Að lifa í nægjusemi

"Að lifa í nægjusemi við lítil efni, leita fegurðar
í stað munaðar, og fágunar frekar en tísku;
að vera virðingarverður en ekki virtur,
efnaður en ekki ríkur; að læra mikið,
hugsa í hljóði, tala af mildi, vera hreinn og beinn;
að hlusta á stjörnurnar og fuglana. . . . "

William Ellery Channing (1780 - 1842)

Það er hægt að fullyrða að hér eru ekki settar fram fjárhagslega kostnaðarsamar veraldlegar kröfur. Þessar línur eru búnar að vera til sýnis á matarborðinu okkar í allan dag og við Valdís erum búin að vekja athygli hvors annars á þeim. Ef til vill hefðu þessi vísdómsorð hljómað öðru vísi ef höfundurinn hefði verið uppi á okkar öld, en þau eru kannski ennþá meira áhugaverð fyrir það að þau eru samin á sínum tíma fyrir okkur sem lifum á öld þar sem það er erfitt að vilja ekki bara eignast meira og meira, dýrara og vandaðra.

Ég var að vanda forvitinn um höfundinn og vegna þess að ég lifi á okkar öld og hef tölvu á þar til gerðu borði, þá gat ég slegið nafninu upp á Google wikipedia. Þar fann ég upplýsingar um bandarískan prest sem var ekki alveg í takt við hefðbundnar kenningar kirkjunnar og fann sér því annan farveg fyrir lífsstarf sitt í nýjum söfnuði. Hann vann einnig að því að upphefja þrældóminn í Bandaríkjunum, vann móti áfengisneyslu og að bæta aðbúnað fanga. Hann var sem sagt ekki maður án hugsjóna. Hann dó 100 árum áður en ég leit dagsins ljós.

Takist mér að gera þessi vísdómsorð að mínum innri hugsjónum verð ég mjög ríkur maður. Mér finnst ég reyndar þegar vera ríkur á margan hátt. Hins vegar yrði það trúlega all undarlegt atvik ef ókunnur maður kæmi allt í einu í heimsókn, spyrði mig hvort ég hefði tíma og hvað ég væri að gera, og ég mundi svara; ég er að hlusta á stjörnurnar og fuglana, en þú færð tíma eigi að síður. Þó að margir yrðu hvumsa við er ég ekki í vafa um að einhver mundi segja að hér væri nokkuð sem fróðlegt væri að ræða.

Sum vísdómsorðanna í bókinni Kyrrð dagsins fara hvað mig áhrærir fyrir ofan garð og neðan, en þessi orð á ég eftir að lesa nokkrum sinnum í framtíðinni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0