Nýársdagur 2011

Hvað mig áhrærir ríkir dagur letinnar í dag. Valdís situr hins vegar við sjónvarpið og horfir á skíðakeppni sem fram fer í Þýskalandi. Snjóábreiðurnar og kögrin, stærri og minni, sem skreyttu og skýldu trjánum í skóginum utan við gluggann lengi undanfarið hurfu að fullu og öllu í tveggja stiga hita sem ríkti hér í eina tvo eða þrjá tíma um miðnætti ásamt nokkrum vindi sem kom til að kveðja með okkur gamla árið. Svo þegar nýja árið gekk í garð var skógurinn nakinn en upp undir hálfs meters djúp þekja skýlir allri jörðinni og heldur henni frostlausri.

Dagur letinnar sagði ég. Síðasta ár er eitt af mínum vinnusömustu gegnum tíðina ef ég legg saman launavinnu, byggingarvinnu hér heima ásamt mörgu öðru sem til féll á árinu. Jafnframt hefur þetta verið afburða skemmtilegt vinnuár sem endaði með vinnudegi í Vornesi þar sem ég finn mig alltaf á heimavelli. Þegar ég fór þaðan í gær tók ég með mér ungan mann sem var að ljúka tíma sínum þar og skildi hann eftir á strætisvagnastöð. En áður en ég skildi við hann skruppum við í verslun þar sem flugeldar voru seldir og hann keypti eitthvað box með 100 einhvers konar knallettum eða hvað það nú heitir. Þegar hann var tilbúinn lagði ég tvo pakka af stjörnublysum á borðið og kallaði ellilífeyrisþegablys. Það voru öll okkar áramótaljósakaup. Valdís brenndi upp öðrum pakkanum um tíuleytið framan við verðandi aðalinngang okkar. Hinn liggur óhreyfður fram á borði.

Það var ýmislegt gott efni í sjónvarpi í gærkvöldi og ég gekk dálítið milli sjónvarps og tölvu þar sem ég hlustaði á íslenska forsætisráðherrann, las eina og aðra blaðagreinina og nokkur áhugaverð blogg. Klukkan hálf tólf hófst hin árlega dagskrá frá Skansinum í Stokkhólmi og þar söng vandaður kór ásamt afburða góðum einsöngvurum. Fimm mínútur fyrir tólf byrjaði Jan Malmsjö sinn árlega ljóðalestur

Hringdu, hringdu,
hringdu klukka, hringdu.

Síðan hélt hann áfram með ljóðið og mér fannst sem það smám saman yrði að einhverju sem hann samdi jafnhraðan sem hann úttalaði það. En þegar Jan var nýbyrjaður byrjaði mjög hörð skothríð stutt sunnan við okkur. Valdís opnaði útihurðina og þá merktist vel hversu rosalega þessar sperngingar slógu grjóthart á öllu og bergmáluðu þar að auki í skóginum. Ég leit út um nýja gluggann á stofunni okkar, þennan sem vísar móti skóginum, og þar sá ég hvernig það var eins og eldglæringarnar væru á flökti milli trjástofnanna. Ég einbeitti mér aftur að Jan Malmsjö en gat heldur ekki látið vera að hugsa til alls þess lífs sem þrifist í mildum samhljómi í þessum tiltölulega náttúrulega skógi, líf sem við manneskjurnar tölum gjarnan um sem óspilta náttúru sem sé okkur svo mikils virði. Ég sá fyrir mér elgi, dádýr, héra, refi og úlfa hlaupa þar um í æðisgengnum tryllingi, þvers og krus,stökkvandi á stokka, ísaldarbjörg, húsveggi, girðingar og hvað sem á vegi þeirra yrði. Hundar og kettir sem á annað borð ættu eigendur mundu liggja í óráðsvímu á gólfteppum og gærum og væru að mestu víðs fjarri á sínu árlega róandilyfjafylleríi.

