Einbúi langt frá mannabyggðum

Hér sit ég heima, geri ekki neitt og tel mér trú um það að ég sé svolítið lasinn. Ég átti að vera í vinnu í dag en þokkalega tímanlega í gær hringdi ég til hans Ingemars ellilífeyrisþega og spurði hann hvort hann væri til í að taka daginn minn í dag. Jú, Ingemar varð bara glaður og hann ætlaði að vinna vinnuna mína í dag.

Í fréttum hér, bæði í blöðum og sjónvarpi, er talað um mikla aukningu af bakteríu sem heitir Mycoplasma pneumoniae og er talað um að hún herji almennt á Norðurlöndin um þessar mundir. Þessi baktería breiðist út sem faraldrar öðru hvoru en er nú í óvenju miklu hámarki. Sjúklingarnir á vinnustað mínum hafa verið nánast illa haldnir af kvefi, höfuðverk og hósta og það hefur vel mátt greina á hósta þeirra að það sem dylst í hálsi þeirra er enginn veislumatur. Ekki veit ég hvort það er þessi tiltekna bakteria sem þar er á ferð. Ég hef farið mjög varlega en varð að lokum fórnarlamb, en þó með mikið minni einkenni en fólkið sem ég hef svo mikið hrærst innan um á síðustu mörgum vikum.

Ég hef notað handspritt og mikinn handþvott og venjulega slepp ég en að þessu sinni fékk ég að láta í minni pokann. Ég umgengst Valdísi með varúð og fer alls ekki höndum um hana um þessar mundir. Ég vil ekki hafa það að hún smitist líka. Hún segir líka 7-9-13 og segist ekki vera móttækileg fyrir pestina og ég vona að hún verði sannspá.

Það er langt síðan ég hef tekið tvo daga í að gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Það liggur við að ég hafi ekki kunnað almennilega við mig í gær og í dag. Ég hef lengi verið meðvitaður um að þegar dagurinn rennur upp sem ég bíð eftir, dagurinn þar sem ég ætla ekki að hafa neitt fyrir stafni, verði skrýtinn dagur. En ég veit að ég verð fljótur að aðlaga mig að því. Mér dettur heldur ekki í hug að leggjast í áralanga leti þegar hægist um, en að taka öðru hvoru dag og dag þar sem ég bara geri ekki neitt -það lítur vel út.

Ég hef í dag einbeitt mér talsvert að vísdómsorðabók sem ég bloggaði um í fyrradag. Það er nú svo að líklega flest vísdómsorðin fjalla um að hafa hljóðar stundir, að æða ekki í óróleika um allar trissur, að láta eftir sér að vera einn og að vera nægjusamur. Að láta eftir sér að virða fyrir sér spegilslétt vatn, blóm í haga og að alltaf gefa sér góðan tíma til þessa. Þegar ég hef lesið hver vísdómsorð fyrir sig hef ég gjarnan skrifað nafn höfundarins inn á Google og auðkennt það með Wikipedia. Síðan velti ég fyrir mér hver höfundurinn hefur verið og að lokum hvernig ég stend mig sjálfur í samhengi við vísdómsorðin.

____________________________________________



"Öll sönn og heilbrigð lifsnautn
sem okkur stendur til boða
hefur verið okkur alveg jafn tiltæk
frá upphafi vega og hún er nú -
okkur býðst hún einkum í friði."

John Ruskin (1819 - 1900)

John Ruskin fæddist í Englandi og var breskur listaganrýnandi, ljóðaskáld og rithöfundur. Hann var prófessor í listum við Oxford háskóla og hann hneigðist til vinstri í pólitík. Hann myndaði hreyfingu ásamt fleiri hugsuðum sem hafði að markmiði að ganga til baka frá iðnbyltingunni, taka aftur upp handverk og snúa sér að þeirri fagurfræði sem því fylgir. Kannski að stjórnmálamenn nútímans eða framtíðarinnar fari að lesa verk þessa hugsuðar þegar þeir komast að því að lífsheimspekina verði að taka til endurskoðunar ef okkur eigi að vera líft á móður Jörð.

John virðist hafa verið staðfastlega samkvæmur sjálfum sér. Hann var ríkur maður og á eftirmiðdegi lífs síns gaf hann háar upphæðir peninga til meðal annars mentastofnana. Og hvað lífsnautnina áhrærir þá segir hann: "okkur býðst hún einkum í friði."
________________________________________


Indælast í lífinu er hið kyrrlátasta . . .
lífshamingjan felst i hugarró,

Cicero (106 - 43 f. kr.)

Svona gat mönnum dottið í hug að segja fyrir rúmlega 2000 árum.
_________________________________________



Lærðu að vera einn.
Glataðu ekki kostum einverunnar
og félagsskap sjálfs þín.

Sir Thomas Browne (1605 - 1682)

Enn einn Englendingur, rithöfundur vel lærður í afar mörgu eins og til dæmis læknisfræði, trúarbrögðum, vísindum og fleiru. Það fer ekki milli mála að menn voru líka þrælmenntaðir fyrr á öldum.

Ég hef oft sagt að ég mundi vilja vera í litlum bústað í viku, bústað staðsettum til dæmis langt upp í Norrland í svo sem 10 km fjarlgð frá næsta byggðu bóli. Þar mundi ég vilja koma nær sjálfum mér, náttúrunni og alheiminum. Ef einhverjum dettur í hug að nú sé Guðjón að verða stórskrýtinn þá hef ég verið það lengi því að þessi draumur er alls ekki nýr. Að vera hræddur við að hitta sjálfan sig er vandamál sem ég er laus við. Kannski væri hægt að fá lánaðan afréttarkofa á Síðumannaafrétti. Kannski er líka einn slíkur í nothæfu ástandi í Núpstaðaskógum. Það eru margir sem mundu vilja prufa þetta en sjálfsagt mundu ekki allir voga. Ég mundi voga. Þetta er hliðstæða við eyðimerkurgöngu sem margir þekktir menn lögðu að baki á sínum tíma.

En þrátt fyrir allt, þó að Sir Thomas Browne hafi ekki þekkt til farsímans, þá held ég að ég mundi vilja geta sent frá mér sms daglega til að láta mína nánustu vita að ég hafi ekki verið étinn af skógarbirni.

Það er gaman að sökkva sér í þetta en ég held samt að ég bloggi ekki meira um vísdómsorð að sinni. (Hver veit þó?)


Kommentarer
Valgerður

Flott blogg, sendi það á krakkan pabbi.

VG

2011-11-08 @ 09:54:21
Valgerður

athugasemdin hér fyrir ofan átti að koma annars staðar og það vantar líka eitt A í hana.

VG

2011-11-08 @ 10:08:17


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0