Hvernig var sumarið?

Í fyrradag heyrði ég fólk tala svo mikið um erfiðar minningar í sjónvarpinu að ég hljóp til og leitaði að góðum minningum og þær var meðal annars að finna á myndasafninu okkar frá liðnu sumri. En svo er þær auðvitað að finna innra með sjálfum mér líka en það er svo áþreifanlegt og einfalt að setja þær fram í myndum.

Nú eru sem sagt liðnir tveir dagar síðan og ennþá er ég heima og geri ekki neitt. Það er ekki alveg þykjustuveiki sem heldur mér heima en ef ég er alveg hreinskilinn, þá er gott að vera heima og gera ekki neitt, hvorki smíða eða föndra. Og okkur "miðaldra" fólkinu kemur bara vel saman. Við að vísu tölum ekki saman frá morgni til kvölds en trúlega bara mátulega mikið. Valdís fór með kórnum sínum að syngja fyrir aldraða í Fjugesta um miðjan dag og var framlagi þeirra tekið með ánægju. En fyrir mitt leyti, þá fannst mér sem ég hefði gott af því að setja texta við myndirnar frá í fyrradag.


Það fer ekki milli mála að það var góður síðsumareftirmiðdagur þegar þessi mynd var tekin. Sólin farin að lækka á lofti, skuggar trjánna að lengjast og broddgeltirnir að komast á stjá. Bjarkirnar bakvið bílinn eru norrænar, tignarlegar og stoltar og eigendurnir ennþá meira stoltir. Annars er auðvitað spurning hvort nokkur getur talið sig eiganda að fegurð náttúrunnar.


Það var hjálapsamur lítill maður sem dag einn á miðju sumri vildi aðstoða afa með tommustokknum sínum sem þegar var brotinn. Ekki flýtti hjálpin beinlínis fyrir en það er nú bara þannig sumu er ekki hægt annað en taka með gleði og þá er líka hjálp í því.


Svo einhvern annan dag var kannski eitthvað sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi hafa það þegar öfugur fótur fór á undan. Þá var býsna gott að fara út í skóg og leita uppi stað eins og þennan þar sem ólíkir einstaklingar blönduðu saman bestu hæfileikum sínum. Þá var best að stoppa og bara vera með. Að vísu flýtti ég mér til baka í þessu tilfelli til að sækja myndavélina. Það sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi í það skiptið, kannski öfug mæling á gerefti eða áfellu, gleymdist auðvitað um leið.


Og litli maðurinn, þá tæplega tveggja ára, sá sem gerði sitt besta til að hjálpa til með brotna tommustokknum um daginn, hann var svo ratvís í skóginum. Það var svo vel hægt að greina þegar hann sá að slóðin var ekki lengur fyrir framan hann. Og hvað gerir maður þá. Jú, auðvitað; "maður bakkar aðeins og leitar uppi slóðina aftur og svo höldum við bara áfram mamma og afi. Komið þið bara á eftir mér." Við fylgdum honum bæði eftir og urðum óneitanlega hissa þegar eiginleikinn að rata virtist vera innbyggður í barnið. Já, þetta með innbyggðan eiginleika er nokkuð til að hugleiða.


Það var komið vor þegar þessi byggingarvinna var í gangi og þó að þessi vinnubrögð væru svolítið öfugsnúin og hæpin til að vekja góðar minningar, þá var samt gaman að framkvæma hana. Það var nefnilega búið að spekúlera svo mikið í því hvort þetta yrði fínt eða ekki. Vinnan fram að sjálfri klæðningunni var líka mikið verri en þetta. Heyrðu mig! Svo varð það svona líka fínt eftir allt saman.


Þegar maður er lítill er svo gott að fólkið manns gleymir manni ekki. Ef ég stend svolitla stund við dyrnar er ég viss um að einhver kemur og opnar. Líklega var það ljósmyndarinn sem opnaði í þetta skiptið. Alla vega var drengurinn ekki látinn vera eftirlitslaus á ferðinni í þetta skipti frekar en önnur.


