Sagan um teið

Það var á mánudagskvöldið sem ég spurði Valdísi hvort hún vildi te. Já, svaraði hún. Svo tók ég tepoka af handahófi úr smá kassa upp í hyllu og lagaði ég te í tvö bolla. Eftir þessa tedrykkju var ekkert annað að gera en bursta og pissa og svo bara að ganga til fundar við Óla Lokbrá. Þegar ellilífeyrisþegi þarf að vakna klukkan hálf sex að morgni til að fara í vinnu, ja, þá gildir að leggja sig snemma. Þegar ég hafði svo lagt mig á koddann og dregið ullarvoðina upp undir hægra eyrað, þá bara sveif ég á náðir Óla lokbrá og englana sem talað er um í bæninni: Sitji Guðs englar saman í hring / Sænginni yfir minni.

Oftast þegar klukkan hringir er ég búinn að vera vakandi í nokkrar mínútur en í þetta skipti var ég langt inn í hljóðu draumalandinu þegar pípandi klukkan reif mig upp frá værðinni eftir sjö tíma svefn. Svo dreif ég mig á fætur þó að ég hefði getað sofið einhverja stund til. Þegar ég lagði af stað var ég hversu hress sem helst og ég spilaði á stýrið með fingrunum eins og það væri píanó og var alveg til í að syngja. Dagurinn byrjaði vel og dagurinn varð góður.

Á þriðjudagskvöldið spurði ég Valdísi hvort hún vildi te. Já, svaraði hún. Svo tók ég tepoka af handahófi úr smá kassa upp í hyllu og lagaði ég te í tvo bolla. Svo var það bara eins og önnur kvöld þegar það er vinna að morgni, bursta og pissa og leggja sig og nú var ég ákveðinn í því að leggja mig vel fyrir hálf tíu því að dagurinn hafði verið hreinn annríkisdagur.

Þegar ég lagðist á koddann og hlakkaði til að endurtaka upplifunina frá kvöldinu áður, þá stóð sú upplifun alls ekki til boða. Ég var hversu vel vakandi sem helst, púlsinn var kröftugur og frekar hraður var hann líka, og það var eins og einhvers konar klukka langt inn í mér tikkaði hljótt en þó með gjallandi hljóði; kling-klong, kling-klong og ég fann að Óli og englarnir komust ekki nálægt mér. Átti þetta nú að verða svona kvöld og ég að vakna snemma að mnorgni.

Tilraunir til að breyta um stellingar, skreppa á klóið og slappa nú vel af og biðja bænir, komu ekki að neinu gagni. Seint og um síðir sofnaði ég, en eftir í mesta lagi tveggja tíma svefn vaknaði ég og var alveg i spreng. Púlsinn var samur og um kvöldið, gjallandi klukkuhljóðið hafði ekki gefið sig og mér fannst sem ég hefði ekki hvílst neitt. Eftir klósettferðina tók það mig langan tíma að sofna á ný. Valdís var eitthvað óvær líka.

Svo vaknaði ég aftur eftir kannski tæpa tvo tíma og var enn í spreng. Púlsinn var nú heldur mildari og klukkan langt inn í mér hafði nánast hljóðnað. Eftir þessa aðra ferð mína fram sofnaði ég með værð. Þegar vekjaraklukkan hringdi fannst mér sem ég hefði loksins verið komin inn í draumalandið þar sem kyrrðin og værðin ráða ríkjum, en það var vinna í dag. Leiðin þangað var nú mikið lengri en daginn áður og dagurinn varð allur seigari.

Á leiðinni heim velti ég því fyrir mér hvað eiginlega hefði verið á seiði. Allt í einu! Teið! Ég ákvað að rannsaka litla kassann með teinu þegar ég kæmi heim. Ég tók hann niður og horfði niður í hann. Þar voru tvær tegundir af tei, lausir pokar og pokar í umslögum. Einmitt! Fyrra kvöldið var tepokinn ekki innpakkaður en seinna kvöldið var pokinn innpakkaður. Ég bókstaflega upplifði tegerðina þessi tvö kvöld og ég var ekki í vafa. Ég sem hafði ætlað að gera það að hefð hér á bæ að drekka bolla af tei á kvöldin. En -í gærkvöldi var ekkert te og við sofnuðum við bæði inn í draumalandið þar sem kyrrðin og værðin ráða ríkjum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0