Ég var búinn að hugsa mér -en svo fór allt úr skorðum

Ég var búinn að hugsa mér að halda upp á þriðjudagsmorguninn var með því að gleðjast með sjálfum mér. Svo vaknaði ég þennan morgun og var þá í vinnunni og ég gladdist með sjálfum mér strax þar sem ég lá í rúminu. Það eru mörg gleðiefnin ef ég nenni að hugsa um þau en það væru líka mörg hörmungarefnin ef ég vil taka á mig allar heimsins áhyggjur. En ef ég tek á mig allar heimsins áhyggjur breytir það ekki heiminum nema því að ég einbeiti mér að því að bæta hann. Í rauninni finnst mér að ég vinni að því að bæta heiminn þar sem ég legg mig heils hugar fram við að stuðla að því að börn fái heim pabba eða mömmu sem vilja verða betri manneskjur. Eða líka að foreldrar fái heim stálpuð börn sem voru horfin út í myrkrið en koma nú heim og segja við mömmu og pabba: Ég elska ykkur.

En nú viltist ég af leið og fór að tala um allt annað en til stóð og ég hafði alls ekki verið með í huga þegar ég byrjaði. En svona er það oft; það fæðist eitthvað sem alls ekki var með í myndinni þegar fyrsta orðið var skrifað. Ég var að halda upp á eitthvað og hvað var nú það? Jú, tímabilið sem ég vinn fulla vinnu síðustu mánuði þessa árs var nákvæmlega hálfnað á þriðjudagsmorguninn var. Það var þess vegna sem ég gladdist áður en ég dreif mig á fætur og tók eina eftirlitsferð gegnum ganga og sali á meðferðarheimilinu Vornesi.

Nú er spurning hvernig ég á að halda áfram þar sem ég fór inn á allt annan hliðarstíg eftir tvær fyrstu setningarnar. Kannski var einhver dulin meining bakvið þessa óundirbúnu stefnubreytingu mína. Það var eitt sinn fyrir einum 15 árum að það var handleiðsla í Vornesi. Handleiðarinn vildi enda handleiðslu dagsins á því að við segðum öll frá því hvað okkur fyndist við vera að gera með því að vinna þar. Þegar kom að mér byrjaði ég á því að segja að við vrum að vinna að því að breyta Svíþjóð. Þá hlógu þau öll mikið og ekki minnst handleiðarinn. Hann tók bakföll af hlátri.

Ég skal gefa eitt dæmi því til sönnunar að ég hafði alveg hárrétt fyrir mér þegar ég sagði það sem fékk alla viðstadda til að hlæja að mér. Þetta var 1996, annað árið eftir að 12-spora meðferð byrjaði í Vornesi. Þá voru þrír AA fundir á viku í borginni Eskilstuna í Södermanland í Svíþjóð. Í dag eru rúmlega 30 fundir á viku í Eskilstuna og fólk giskar á að það séu níu til 35 manns á hverjum fundi. Þeir sem eru á fundunum eru edrú. Þetta er bara dæmi frá einum bæ í Södermanland. Ef þetta er ekki að breyta ástandinu í einu landi, ja, hvað er það þá? Meðferðarheimilið er ekki AA en meðferðarheimilið vísar fólki þangað.

Þeir sem hafa verið í meðferð í Vornesi og eru edrú eftir það koma fjórum sinnum til baka á svonefnda endurkomudaga og eru þrjá daga hverju sinni. Eitt sinn var tvítug mamma fjögurra ára telpu í endurkomu. Hún sagði frá því að eftir nokkrar vikur heima hafi þær mæðgur legið í sófa, horfst í augu og talað saman. Litla telpan tók þá í hár mömmu sinnar, greiddi það bakvið eyra hennar og sagði: Mamma mín, nú ertu mín virkilega mamma.

Í annað skipti var kona um fertugt í endurkomu. Ég hafði verið handleiðarinn hennar. Hún kom með stórt umslag til mín og sagði að það væri frá börnunum sínum. Þau vildu gefa mér það sem væri í umslaginu þar sem mamma þeirra hefði gefið mér svo gott orð. Upp úr umslafginu dró ég þrjár eða fjórar blýantsteikningar. Tvær þeirra hafði ég í mörg ár í römmum upp á vegg í samtalsherberginu mínu.

Fyrir einum tólf árum var maður á mínum aldri í meðferð. Við urðum all vel kunnugir. Einhverju ári eða fáum árum seinna hringdi hann til að spyrja mig einhvers. Svo töluðum við líka um það hvað við hefðum fyrir stafni í frítímum okkar. Ég sagðist vera að lesa bók um Stokkhólm, eina af bókaseríu um Stokkhólm eftir mann sem hét Per Anders Fogelström. Áttu þessar bækur? spurði hann. Nei, svaraði ég og sagðist hafa fengið bókina á bókasafni í Örebro. Við höfðum báðir mikinn áhuga á þeirri sögu sem þessar bækur hafa að segja.

Daginn eftir kom innritaður sjúklingur til mín og sagði að það væri einhver ókunnur maður að spyrja eftir mér. Þegar ég kom fram að aðalinnganginum var maðurinn frá símasamtalinu deginum áður þar kominn með brúnan pakka í hendinni. Hérna Guðjón, hér eru bækurnar hans Fogelström um Stokkhólm, mig langar að lána þér þær. Hann hafði þá lagt 97 km að baki með nokkrar bækur sem hann vildi lána mér. Og hvers vegna? Jú, hann vildi mér vel.

Tíminn sem ég hef lofað að vinna fulla vinnu í Vornesi er hálfnaður sem fyrr segir. Síðan ætlaði ég að hætta. Þegar ég byrjaði þetta blogg ætlaði ég að skrifa um það. En svo bara skeði eitthvað. Núna í lok þessa bloggs er ég ekki frá því að ég vilji vinna fáeina daga í mánuði, til dæmis fjóra daga. Við sem vinnum á meðferðarheimilinu gerum fólk ekki edrú en samt er það nú svo að meðferðarheimilið gengur ekki nema fólk vinni þar. Kannski get ég gert einhverjum gagn og meðverkað í að gera heiminn betri. Ég verð að ræða þetta við Valdísi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0