Skoftesta er fyrirmyndin

Það var í ársbyrjun 1999 sem við Valdís keyptum það sem við kölluðum bústaðsréttaríbúð í Örebro. Nokku eftir það endurnýjuðum við búslóðina að miklu leyti á tveimur árum eða svo. Það síðasta sem mér fannst okkur vanta var sófasett sem ennþá er hér frammi í dagstofunni. Ég man vel eftir því þegar sófasettið var komið heim til okkar og við vorum búin að stilla því upp á sinn framtíðarstað að mér fannst að nú væri þessi þáttur kominn í fullkomið lag og mér fannst sem okkur vantaði ekkert meira. Og þannig hélt það áfram að vera svo lengi sem við áttum heima í Örebro. Ég var ánægður með okkar og mér fannst aldrei eftir að sófasettið var komið í hús að það vantaði nokkuð fleira.
 
Óvænt ákveð ég í haust að byggja 25 m2 hús. Það hús er nú risið og er að talsverðu leyti jafn vel byggt og það ætti að verða íbúðarhús. Það er vissulega vinna eftir við húsið til að það komi fyllilega að tilætluðu gagni en húsið er risið og það skýlir nú þegar fyrir veðri og vindum eins og því er ætlað að gera. Sumir spyrja mig hvort ég ætli aldrei að hætta að byggja og nú ætla ég að gefa svar. Ég hef nákvæmlega sömu tilfinningu núna og ég hafði forðum í Örebro; að nú er byggingum á Sólvöllum lokið og tilfinningin er afar góð. Hér er allt sem þarf. Nú fer ég að leggja lokahönd á margt og núna finn ég á öllu að þeir draumar sem ég hef bloggað um á síðustu árum, sérstaklega um að ferðast í þessu fallega landi og kynnast því til hlítar, þeir eru á næsta leyti.
 
Í dag reif ég tvö af litlu gömlu viðarskýlunum, þessum sem voru svo lág að ég rak skallan ósjaldan upp í þakið þegar ég sótti við. Núna er viðargeymslan svo há að ég þarf að fara einar þrjár til fimm tröppur upp til að geta rekið mig uppundir. Og það er ekki bara þetta með að reka höfuðið upp undir. Nei, það fer að líta jafn vel út á Sólvöllum og mig hefur lengi dreymt um. Sumir segja að það líti nógu vel út en það á að líta betur út. Það er svo einfalt að gera það og þá er bara að gera það. Það er gott umhverfismál fyrir þá fallegu sveit sem ég bý í.
 
 
Þegar það lítur svona vel út framan við Sólvallahúsin, hvers vegna þá ekki að láta líta jafn vel út bakvið þau?
 
 
Þetta er frá býlinu Skoftesta sem liggur nokkur hundruð metra frá Sólvöllum og þar búa Anki og Johan. Það er snyrtilegasta býli sem ég hef nokkru sinni augum litið. Skoftesta er í raun fyrirmynd mín. Anki og Johan sýna það að svona er hægt að gera og ég vil sýna að það geta fleiri fetað í sömu fótspor. (Ljósm Pétur tengdasonur)
 
Það er erfitt að ná mynd af Skoftesta býlinu þannig að snyrtimennskan sjáist vel og þetta er besta myndin þó að mér finnist hún ekki nógu góð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0