Það er 19. nóvember

Þegar leið næstum að hádegi var hitamælirinn kominn í tæplega tíu stiga hita og sólin hamaðist við að þurrka burt dögg næturinnar. Svo fórum við Valdís að sinna verkefnum dagsins eftir bæði síðbúinn og langan morgunverð.


Fyrst af öllu var það þessi vikulegi viðburður að bera út til viðrunar okkar tveggja mánaða gömlu ullarrúmföt. Vissulega ætti að vera hægt að komast af án þess að gera svo nána grein fyrir heimilisástæðum eins og því hvaða rúmföt við notum og hvernig við þrífum þau. En sannleikurinn er sá að alla vega hér í landi veit ekki nema minni hluti þjóðarinnar að svona rúmföt yfirleitt fyrirfinnast. Ég bloggaði um þetta fyrir all nokkru síðan og var mér þá hugsað til íslensku ullarinnar og datt hreinlega í hug að einhver fengi áhuga á þessum rúmfötum og sæi þar möguleika. Svo virðist þó ekki vera þó að verðið á þessari lúxusvöru sé langt, langt yfir verði á ullarpeysum og teppum og gæti gefið tekjur sem liggja á allt öðru plani.

Hvers vegna rándýr ullarrúmföt? Þar koma til margar ástæður. Til dæmis að fyrir fólk með gigtarsjúkdóma, slitinn líkama og óreglulegan svefn eru þau alger munaður. Seljendurnir fullyrða líka að rykmaurar þrífist mjög illa í þeim. Eitthvað það versta sem ég hef átt við að stríða varðandi að vera annþá að vinna er að ég hef verið hræðilega syfjaður við akstur til og frá vinnu. Eins og gefur að skilja er það stórhættulegt. Ég hef ekki þurft að kvarta undan því á seinni árum að ég hafi sofið illa. En hvað skeði þegar við fórum að nota ullarrúmfötin. Ég hætti á stundinni að vera syfjaður við aksturinn. Það hlýtur að þýða það að þó að ég hafi sofið vel og lengi, þá hef ég ekki hvílst í samræmi við það.
Hér með lýkur umfjöllun um ullarrúmföt.
_________________________________________






Frá því í fyrra hef ég reynt að forðast að taka myndir af húsinu þannig að þetta horn sjáist. Ég hef verið með dálitla minnimáttarkennd fyrir því. Fyrir eins og 15 mánuðum þegar Peter gröfumaður kom með vélskófluna fulla af möl og ætlaði að jafna í holuna þarna bað ég hann að gera það ekki. Jahá, heyrðist í Peter og svo ypti hann öxlum. Þá sagði ég honum að ég ætlaði að ganga vel og snyrtilega frá öllu undir gamla húsinu og þá virtist hann ekki hissa lengur. Hins vegar var það fyrsta í röðinni að gera húsið vel íbúðarhæft eins og það er nú orðið.


Hér er verkið komið af stað. Þegar við keyptum litla, einfalda 40 m2 sumarbústaðinn stóð hann á 13 steinstöplum eins og þeim sem sjást á myndinni. Síðan þétti ég þessa steinstöpla um helming um leið og við byggðum við húsið í fyrsta skipti. Núna stendur allur eldri hlutinn sem er 70 m2 á 35 svona steinstöplum. Áður en við byggðum við húsið öðru sinni í fyrra til að gera það að íbúðarhúsi, og þá á grunni að sjálfsögðu, talaði ég við byggingarfulltrúann okkar um þessa steinstöpla og hann sagði einfaldlega: engin hætta, engin hætta, þetta jafngildir venjulegum húsgrunni. Það var nákvæmlega það sem ég furfti að heyra og jafnframt var ég ákveðinn í því að finna einhverja lausn til að loka þessu.


Það var ýmislegt bogur við þetta og þurfti ákveðinn frágang bæði yfir og undir til að geta fest verðandi sökkul undir húsið. Og við þessar aðstæður kom Valdís auðvitað með myndavélina til að taka mynd af ellilífeyrisþeganum. Það gladdi mig að sjálfsögðu að hún vildi taka af mér mynd þegar framkvæmdin var sem "allra erfiðust". En einmitt þegar ég lá þarna fann ég góða lykt sem gladdi mig. Já, Valdís er söm við sig.


