarna þrumu lostin af undrun og trúir varla sínum eigin augum. Hamarshöggin dundu ótt og títt.


Þannig leit það út upp úr hádegi en þeir tóku að vísu matartíma seint. Þennan þakpappa hafði ég aldrei séð áður og þegar ég sá hann fyrst velti ég því fyrir mér hvort Bengt í byggingarvöruversluninni væri bara að gera grína að mér þegar hann sendi okkur þennan þakpappa með vörubílnum um daginn. En smiðirnir fullyrtu að svona liti þakpappi út nú til dags og hann væri þræl sterkur. Ég fylgist víst ekki alveg með þróuninni. Svo er hann festur á með heftibyssu á nokkrum mínútum en þegar ég byggði fyrri viðbyggingu á Sólvöllum sat ég klukkutímum saman á þakinu með pappasauminn og sló mig í fingurgómana. Sú negling hefði aldrei tekið enda ef við hefðum ekki fengið aðstoð.


Svo er það myndin frá ljósastaurnum sem ég hef talað um að birta á hverjum degi þegar eitthvað skeður. Ég sé að vísu að ég hef ekki staðið alveg við staurinn þegar ég tók þessa mynd, en nálægt þó. Þeir smiðir voru þá nýfarnir úr hlaði og mér leið eins og litlu barni þegar ég virti þetta fyrir mér í kyrrðinni sem skapaðist þegar þeir fóru. Núna mátti rigna á þetta þak og það mundi ekki leka.

Það var klukkan hálf þrjú sem panellinn var kominn á þessa hlið líka og þá var Lars smiður farinn að tala um að það væri mikið góð lykt þarna uppi á þakinu. Það var alveg rétt því að Valdís ætlaði að bjóða upp á heitar vöfflur með rjóma með eftirmiðdagskaffinu og hún var með eldhúsviftuna í gangi við baksturinn. Þessir menn taka engar pásur og ekki þurfa þeir að stoppa til að reykja. En þeir borða oft enda vinna þeir þannig að þeir hljóta að þurfa mikið eldsneyti. Þeir voru mjög ánægðir með vöfflurnar hjá Valdísi og borðuðu mikið af þeim. Ég bara gat ekki látið hjá líða að þykja vænt um þessa menn sem afköstuðu svo miklu í vinnunni hjá okkur, þegar ég horfði á þá borða vöfflurnar af svo góðri lyst.

Kannski kemur Anders á morgun en ef ekki veit ég hvað ég á að gera. Hann kemur svo á þriðjudaginn og þá byrjum við á forstofunni. Það verður þá dagur þrjú.


Áður en Valdís bakaði vöfflurnar fór hún að tína kantarellur undir stóru Sólvallaeikinni. Þetta er önnur umferðin á þessu síðsumri.



Svona leit út í skálinni og þá átti enn eftir að bætast við. Það verða fleiri umferðir af kantarellutínslu og Valdís vill eiga þetta steikt í frystinum til að nota í sósur við betri tilfelli.


Svo má ég til með að gera smá grín að mér í lokin. Ég verð svolítið viðutan þegar aðrir eru að smíða í kringum mig á Sólvöllum og hér var ég bara handlangari í dag. Ég hef ekkert að gera við hliðina á svona hraðvirkum köllum. Ég er þarna að mata þá með panel upp á þakið og ef að er gáð er langt á milli fótanna á áfengisráðgjafanum og ætli það sé ekki til þess að forðast að velta um koll í öllum hraðanum.


Kommentarer
Rósa

Þetta þrusugengur. Og lítur vel út. Eins og þetta herbergi hefði alltaf átt að vera þarna.



Kveðja,



R

2010-09-02 @ 11:32:37
Valgerður

Frábært hvað þetta gengur vel og almáttugur hvað maður fær vatn í munninn við að sjá þessar fallegu kantarellur. Eru ekki fleiri svona tré úti í skóginum hjá ykkur sem gefa af sér þess háttar sveppavöxt. Gott mamma þarf þá ekki að kaupa þetta í pokavís á markaði eins og um árið hehehehe

VG

2010-09-02 @ 17:55:29
Guðjón Björnsson

Já Rósa, þegar staðið er undir nýja þakinu á bráðabirgðagólfklæðningunni er nokkuð til i því að það er eins og þetta hafi alltaf átt að vera svona. Þetta gengur vel og í næstu viku verður annar stóráfangi, forstofan. Valgerður, í skógarbotninum er ennþá of hár botngróður til að kantarellur vaxi þar. Markmiðið er hins vegar að skapa þar skuggavæði þar sem kantarellur og sveppir eigi griðland.



Kveðja, pabbi

2010-09-03 @ 08:08:56
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0