Vestmannaeyjafjölskyldan

Við Valdís vorum að skoða myndir á Fb af fjölskyldunni í Vestmannaeyjum. Alveg stórfallegar myndir af fjölskyldunni og þar að auki vandaðar stofumyndir. Mikið rosalega er langt síðan við höfum farið á stofu. Það er líklega ekki síðan Valgerður varð stúdent og kannski stuttu eftir það. Í örfá skipti fórum við á stofu þegar börnin okkar voru börn og líklega var mamma þeirra eitt sinn ein með þau á stofu og ég ekki með. Það eru allt að 30 ár síðan. Svo vorum við að skoða myndir um daginn af frændfólki í Skaftafellssýslunni sem ljósmyndari tók og þær hljóta að hafa verið teknar fyrir um það bil 90 árum. Það er varla að ég trúi því en það bara er svona. Pabbi til dæmis þá ungur maður og hann er fæddur 1896. Hvað fólkið hefur verið duglegt þá og hvað Vestmannaeyjafjölskyldan var myndarleg að fara til ljósmyndara kringum hátíðarnar.


Hérna er árangurinn eftir ljósmyndastofuferðina þeirra í Vestmannaeyjum. Kristinn smiður í Noregi, Guðdís ungkona í Vestmannaeyjum, Valgerður forstöðukona, Erla fermingarstúlka og Jónatan kennari. Hvað er svo hægt að fara fram á meira, er þetta ekki glæsilegt?

Í vor förum við til Vestmannaeyja til að vera við fermingu Erlu. Þá verða tvö ár síðan við vorum við fermingu Guðdísar. Við getum ekki betur séð eftir myndinni að dæma en að á þeim tíma hafi Guðdís breytst úr fermingarstúlku í unga konu eins og ég sagði áðan. Ætlar fólk að fara að hlaupa yfir táningsárin eða hvað? Ég held að það sé meiri vandi að vera unglingur núna en þegar ég fermdist í jakkafötunum hans Þórarins eldri á Seljalandi fyrir 55 árum. Ég var svo heppin þá að hann átti glæný jakkaföt sem pössuðu alveg nákvæmlega á mig, en ég var þá í örum vexti á hæðina en minnkandi á breiddina.

En hvað um það, til hamingju með fínu myndirnar Vestmannaeyingar og hvað þið eruð fín á myndinni. Ég fæ kannski lánaðar fleiri síðar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0