Þarna er svo sökkullinn. Þetta er svokölluð sökkulplata og aftan á hana límdi ég 70 mm einangrunarplast til að fá meiri stælingu á hana og líka til að einangra undir húsinu.


Það var orðið dimmt þegar sökkullinn var kominn á sinn stað ásamt frágangi á bakvið hann til að halda honum í skefjum. Það er eins og eitthvað passi ekki þarna í horninu hægra megin en það er sjónvilla. Ef ekki sökkullinn hefði passað hefði ég einfaldlega hent honum til hliðar og búið til nýjan. Á Sólvöllum eru hlutirnir látnir passa. Á morgun ætla ég svo að leggja 60 mm eingangrunarplast framan við sökkulinn til að varna frosti að komast inn undir húsið. Svo fylli ég með grófum sandi að sökklinum og á þá fyllingu á að koma stétt eins og framan við aðalinnganginn. Þar ætlum við að fá okkur kvöldhressingu í framtíðinni og horfa um leið á sólina setjast bakvið Kilsbergen. Við höfum ákveðið að ganga frá sökklum undir það sem eftir er af húsinu á næsta ári.

Af hverju er svo ellilífeyrisþegi að basla svona. Þetta er fyrir fólk sem er á yngri árum. Já, það er kapítuli sem ég fer ekki inn á núna. Hins vegar lásum við Valdís ævisögur í hitteðfyrra. Við lásum meðal annars um hann Svein í Kálfskinni. Þegar maður les um Svein og hans framkvæmdaævi verður þetta baukandi mitt voðalega lítilfjörlegt og jafnvel kjánalegt, líkist aulalegu basli. Já, svo má kannski láta það heita. En ég er afar þakklátur fyrir heilsu mína eins og ég hef oft sagt áður. Í vikunni kom maður í meðferð og var íklæddur náttfötum og slopp frá morgni til kvölds. Ég vissi hvað hann var gamall en hann spurði mig hvað ég væri gamall. Þegar ég hafði sagt honum það sagði hann að bragði: Þá hlakka ég til að verða edrú. Hann er ári yngri en ég. Kannski hef ég gott af mínu baukandi.


Ég var að tala um góða lykt áðan. Hér er skýringin. Lyktin var af pönnukökunum sem hún Valdís var að baka í laumi þegar ég lá í mölinni undir húsveggnum. Hún sat hreint ekki auðum höndum því að þegar ég kom inn í pönnukökurnar var allt skrúbbað og skúrað og húsið lyktaði af hreinlæti og pönnukökum.

Fyrir 51 ári vorum við Valdís stödd í herbergi í fjölbýlishúsi að Skaftahlíð 16 í Reykjavík þar sem ég leigði þá hjá henni Guðrúnu frænku minni frá Fagurhólsmýri. Við opnuðum litla öskju og horfðum niður í hana og í henni voru tveir trúlofunarhringar. Við höfðum talað um að setja hringana upp á afmælisdegi Valdísar þann 24. nóvember. Ég man ekki almennilega hvort það var barnaskapur að geta ekki beðið en alla vega; við settum upp hringana þann 19. nóvember.


Kommentarer
Anonym

Þið eruð frábær.

2011-11-21 @ 12:17:05
Rósa

Fínn sökkull! Það verður allt annað að fíka fyrir framan eldhúsið næsta sumar.



Kveðja,



R

2011-11-22 @ 14:58:24
Guðjón

"Þið eruð frábær" Ég hef grun um að það sé hún Þórlaug sem sendir þessa kveðju og takk fyrir það.



Rósa, það verður nefnilega fínt að fíka framan við gluggann og svo verður hægt að rétta veitingar út um gluggann og taka af borði og setja inn um gluggann.



Kveðja GB

2011-11-22 @ 18:54:25
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0