Nýi lifsstíllinn leysir afl úr læðingi

Það er nú orðið meira kæruleysið á Sólvallakallinum, ég er bara hættur að nenna að blogga. Það ríkir hér rólegur hversdagsleiki og í dag er fyrsti dagurinn sem er eins og mér finnst hann eigi að vera í því sem ég er að glíma við núna, að koma einföldu skipulagi á innanhúss á Sólvöllum. Það hefur ekkert verið einfalt mál og ég hef velt hlutum fyrir mér af töluverðu óöryggi og lagt þá frá mér hingað og þangað en þeir hafa hvergi passað. Ég veit líka að ég mun aldrei þrífa vel í kringum mig svo lengi sem smáhlutum er stillt á alla mögulega staði. Valdís gerði það og gaf sér tíma til þess en ég er ekki með neina húsmóðureiginleika til að gera svo. Ég er að einfalda hlutina og það er farið að sjást þegar ég lít yfir. Það er ekki án tilfinninga sem svona löguð breyting er gerð á mínum bæ en hún er óumflýjanleg.
 
Í dag sótti ég gegnsæan plastkassa með góðu loki út á loftið á Bjargi. Núna er ég farinn að tína hluti i þennan kassa og svo má alltaf líta á kassann og til og með líta ofan í hann ef áhugi verður fyrir því síðar meir. Ýmsar myndir hef ég tekið úr römmum og raðað inn í ákveðin fjölskyldualbúm sem Valdís gekk mjög vel frá á sínum tíma. Ég hef bara aukið við það sem er í þessum albúmum og svo hef ég hent flestum römmunum nema þeir séu sérlega góðir. Þannig gengur það hér á bæ og ég reyni að hafa það í huga líka að bera virðingu fyrir því sem verið hefur og ana ekki áfram.
 
Það er nokkuð sem mér leiðist við nútímasamfélagið og það er að halda utan um pappíra. Allt mögulegt er geymt í tölvum en svo þarf að geyma pappíra líka! Ég hef tæmt möppur í dag sem skattalega þarf ekki að geyma lengur. Svo hef ég verðið að raða samviskusamlega inn í þær og mér finnst annað hvert blað sem ég er með í höndunum varða Tryggingastofnun ríkisins. En sennilega finnst mér það vegna þess að ég er með hálfgert ofnæmi fyrir TR. Sorrý.
 
Rusl er tæmt hér á tveggja vikna fresti. Síðast var tunnan ekki tæmd. Hún stóð þá upp við vegg á lítilli geymslu þar sem sláttuvélin er til húsa. Og hvers vegna? Jú, hún var tóm. Ég fór í dag með fyrsta ruslapokann í tunnuna eftir tæpar þrjár vikur. Hún var tóm þegar ruslabílinn var hér á þriðjudaginn var og ég lá þá með höfuðið á koddanum og hlustaði með vellíðan á hann fara hjá. Það er ekki af nýsku sem það fer ekki meira í tunnuna hjá mér en þetta. Það er af nægjusemi og það er vegna þess að ég bý til moltu og sortera vel.
 
Skammdegið er þannig núna að það verða að vera kveikt ljós um hábjartan daginn og það er vegna þess að hann er alls ekki hábjartur. En vetrarmyrkrið er alls ekki svart, það er vel hægt að búa við það og það væsir ekki um mig. Í gær var ég í Íslendingaveislu inn í Örebro. Þar var all margt um manninn og gott að vera. Það var þar margt á borðum sem tilheyrir Íslandi og þetta var ágætis tilbreyting. Samt ætlaði ég eiginlega ekki að nenna að fara en ég fór samt. Svo var ég mjög ánægður með að hafa farið.
 
Á morgun þarf ég að skrifa jólakort og kannski jólabréf. Ég talaði líka um það í fyrra að Valdís hefði verið dugleg við að senda fólki smávegis en þar er ég algert dauðyfli. Mig bara skortir allt ímyndunarafl til þess og það setur að mér kvíða ef ég reyni að einbeita mér að því. En Valdís hafði þetta ímyndunarafl og svo var þetta fyrir hana það sama og það er fyrir aðra að spila bridge, dansa eða fara á fótboltavöllinn til að hrópa á liðið sitt í keppni. Það eru margar breytingarnar á Sólvöllum eftir að vissar hefðir hafa verið í gildi í meira en hálfa öld hér og á öðrum stöðum þar sem við höfum búið.
 
Snemma á Þorláksdag fer ég í vinnu í Vornesi og vinn svo þangað til seinni partinn á aðfangadag. Þá skil ég bílinn eftir í Vornesi og tek ég lest til Stokkhólms og verð kominn nógu tímanlega þangað til að borða jólamatinn með fjölskyldunni á Celsíusgötunni. Það verður annar jólamaturinn minn þann dag. Svo verð ég þar yfir jólin.
 
Klukkan nálgast níu að kvöldi og ég fer að slá botninn í þetta. En fyrst um nýja lifsstílinn sem ég held að ég hafi nefnt í síðasta bloggi. Í dag var það dagur átta. Gangan sem ég talaði um um daginn er engir sjö kílómetrar eins og ég helt fram þá, heldur sex. Það hef ég þegar mælt nákvæmlega. En hvað um það. Á degi tvö var ég bara stirðari á göngunni en á þeim fyrsta, ennig á degi þrjú og það var ekki fyrr en á degi sex sem gangan fór að verða léttari. Í dag á degi átta fann ég að skaftfellsku smalafæturnir voru að lifna við og ég var átta mínútum fljótari að ganga þessa sex kílómetra en ég var fyrsta daginn.
 
Að svo búnu óska ég öllum bjartrar og góðrar jólaföstu og gangi ykkur allt í haginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0