Fyrsta bros ungbarnsins

Ég hef um skeið verið að lesa bók skrifaða af Martin Lönnebo, fyrrverandi biskupi, bók sem heitir Lyklar hjartans (Hjärtats nycklar). Ég hef nefnt þessa bók áður á bloggsíðunni minni og höfundinn með. Hún er jú um andlegheit, mikill vísdómur skrifuð af lífsreyndum manni. Það eru sem betur fer margar slíkar bækur að finna eftir ýmsa höfunda en það lætur kannski hrokafullt; ég er vandlátur á þessar bækur án þess þó að skýra það nánar. Að minnsta kosti ekki að sinni. Svona bók get ég ekki hraðlesið. Það getur tekið mig marga mánuði með því að lesa stundum nokkrar síður í einu, stundum nokkrar línur í einu og svo að lesa þessar línu aftur og aftur með tíma til umhugsunar á milli. Ég lenti í svoleiðis í gærkvöldi og ég vil gefa nokkur dæmi um það sem ég las.

Fyrsta bros ungbarnins virðist koma ósjálfrátt, að því er virðist án ástæðu, bros móti hinni algerlega óþekktu tilveru. Jafnvel fyrir fjölskylduna á hinu undursamlega augnabliki þegar brosið breiðist út sem svar við hinum lýsandi kærleiksfullu lútandi andlitum getur það verið tvírætt. Munnurinn kippist við, ætlar hún kannski að byrja að gráta aftur og minna okkur á óhamingju lífsins, það er munurinn? En svo, undur og kraftaverk, fyrsta brosið breiðist út, það er staðfesting á að andlegur skyldleiki er mögulegur. Það segir beint inn í hjartað: Ég treysti ykkur, við tilheyrum hvert öðru, heimurinn er staður sem býður mig velkominn.

Og síðar:

Þetta fyrsta bros móti ástvinum er mesta góðverk manneskjunnar nokkru sinni. Aldrei i lífinu er hægt að gera það betur, en það er hægt að endurtaka það og þegar það skeður blómstrar líf og samfélög, sköpun andlegs skyldleika er í gangi.

Og Martin heldur áfram. Hann talar um meðgleði, það er að segja að geta glaðst í sannleika yfir velgengni annarra og hann talar um öfundsýkina. Svo allt í einu kom ég að þessu stykki og þá stoppaði ég við, las aftur og aftur, lagði bókina til hliðar, hugsaði og las svo einu sinni enn og einu sinni enn.

Þetta er ekki aðeins spurning um einkalífið. Ef neikvæðar, óþroskaðar tilfinningar ríkja í samfélagi, hugmyndafræði eða trúarbrögðum er það tilhneiging  að velja foringja sem einkennast af öfund og hatri. Mannkynssagan er til vitnis um hvað þetta þýðir. Kreppti hnefinn hefur sinn tíma en öpna hendin hefur allan tíma.

Dökka leturgerðin er mín til að leggja áherslu á þá meiningu. Hvað þetta setti grillur í höfuðið á mér. Nokkru fyrr um kvöldið las ég blogg fólks um ólíkar íslenskar fréttir og þessi blogg voru óbreytt frá fyrri dögum, vikum og mánuðum. Þau voru reiði, níð, uppnefningar og stóryrði og augljóslega án þekkingar. Ég ákveð oft að lesa þau ekki oftar því að það fari bara illa með sálarlíf mitt. Svo kemst ég að þeirri niðurstöðu eftir dálítinn tíma að ef ég lesi þau ekki viti ég ekki hvernig klukkan slær nema á yfirborðinu.

Ég hugsaði þarna í gær að ég ætti að þýða þessa texta og setja á bloggsíðuna mína, en komst svo að þeirri niðurstöðu að ég gæti bara haft þetta fyrir sjálfan mig. Í morgun horfði ég svo á sjónvarpsfréttir og þar var talað talsvert um sænska nýnastista eða hvað ég á að kalla þá. Þá ákvað ég að þýða og blogga því spurningar voru vaknaðar hjá mér: Hverja koma þessir reiðu bloggarar til með að velja til forystu við næstu kosningar? Hverja koma reiðir sænskir kjósendur til með að velja við næstu kosningar? Já, kannski þessa menn sem Martin talar um í bók sinni, menn sem einkennast af öfund og hatri.

En aðeins meira frá Martin.

Athugaðu stóru yfirlýsingar tuttugustu aldarinnar og leitaðu eftir hinu hreina brosi. Það finnst aldeilis of sjaldan, niðurbrotsstarfssemin hefur tekið yfir. Hlusta á pólitíska umræðu og þú verður dapur. Og það virðist ekki verða betra, heldur versna.

Ég ætla ekki að verða dapur, ég ætla að leita að hinu hreina brosi. Á morgun ætla ég að komast einu skrefi nær fullgerðu húsi. Þegar ég verð búinn að klæða loftið í forstofunni seinni partinn á morgun ætla ég að kalla á Valdísi og spurja hana hvort við getum verið ánægð með þetta. Að vísu völdum við efnið saman svo að við verðum að sjálfsögðu ánægð með það. Svo fáum við okkur eftirmiðdagskaffi. Húsið okkar er ekki höll byggð af auðæfum, heldur gott hús byggt af nægjusemi. Einfalt líf er gott líf.

Á eftir ætla ég að taka bókina hans Martins og lesa þangað til Óli vinurinn Lokbrá hefur náð yfirhöndinni. Það þurfum við að gera eitt af öðru, lesa betri bók í dag en í gær, leita eftir fölskvalausu brosi og endurgjalda það, eða brosa fyrst í von um að fá það endurgoldið. Vinsamleg afstaða verður ekki einkennandi í mannlegum samskiptum mannkyns ef enginn byrjar.


Ég má til með að birta mynd af Martin Lönnebo. Við Valdís fórum að fylgjast með þessum manni fyrir mörgum árum. Hann á son sem heitir Jonas og hann er þroskaheftur. Jonasi líður oft illa og þá slær hann enninu í vegg og fær sár á ennið. En -stundum brosir hann líka. Best líður honum þegar þeir feðgar fara í hraðar gnguferðir. Martin á orðið erfitt með hraðar gönguferðir, eða svo hraðar sem Jónas vill. Hann er nefnilega orðinn 80 ára. Hann hélt upp á 80 ára afmælið í febrúar 2010 langt upp í Norrland í húsinu þar sem hann bjó sem barn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0