Hvernig maður getur orðið gamall og hress

Hann Carl Ludvig á hundrað ár afmæli í dag, fæddur 11-11-1911. Hann var sjö ára þegar fyrri heimstyrjöldinni lauk en hann man ekki eftir því. Hann man hins vegar eftir því að það var mikið af góðum graut einn dag sem einmitt var þessi dagur, og það var ekki á hverjum degi því að þá var matarskortur í landinu. Hann veit hvernig á að ná háum aldri og þannig var það að hann var að yfirgefa föður sinn vegna þess að hann var að flytja niður á Skán. Þá var Carl Ludvig 32 ára.

Þeir vissu báðir að þeir mundu ekki sjást oftar í lífinu og það var þá sem faðir hans sagði við hann: Mundu svo drengurinn minn að hvíla þig alltaf þegar þú ert þreyttur. Þegar þetta var, var Carl Ludvig búinn að vera doktor í tvö ár. Carl Ludvig hefur síðan hvílt sig þegar hann hefur orðið þreyttur og segir lífslengdina og heilsuna sem hann býr við vera þessu heilræði að þakka. Hann sást ekki á skjánum þegar fólk i sjónvarpssal átti samtal við hann, en röddin var skýr og minnið var skarpt.

______________________________________


Það er þetta með aldur, það getur haft ólíkar ásjónur. Þegar Valdís hætti að vinna á sínum tíma fékk hún forláta klukku, og þó bara ósköp venjulega klukku frá verkalýðsfélaginu sínu. Svo var klukka þessi bara hengd upp á vegg og þar gerði hún sitt gagn. Þegar við fluttum á Sólvelli lenti hún niður í kassa og svo upp á vegg þar aftur. Þegar við byggðum svo við Sólvelli og endurbyggðum gamla húsið lenti klukkan hennar Valdísar ofna í kassa einu sinni enn.

Svo kom að því að mála og hann Ulf kom og hjálpaði með þann þáttinn. Svo þegar hann var búinn að mála eitt herbergi og eldhúsið varð hlé á málningarvinnunni og við gengum frá í herberginu sem nú var tilbúið og eldhúsinnréttingin var sett upp. Enn einu sinni var klukkan hengd upp á vegg og það var Valdís sem kom því í verk.

Svo var kominn tími til að mála fleiri herbergi og Ulf kom aftur. Við höfðum verið að fá okkur kaffi þegar hann allt í einu gekk að klukkunni, tók hana niður og las aftan á hana. Svo leit hann á okkur og spurði hvort við vissum eitthvað um klukkuna. Nei, það var mest lítið annað en að hún hafði átta kanta, var nokkuð dökk og gekk fyrir einu batteríi. Þá fræddi Ulf okkur á því að grjótið í þessari klukku kæmi frá Grythyttan sem er um 50 km fyrir norðan okkur og það er einmitt fæðingarstaður hans. Það var honum því kært að geta frætt okkur um klukkuna.

Svo hélt hann  áfram. Skífan er gerð úr steini sem varð til sem botnfall á hafsbotni fyrir 2000 miljón árum og það eru aðeins til þrjár námur í heiminum þar sem þessi steinn finnst. Þar með varð þessi klukka fyrir okkur sem allt önnur klukka og mikið skemmtilegri, og við sem höfðum haft hana í nokkur ár upp á vegg og skipt um batterý í henni nokkrum sinnum. Við höfðum aldrei tekið eftir þessu.


Hér er svo forláta klukkan úr 2000 miljón ára gamla grjótinu frá Grythyttan. Þegar við fáum fólk í heimsókn frá Íslandi förum við gjarnan með það til Grythyttan í mat. Síðast fórum við þangað með hóp Hríesynga fyrir tveimur og hálfu ári.

______________________________________


Fyrir nokkrum árum var Valdís upp í Dölum að æfa með þáverandi kórnum sínum, en þá áttu þau að syngja í gamalli kalknámu á Siljansvæðinu sem á seinni árum hefur verið notuð sem hljómleikasvæði á sumrum. Tvo daga sem þau æfðu var ég einn á flakki um Siljansvæðið í mikilli veðurblíðu og las ég þá talsvert um þetta svæði. Ég las um gríðarlega stóra loftsteininn sem féll niður á Siljansvæðið fyrir 360 miljón árum og gerbreytti landslaginu. Ég las líka um það að á ákveðnum stað væri hægt að skoða gríðarlega stóra steinblokk sem hafði henst upp í loftið í óskapaganginum ásamt mörgum öðrum álíka stórum steinblokkum. En þessi ákveðna steinblokk var sýnileg þar sem hún hafði fyrir öllum þessum árum numið staðar nánast með endann upp.

Ég fór á svæðið og vildi sjá þessa steinblokk sem var jú tugir og hundruð metra á ólíka vegu. Svo var ég kominn á staðinn og horfði á undrið. Svo klöngraðist ég nær undrinu, lagði hendi á valinn stað og hugsaði: Hér legg ég hendina á þessa steinblokk sem þeyttist upp í loftið eins og korktappi árdaga þegar Svíþjóð var suður undir miðbaug. Ég verð að viðurkenna að ég fann fyrir hrifningu. Það var sólskin, grafakyrrð utan gutlandi vatnshljóð frá lítill á sem rennur þarna um og ég var aleinn mitt í mótun landsins frá því fyrir hundruðum miljóna ára.

______________________________________


En að lokum; þar er ekki aldrinum fyrir að fara. Þá þrifust draumar um lífið framundan, um möguleika, sólskinsdaga og lífshamingju sem hægt væri að hafa áhrif á með skynsemi, góðum gerðum og nýtingu sinna allra bestu hæfileika.



Brilljantín og liðir í hári. Og bestir og fallegastir Bjössi minn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0