Mannraunir

Það er mikið sem hefur verið á ferðinni í kollinum á mér síðan í gærkvöldi. Þá voru í sjónvarpi viðræður fólks á milli, og það var svo mikilvægt í viðræðunni að koma því að, að í bernsku eða æsku hefði eitthvað svo hrikalegt skeð. Ég var eitthvað á rjátli hér innanhúss og heyrði brot úr þessari umræðu. Þá fór ég inn að tölvu og fór að skoða myndir frá liðnu sumri. Ég komst að því að sumarið hafði skilið eftir góðar minningar. Svo heyrði ég frá sjónvarpinu talað um fleiri myrkar æskuminningar.

Þá fór ég fram til Valdísar og hafði orð á þessum hræðilegu minningum sem þetta fólk byggi við. Það eiga tveir eftir að tala í viðbót sagði Valdís. Nú settist ég við sjónvarpið og mikið rétt, nú komu tvær manneskjur á skjáinn sem áttu góðar minningar. Það var orðið seint þegar ég var búinn að vista tíu myndir með sumarminningum inn á bloggið og ég var þá enn að hugsa um þetta með minningar.

Svo kveiktum við á morgunsjónvarpi í morgun og þar kom púðrið. Á skjáinn var allt í einu kominn blaðamaður sem hefur skrifað bók um fótboltamanninn Zlatan sem allir litlir strákar, fjölmargir hálffullorðnir menn og margir fullorðnir menn vilja svo mikið líkjast. Hann er nefnilega mikill og flinkur fótboltamaður. Hann er fótboltahetja Svþíþjóðar. Ég hef oft talið Zlatan hrokafullan og í leik fyrir nokkrum árum, leik sem ég reyndar horfði á að hluta, fannst mér hann alveg hrikalega hrokafullur. Svo tók hann víti í þessum leik og hann skaut langt, langt yfir markið eins og ég gerði sjálfur í fótboltaleik á Skógum fyrir 54 árum. Mér fannst það gott á hann. (Þroskaður ég eða hvað?)

Skrifari bókarinnar lýsti í sjónvarpsþættinum nokkrum atvikum í lífi Zlatans sem drengs. Heima var pabbi, fórnarlamb styrjalda í fyrrverandi Tékkslóvakíu, sem alltaf var fullur og mikið vansæll og ísskápurinn alltaf tómur af mat. Stundum var Zlatan í heimsókn hjá mömmu sem alltaf skammaðist og umturnaðist yfir öllu og barði Zlatan meðal annars með sleif. Sleifin brotnaði og vegna þess að það var verið að berja hann með sleifinni þegar hún brotnaði og þá hljóp hann út í búð til að kaupa nýja sleif handa mömmu. Zlatan saknaði alls sem börn vænta sér af foreldrum og meðal annars þess að foreldrarnir komu aldrei á völlinn. Hann vissi að það var nákvæmlega einskis að vænta frá þeim. En hann æfði fótbolta og í fótboltanum hafði hann fundið tilveru sína og hann var þá þegar ákveðinn í því að hann skyldi verða eitthvað. Pabbi kom aldrei á völlinn til að peppa upp strákinn sinn.

Dag einn var Zlatan valinn í úrvalslið. Þetta barst fljótt út. Þegar Zlatan kom í fyrta skipti á æfingu á völlinn með úrvalsliðinu sá hann eitthvað óvænt út undan sér. Hann leit þangað -og . . . . pabbi minn! ertu kominn!? Þegar pabbi hafði heyrt að sonurinn væri kominn í úrvalsliðið, þá bara skeði eitthvað. Hann hætti að drekka, varð besti vinur sonarins og hvatti hann til allra dáða. Bókin um Zlatan er talin geta orðið besta hvatningin sem unglingar í erfiðleikum geta fengið í dag. Það eru bundnar vonir við hana.

Zlatan, fyrirgefðu að ég dæmdi þig rangt.

Sagan um Zlatan er mikið raunalegri en hægt er að segja í þessum línum. En svo kom annar maður á skjáinn og hann er ættaður af svipuðum slóðum og Zlatan. Hann hefur skrifað eigin sögu og sú var allt öðru vísi en Zlatans, en jafnvel mun raunalegri. Sögur þessara manna voru svo sorglegar að það var erfitt að sitja ógrátandi framan við sjónvarpið. En þeir höfðu öðlast nokkuð sem allir vilja öðlast. Þeir höfðu öðlast ríkt líf -og - "þeir voru sáttir". Raunir fólksins frá í þættinum í gær voru voða litlausar í samanburði við raunir manna tveggja í dag.

Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Ég hef mikið orðið var við það í vinnunni minni að þeir sem geta ekki sleppt atburðum frá því liðna, þeim vegnar heldur ekki vel. Það er eins og það geti orðið að vana að velta sér endalaust upp úr því sama og bara sitja fastur þar. Svona fólk kemur aftur og aftur í meðferðina, svo sorglegt sem það nú er, og það er sem það verði erfitt fyrir þetta fólk að verða fullorðið. Önnur línan í æðruleysisbæninni ofan; "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", er lykillinn að þessu. Það er hægt að fyrirgefa án þess að elska, fyrirgefa til að brenna ekki sjálfur upp innan frá. Þegar fólk byrjar að leggja hugsun og tilfinningu í "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", þá fer eitthvað að ske.

Hvort velur þú réttlæti eða innri frið? er algeng spurning. Svarið verður oft blandað orðunum "en" eða "ef" eða orðunum báðum. En og ef eru bæði orð vafans og þá er persónan ekki tilbúin að sleppa "réttlætinu" og velja innri friðinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0