Refskák

Í gær eftir að rafvirkinn hafði verið hér og tengt saman ótrúlegan fjölda rafleiðslna, sett upp rofa og tengla tók ég sparslgræjurnar mér í hönd og slípaði sparsl vandlega og lengi. Þá var ég svo óheppinn að hafa litið á íslensku fréttirnar og gat ekki látið vera að að spyrja skynsemi mína hvað eiginlega væri í gangi hjá íslensku stjórnarandstöðunni. Meðan ég hugleiddi þetta samdi ég í huga mér blogg um það. Svo fór ég á AA fund í Fjugesta í gærkvöldi og þegar ég kom heim hugsaði ég sem svo að það væri bara mannskemmandi fyrir mig að skrifa niður það sem ég hafði samið og ennþá fannst í huga mér. Á AA fundinum voru fimm menn og konur sem öll töluðu innilega frá hjartanu, en þau læti sem stjórnarandstaðan hafði enn einu sinni sett í gang komu ekki frá hjartanu. Þar er um að ræða refskák og refskák kemur ekki frá hjartanu. Þessi refskák er skemmdarverkastarfsemi á Alþingi Íslendinga til að koma í veg fyrir að uppbyggingarstarfið sem hefur verið í gangi á Íslandi geti haldið áfram. Það er auðvitað sárt fyrir stjórnarandstöðu að þeir sem eru í stjórn hafi gert það að verkum að árangursrík störf þeirra séu farin að vekja eftirtekt á fréttastofum út um heim og vera til umræðu á sjónvarpsskjáum miljóna manna og kvenna.

En samt settist ég niður og skrifaði  og það var eins og mig grunaði; ég hafði illt af því. Að hugsa sér að með þessu moldviðri og mörgum öðrum moldviðrum hafa þessir stjórnarandstöðuflokkar fengið hálfa þjóðina til að trúa á refskák sína. Litlir menn og konur með mikinn munn vita að nógu löng refskák gengur inn hjá fólki að lokum. Sorrý.

Ég hætti við að birta bloggið mitt frá í gær og sendi frekar út þessar línur en vil þó bæta einu við. Rafvirkinn spurði eftir ástandinu á Íslandi og þá ekki síst hvernig fólk hefði það. Ég gat ekki hugsað mér að segja honum sannleikann um íslensk stjórnmál en sagði í sem fæstum orðum að margir hefðu það ennþá erfitt eftir hrunið.

Ég hef illt af því að skrifa svona en ef ég sleppi því alveg verður annað sem ég skrifa meira og minna lygi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0