Ef við bíðum öll eftir að aðrir geri það gerir það enginn

Ég var búinn að vera á flakki um héruð í tvo daga og kom heim eftir dimmumótin í gær. Eitthvað mitt fyrsta verk var að kveikja upp í kamínunni og þá auðvitað byrjaði ég á að losa skúffuna sem askan fellur niður í. Ég fór ekki langt í þetta skiptið heldur gekk aðeins austur fyrir húsið þannig að ljóskastarinn á þvottahússtafninum byrjaði að lýsa og það sást langt austur fyrir húsið, alla leið inn í skóg. Um leið sá ég að grasið náði mér nánast í ökla og ég hugsaði sem svo að hér þyrfti að fara að slá. Það var 19. desember og það hefði þurft að slá. Það verður sina á stórum hluta lóðarinnar að vori en það verður bara góður áburður í því. Valdís hefði verið búin að slá fyrir löngu og jafnvel hefði hún slegið aftur núna.
 
Svo kveikti ég upp og ylurinn barst horna á milli. Ég rölti um heima hjá mér og fann að ég hafði það ótrúlega gott en ég velti samt fyrir mér hvað ég ætti ógert fyrir jól. Það fannst pínu lítill órói innra með mér, órói yfir því að ég hefði kannski átt að gera hitt og þetta en svo held ég að mér hafi tekist að losna við þennan óróa þegar leið á kvöldið. Mér ber að sætta mig við það að núna eru jólin þau jól sem ég held en ekki jólin okkar Valdísar. Hún hafði alla tíð jólin í föstu formi, áratug eftir áratug, öðru vísi en ég hefði gert það. Það voru jól eins og hún vildi hafa þau og ég tók þátt í því með henni. Nú er það liðið og ég sé mér ekki fært að vera annar en ég er. Samt er það ekki alveg svo einfalt.
 
Það komu fimm manns í heimsókn í dag og ég tók á móti þeim á minn hátt. Ég tel mig hafa gert það með sóma og það urðu áhugaverðar umræður um menn og málefni, um heilsufar og hvernig best væri að hlú að okkar eigin heilsu. Ég hef svo oft talað um heilsuna mína að ég ætla að gefa grið núna og sleppa því utan að segja það að ég hef algera forréttindaheilsu. Þegar gestirnir mínir voru farnir gekk ég í næst næsta hús sunnan við og hitti hann Lars eldri. Ég spurði hann eftir honum Ívari, en vegna þess að ég hafði ekki verið heima vissi ég ekki hvernig aðgerðin sem gerð var á honum í fyrradag hefði gengið.
 
Jú, Lars eldri staðfesti það að nefið hafði verið tekið af honum Ívari, bara eins og það lagði sig. Það var svo sem vitað en núna var það staðreynd. Hvernig heldurðu að það verði að horfa framan í fólk á eftir? Svo sagði Ívar við mig um daginn og ég heyrði hvernig hann komst við þegar hann sagði það og ég sá sorgina í augnaráði hans. Það er margt í heimi hér sem segir mér svo ekki verður um villst að ég er forréttindamaður. Ég hef það afar gott. En ekki meira um heilsu því að ég finn að ég get hafnað á öfugum vegarhelmingi ef ég held áfram.
 
Ég heyri klukku tifa á vegg og þó að hún virðist ekki fara hratt, þá verður fyrr en varir kominn nýr dagur. Á morgun ætla ég að tína svo mikið sem ég get á stóru kerruna sem hann Lars eldri lánaði mér í dag. En ef sjónvarpsmessan lofar góðu þegar hún byrjar, þá ætla ég að taka mér tíma til að horfa á hana. Að öðru leyti ætla ég að eigna allra næsta umhverfi mínu kraftana á morgun. Ég ætla meðal annars að taka eitt eða tvö af gömlu viðarskýlunum og brytja niður með stingsöginni minni og setja á kerruna. Ég er búinn að byggja nýtt hús og hef enga afsökun fyrir því að taka ekki ærlega til í kringum mig. Það er bara langþráður draumur að gera snyrtilegt og fínt á Sólvöllum. Geri ég svo getur öllum sem hér dvelja liðið betur í umhverfi sem skapað er af umhyggju.
 
Það er þetta sem liggur augljóslega fyrir núna. Svo þarf ég að taka annan dag og enn annan dag í svipaða tiltekt. Svo þarf ég að taka nokkra daga í að innrétta austurendann í nýja húsinu mínu og gera hann þannig geymslufæran að ég geti farið að raða þar upp góðum eldiviði. fyrr en varir verður svo komið fram yfir miðjan janúar og á þeim tíma mun eitthvað nýtt koma fram sem ég þarf að gera. Þegar líða tekur á mars mánuð fer ég með keðjusögina úr í skóg og grisja. Í þetta skipti til að gera greiðari gönguleiðir í "Sólvallaskóginum". Það er stórt orð Sólvallaskógurinn.
 
Eitt sin kom fólk í heimsókn og ég fór með það út í skóg, fólk sem ekki hafði verið hér áður. Ég gekk með þessu fólki ákveðna leið og fór svo inn á leið sem við vorum búin að ganga og gekk hana til baka. Þannig tókst mér að gera gönguna um Sólvallaskóginn ótrúlega langa og fólkinu þótti mikið til um stærð Sólvallaskógarins. Það var af minni hálfu hvít lygi því að skógurinn var ekki svona stór. Þetta segir hins vegar hversu auðvelt það er að gera þennan litla skóg að fínu ævintýralandi. Sköpun þessa ævintýralands er á verkefnalista mínum og það verður afar skemmtilegt verk.
 
Svona verk eru öllum til góðs. En svo eru ekki öll verk mannanna. Við þurfum í bæði kvöld og morgunbænum okkar að biðja fyrir stjórnmálamönnum þessa heims. Við þurfum að biðja þeim heilla. Takist þeim að stjórna i þessum heimi án valdagræðgi, fjármálagræðgi, án kynþáttafordóma og án nauðgana og pyndinga, þá getur margt ævintýralandið orðið til í þessum heimi. En hræðilega margir þessara svokölluðu stjórnmálamanna heimsins virðast ekki vera færir um annað og því þurfum við að hafa þá með í bænum okkar þegar við erum búin að biðja fyrir mannkyninu og framhaldi alls slífs á jörðinni, biðja fyrir þeim sem líða af sorg, ótta, fátækt og af sjúkdómum. Það er margt sem við þurfum að gera og ekki bara bíða eftir að einhverjir aðrir geri það.
 
 
Víst verða jól á Sólvöllum þó að það verði ekki jafn mikið jóladót tekið upp úr kössum og áður var gert.
 
 
Það vantar hús til hægri á þessa mynd en víst er það ljóst þegar þessi mynd er skoðuð að það er hægt að gera Sólvelli að meira ævintýralandi en þegar hefur verið gert. Því get ég spurt sjálfan mig:
 
Af hverju ekki?
 
Jú, ég ætla að gera það.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0