Strax eftir að klukkurnar hans Jan hættu að hringja og mannfjöldin á Skansinum lyfti glösum sínum til að skála fyrir nýju ári byrjuðu þessar miskunnarlausu sprengingar norðan við okkur. Slagkrafturinn í sprengingunum var eitthvað svo mikill þar líka að það var ekki hægt annað en hugsa til þess hvort rúðurnar mundu þola þetta. Einhverjar fáar mínútur stóð sú skothríð yfir en svo varð byggðarlagið hljótt, fullkomlega hljótt. Og það var eins og það lægi allt í einu í loftinu að áður en nóttin væri liðin yrði þetta sama kyrrláta og óspillta sveitin og hún hefði alltaf verið. Ekki þó á sama augnabliki og síðasta skotið reið af, heldur þegar hjörtun sem börðust upp á líf og dauða við að dæla lífgefandi blóðinu um líkamana út í skóginum hefðu náð að róast niður.

Ég var með þetta allt í kollinum þegar ég settist niður við tölvuna til að skrifa áðan. Eiginlega var textinn þá þegar fæddur. Ég velti því fyrir mér eitt augnablik áður en ég byrjaði hvort ég ætti að koma fram úr fylgsninu og opinbera hversu gamaldags ég væri. Ég ákvað að gera það. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa sagði mikill boðberi fyrir 2000 árum og ég vann út frá því í Vornesi bæði í gær og í fyrradag, þó að ég ynni þar ekki útfrá Biblíunni, heldur út frá 12-spora kerfinu. Það mál út af fyrir sig gæti svo enst í mörg blogg.

Nú er ég búinn að leggja áherslu á það sem skeði á nágrannabæjunum okkar fyrsta áramótamiðnættið okkar á Sólvöllum. Því ætla ég að segja frá nágrönnum okkar á annan hátt líka. Við höfum hvers annars símanúmer ef við verðum einhvers vísari þegar nágrannar eru að heiman. Áður en við Valdís lögðum af stað til Stokkhólms fyrir jól gengum við fram og til baka um húsið og gættum að því hort ekki væri allt í virkilega góðu lagi. Svo lögðum við af stað og það tók alla vega fyrsta klukkutíma ferðarinnar að meðtaka það að allt mundi vera í góðu lagi.

Fyrsta kvöldið hringdi svo Jónas nágranni og sagði að eitthvað pípti inni í húsinu. Hann gekk upp að loftventli á svefnherberginu okkar og lagði símann upp að loftventlinum. Jú, það bar brunaboðinn sem við höfum í herberginu sem pípti óhuggnanlega. Jónas, sagði ég, Stína og Lars hafa lykil, ég verð að biðja þíg að sækja hann og ráðast til inngöngu. Og svo gerði Jónas. Brunaboðinn er staðsettur næstum beint yfir 1000 W rafmagnsofni og þegar við hættum að kynda í kapisunni hitnaði ofninn meira en áður og það þoldi ekki brunaboðinn. Jónas tók niður brunaboðann og lækkaði heldur á ofninum og svo varð allt í jafnvægi á ný.

Stína og Lars heimsóttu húsið þrisvar meðan við vorum í Stokkhólmi og það var mikils virði í þeim frostum sem þá voru. Þegar allt verður tilbúið varðandi byggingarframkvæmdir okkar verða slíkar eftirlitsferðir ekki jafn nauðsynlegar, en ég er þó jafn viss um að nágrannarnir hafa auga með öllu sem tekur einhverjum breytingum þegar við erum að heiman eins og við gerum líka gagnvart þeirra eigum þegar þeir eru víðs fjarri. Gamlárskvöldið er enginn Þrándur í götu en í einar tíu mínútur síðastliðið miðnætti varð þessi strjála byggð að einhverju óþekktu. Í dag er allt eins og það var áður.


Svona leit okkar áramóta"show" út. Ég hafði spurt Valdísi hvort hún vildi eitthvað til áramótanna en hún sagði nei. Svo kom ég með stjörnublysin og einn lottómiða. Á miðann vann hún 50 kr. Í fyrradag var annar dagur og þá fékk hún blómvönd. Það gerði ég í tilefni af því að hún hafði endst til að vera gift mér í 49 ár. Það er ekki svo lítið og því má bara alls ekki skjóta út í bláinn með flugeldi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0