Við fórum ekki mikið á síðasta sumri en þessi mynd er þó tekin í Stokkhólmi. Valgerður var í heimsókn og þær systur sáu um að Hannesi leiddist ekki og Valdís kom á eftir þeim og tók alla ábyrgð á kerrunni og innkaupunum sem í henni liggja. Svo hló hún auðvitað að þeim sem fóru á undan henni.


"Konan sem kyndir ofninn minn." Það var á snemmsumarmánuðum sem ég fór ótrúlega marga tugi ferða, ég held reyndar yfir hundrað, með mold í hjólbörum út í skóg til að búa til slóðir, völundarhús, þar sem hægt er að labba, hlaupa og leika sér. Svo svo sáði ég í þetta grasfræi frá honum Ingemar skrúðgarðameistara. Ég vissi allan tímann hver mundi koma til með að slá þessar slóðir, alla vega að byrja með. Svo þegar hún var búin að slá í þetta skiptið fór hún inn og bjó til mat handa mér. Að flytja mold í hjólbörum daglangt er alls ekki leiðinlegt þegar málefnið er gott.


Fólk á ferð og rísterta á borði. Þetta fólk, Johanne, Kristinn og Guðdís voru í þann veginn að leggja af stað til Noregs. Maðurinn sem sést í bakgrunninum er ellilífeyrisþegi.


Já, alveg rétt, þarna var hann broddi kominn, eða var það kannski hún brodda. Það er nú meira hvað þessi dýr eru friðsamleg og velkomin. Fari maður fram fyrir broddgölt sem ætlar að flýja fer hann svo sem einu sinni í aðra átt og ef hann er stoppaður aftur, nú þá er hann ekkert að þessu og stillir sér upp til sýnis.


Einmitt! Það var við þessa eldhúsinnréttingu sem Valdís bjó til matinn eftir að hún var búin að slá völundarhúsið í skóginum. Það var nú meiri framförin á Sólvöllum þegar þessi innrétting kom í gagnið. Ég held að ég verði að koma með aðra mynd.


Ég veit upp á hár hvað hún er að gera þegar þessi mynd var tekin. Hún var að búa sér til te. Framfarirnar á Sólvöllum voru margar og miklar og þegar ég verð eldri maður ætla ég að búa til myndaröð af öllu umstanginu hér.

Svo reyndi ég að vera svolítið riddaralegur í gærkvöldi og ryksugaði gólfin hingað og þangað eftir þörfum. Reyndar geri ég það oft. Stuttu síðar voru tvö gulnuð laufblöð á gólfum sem ég hafði ryksugað. Það er sérkennilegt með þessi gulnuðu laufblöð sem eru búin að ljúka hlutverki sínu. Hljóðlaust og friðsamlega koma þau inn og svo bara eru þau þarna og minna á að það er sumarið sem er liðið. Og þetta er búið að ske aftur og aftur, vikum saman, og einhvern vegin er það svo að þau eru bara velkomin. Þau eru hreinleg og hávaðalaus og þau eru vinaleg með nærveru sinni svo lengi sem þau eru ekki allt of mörg. Sérstaklega eru eikarlaufin vinaleg því að þau liggja alls ekki marflöt á gólfinu. Þau vinda upp á sig og hafa eitthvað svo fallegan stíl. Ég mátti bara til með að segja frá þessu með laufblöðin.

Ég hafði um nokkur hundruð myndir að velja í þetta og þessar valdi alveg af handahófi og sumarið var gott. Nú er komið kvöld á Sólvöllum.


Kommentarer
Þórlaug

Skemmtilegar myndir frá sumrinu Guðjón.

Vonandi ertu að verða hress af pestinni.

Bestu kveðjur,

Þórlaug

2011-11-11 @ 17:22:10
Valgerður

Notalegt blogg pabbi. Kveðjur til ykkar frá Árósum .

VG

2011-11-12 @ 07:55:28
Guðjón

Já Þórlaug, ég er orðinn hress af pestinni. Ég fæ mjög sjaldan pestir, held auðvitað að ég verði mikið veikur eins og aðrir karlmenn, en næ mér fljótt. Takk fyrir að láta heyra frá þér.



Valgerður, takk fyrir kveðjuna og gangi ykkur vel í Árósum.



Með bestu kveðju til allra frá Valdísi og Guðjóni

2011-11-12 @ 09:03:50
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0