Ætlar þú eitthvað út um helgina?

Sumarið var 1960 og þá vann ég í trésmiðjunni Meið í Hallarmúla í Reykjavík. Vinnufélagi kom til mín og spurði hvort ég ætlaði eitthvað út um næstu helgi. Ég reiknaði með því en þó er ég alls ekki viss um að það hafi verið ákveðið af minni hálfu, en mannalega varð ég að láta þar sem ég fékk þessa spurningu. Má ég vera samferða? spurði hann næst. Já,auðvitað eða eitthvað í þá áttina svaraði ég. En er þá ekki í lagi að konan mín verði með? var næsta spurning. Jú, jú, hvað heldurðu? Ekki man ég orðalagið en ég giska á að samskiptin hafi verið eitthvað á þessa leið. Stuttu seinna sagði vinnufélaginn að mágkona hans mundi líka slást í hópinn. Ja, hérna. Þetta var að verða magnað lið.

Um helgina fórum við svo í Sjálfstæðishúsið í Reykjavík sem þá var við vestanverðan Austurvöll, bakvið Póst og síma sem þar var þá og er kannski enn. Mágkona vinnufélagans fyrrverandi á afmæli í dag og hún er búin að fylgja mér í 51 ár. Það er mikil tryggð sem þessi manneskja býr yfir. Í dag er hún búin að vera á söngæfingu með kórnum sínum, við erum búin að fá okkur smá snarl inn í Örebro og núna erum við nýbúin að borða íslenska hangikjötið sem hún Guðrún mágkona mín og Páll bróðir gáfu okkur þegar við vorum á Íslandi senemma í vor.


Það var í þá daga skal ég segja ykkur. Þykkt mjúklega liðað hár annars vegar og brilljantín með tilbúnum lið hins vegar. Jakkinn sem ég er í á myndinni fékk ég að láni hjá vinnufélaganum sem spurði hvort ég ætlaði út um helgina.


Fiskimannsdæturnar frá Hrísey löngu áður en karlmenn byrjuðu að teygja út fingurna til þeirra. Til Vinstri er Brynhyldur kona vinnufélagans sem fór með í Sjálfstæðishúsið. Til hægri er Valdís kona mín sem á afmæli í dag og yfirgaf mig aldrei eftir nefnda Sjálfstæðishúsferð. Í miðjunni Árný Björk sem enn var heima hjá mömmu og pabba í Hrísey þegar þessi ævintýri áttu sér stað.


Nokkur ár eru þarna liðin frá fyrstu fundum og fjölskyldan orðin fjölmenn. Frá vinstri: Vilhjálmur Kristinn, Guðjón, Valgerður, Valdís og Rósa. Myndin er tekin rétt eftir 1970 á lóðinni heima hjá foreldrum Valdísar. Brilljantínið var þarna lagt á hylluna til frambúðar.


Fyrsta fermingin, ferming Valgerðar. Ekki var þá búið að mála nýja húsið í Sólvallagötunni en veggurinn samt valinn sem bakgrunnur. Ég á sokkaleistunum og í útvíðum buxum og ég held bara að Rósa sé líka á sokkaleistunum. Ég veit að Valdís var þarna búin að vinna hörðum höndum við að undirbúa fermningarveislu og var ekki búin að vera sérhlífin skal ég fullyrða.


Svo fór hún út í heim og er búin að prufa margt.


Hún fékk lítið barnabarn til að elska þegar hin barnabörnin voru komin á legg eða fullorðin eins og dóttursonurinn Kristinn.


Á götu í Stokkhólmi síðastliðið sumar með lítinn Hannes í kerru sem greinilega hefur fengið sér blund.

Meðan við áttum heima í Svärdsjö í Dölunum skruppum við Gísli Stefánsson eitt sinn sem oftar saman til Falun sem það heitir og þar var Valdís í skóla fyrir fullorðna til að læra sænsku. Það var snemmsumars og veðurblíða. Valdís ásamt nokkrum öðrum fullorðnum nemendum skólans var úti við og fólk spjallaði þarna ákaft saman, fólk frá nokkrum löndum hingað og þangað að í heiminum sem hélt nú uppi líflegum samræðum á sænsku. Fyrst vorum við Gísli alveg þögulir þar sem við horfðum eiginlega undrandi á þetta glaðværa fólk en síðan sagði Gísli: Það verður nú bara að segjast eins og er að þetta lítur skemmtilega út, allir svo glaðir og líður greinilega mjög vel.

Já, þar rataðist Gísla af munni nákvæmlega það sem ég hefði viljað segja. Ég var einmitt að velta því fyrir mér þegar hann sagði þetta að það sem Valdís var að upplifa þarna meðal þessa fólkis var í raun alveg útilokað.

Já, ég ætlaði eitthvað út um helgina, fór, og kom ekki einn til baka.


Kommentarer
árný

svo heppinn mágur minn að hitta svona mikið GULLHJARTA.

2011-11-25 @ 17:33:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0