Ég skal syngja á þínum herðum elsku pabbi

 
Við á Celsiusgötu 3 í Stokkholmi fórum til nágranna í gær til að borða léttan hádegisverð. Rósa og Pétur smurðu flatbrauð til að leggja til eitthvað óvenjulegt í þennan hádegisverð. Þegar við fundum lyktina af hangikjötinu og sáum það á flatbrauðinu, þá minnti það okkur á fermingarveislur í Hrísey fyrir áratugum. Ef við munum rétt, þá skar fólk heilu hangikjötslærin í álegg og svo var mikið af flatkökum í veislunum, flatbrauð með hangikjöti. Maðurinn ég sem er hættur að byggja er þó að hugsa um að byggja reykaðstöðu en það verður varla kallað bygging. Bara skápur til að hengja upp í, dallur til að brenna í og rör til að leiða reykinn á milli. Ég var góður við  að reykja rauðmaga þegar við bjuggum á Bjargi og ég ætti að geta endurnýjað þá kunnáttu. Svo þarf ég líka að drífa í því að baka flatkökur. Svíum þykir þær góðar og þær eru öðruvísi en annað brauð hér eins og rúgbrauðið er líka. Svo þegar hangikjötið er með, þá er það fullkomnað. Mér fellur býsna vel að vera öðru vísi.
 
 
Léttur hádegisverður er alls ekki svo lítill hádegisverður, en þetta er hjá Tina og Joakim sem búa bara handan við hornið. Oskar sonur þeirra er í leikskóla með Hannesi. Eftir hádegisverðinn fórum við Pétur í búð þar sem ég keypti rafmagnsrakvél og hún er svo rosalega fullkomin að það eiginlega nægði fyrir mig að sveifla henni eitthvað í nágrenni við höfuðið og svo voru þessi ílustrá á efri vörinni horfin.
 
 
Hann nafni minn hóf í gærmorgun, annan jóladag, samsetningu heimskautaflugvélarinnar sem ég gaf honum í jólagjöf. Hann gekk hratt og ákveðið til verks og sýndi að æfinginn skapar meisrarann. Hann er orðinn þaulvanur samsetningamaður.
 
 
Hann hafði vinnulýsinguna við hendina og var svo fljótur að finna allt út að þegar hann var búinn að framkvæma, þá var ég að byrja að skilja eða finna hlutana sem hann var búinn að nota. Í það eina skipti sem ég ætlaði að segja til þá komst hann ekki hjá því að reka vitlsysuna ofan í mig aftur.
 
 
Heimskautaflugvél er mikið og gott tæki. Það varð hlutverk mitt að undirbúa matarborðið fyrir kvöldmatinn og þá setti ég bakka á lítið innskotsborð og heimskautaflugvélina á bakkann. Þar með var þessi nýja flugvél lent á Bakkaflugvelli. En hún stoppaði ekki lengi þar því að eigandinn hélt henni í stanslausum rekstri og flaug henni víða í áríðandi verkefnum.
 
 
Svona stellingar virðast vera þægilegustu stellingarnar fyrir suma, annars væru þær varla valdar. Það var Hannes sjálfur sem valdi að sitja á háhesti þegar þeir feðgar ákváðu að syngja saman. Við Páll bróðir töluðum um það um daginn hvað það væri mikilvægt í uppeldi að syngja en það var þó ekki til siðs í okkar uppeldi. Eitt sinn þegar Hannes var sóttur á leikskólann voru börnin að föndra og þá söng Hannes "Krummi krunkar úti". Þá hafði einn af leikskólakennurunum sagt að í annað skipti hefði hann verið að syngja þegar þau voru líka að föndra og börnin í hans hópi hefðu lagt föndrið frá sér til að geta hlustað betur á hann. Eflaust er eitthvað meðfætt í þessu sambandi en ég er alveg öruggur í þeirri vissu minni að uppeldið er stærsti þátturinn.
 
 
Hannes varð stríðinn þegar ég bað um að fá að taka mynd af honum með heimskautaflugvélina og hann bara sneri sér undan og þóttist vera fúll. Svo kom Rósa mamma til hjálpar og samningar náðust. Jólin hafa verið mjög bundin við Hannes Guðjón enda ekkert eðlilegra. Rósa er þarna í kjól úr efni sem hún keypti í Sádi-Arabíu en kjóllinn var saumaður hjá vinkonum hennar í Stokkhólmi.
 
Þegar draumur minn um að verða læknir hafði gufað upp eftir tíu ára tilveru, þá ætlaði ég að verða flugmaður og kynnast heiminum. Ekki varð ég frekar flugmaður en læknir en dætur mínar hafa verið duglegri við að kynnast heiminum en ég. Mín heimskönnun er mjög bundin við Sólvelli en ég harma þó ekki örlög mín.
 
Þegar ég er að enda þetta blogg sit ég í lest á milli Stockholms og Västerås. Það er snjóföl og sólskin og nokkuð frost. Akrar, skógar, trjáþyrpingar og byggðarlög þjóta hjá. Lestarferð er reyndar líka að kanna heiminn. Að lokum kem ég til með að klífa úr bílnum mínum á Sólvöllum, kveikja upp í kamínunni, ganga um kring og sjá til að í mínum litla heimi sé allt í lagi. Svo byrjar hversdagsleikinn með bauki mínu og einu og einu bloggi framvegis. Allt er gott í kringum mig og ég hef haft mjög góð jól. Ég þarf ekki meira og lífið er gott. Aðrir sem eru yngri vinna við að að þróa tilveruna á einn og annan hátt og það er spennandi fyrir ellilífeyrisþega að fylgjast með.


Kommentarer
Svanhvit

Flott úr kjóll sem Rósa er í. Guðjón mér líst vel á reykkofann , og panta hér með 1 pakka af flatkökum 👍

Svar: Frábært að fá góðar undirtektir Svanhvít, það getur ráðið úrslitum.
Gudjon

2014-12-27 @ 19:34:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0