Að þakka fyrir allar góðar stundir

Þegar ég kíkti út í morgun var hæglætissnjókoma. Ég sá í slóðinni heim að húsinu að dýr hafði verið þar á ferðinni. Það er ekki venjan að hundar gangi hér lausir svo að ég lét mér detta í hug svangur refur. Hún Valdís geymir nefnilega kjötsúpupottinn þarna út á ákveðnum palli á kafi í snjó. Kannski hefur lyktin af honum lokkað munnvatn fram á svanga tungu. Það voru þó engin spor á þessum palli.

Ég lagði mig aftur og ákvað að lesa. Það var ekki endilega nauðsynlegt að draga það til kvöldsins. Að lokum hafði ég mig á fætur og eldaði hafragrautinn fyrir okkur og þá var klukkan að nálgast tíu. Þá kom Valdís í umferð, gekk beint að sjónvarpinu og kveikti á því. Það var að byrja messa. Já, einmitt, það var þrettándinn í dag. Síðan var það morgunverður og messa. Hann Per, Álendingurinn sem býr í Reykjavík, sagði á FB í morgun að íslendingar væru þeir einu sem hefðu ekki frí á þrettándanum.

Það var svo sem ekkert svo sérstakt sem stóð upp úr eftir þessa messu, bara venjuleg ágæt messa. En það var sjónvarpsmessa um áramótin og sú messa stendur upp úr, svo sannarlega. Hún byrjaði með því að við sáum á eftir ungri konu sem gekk rösklega fram að kirkjudyrum, opnaði og kallaði út "gjörið þið svo vel". Inn streymdi stór hópur af börnum og ungum unglingum. Þegar konan sem opnaði dyrnar sneri sér við gaf þar að líta mjög unga, ljóshærða konu með prestakraga, svo ung leit hún út fyrir að vera að mér datt fyrst í hug að þarna væri unglingur á ferðinni. Valdís vildi hins vegar meina að hún væri að nálgast þrítugt. Ég er alveg viss um að vegna barnaskarans hefur hún reynt að gera sig eins unglega og mögulegt var. Í kirkjunni sat þá þegar fjöldi fullorðinna sem einnig sat þessa messu.

Unga konan predikaði á alveg frábæran hátt og tókst að gera litríka flugu að boðbera og barnaskarinn starði á hana og hlustaði með gríðarlega stórum augum og galopnum eyrum. Barnakór söng og organistinn var strákur á fermingaraldri sem lék fimlega á þriggja nótnaborða orgel. Undirleik við síðasta sálminn annaðist annar strákur, ennþá yngri, og hann lék á sama þriggja nótnaborða orgelið.

En aftur að deginum í dag. Ég ætlaði að hefja smíðar og mundi ekki einu sinni eftir því að það var þrettándinn fyrr en Valdís kveikti á sjónvarpinu og þá ákvað ég auðvitað að horfa á messuna með henni. Jafnhratt og messunni lauk hófst sjónvarpsþáttur um fjórar konur sem búa einar hver á sinni eyjunni í finnska skerjagarðinum. Mér fannst sem ég yrði að sjá hvernig þessi þáttur byrjaði en hann varð svo forvitnilegur að ég gat engan veginn slitið mig frá honum. Yngsta konan fæddist 1981 og sú elsta 1938. Það kom eitt og annað fram hjá þessum manneskjum sem ég átti alls ekki von á. Þær voru ekki skrýtnar eða undarlegar á nokkurn hátt. Þær voru mjög hugsandi manneskjur og það var fróðlegt að hlusta á heimspeki þeirra.

Ein þeirra sagði að gæði lífsins byggðust á því að eiga mikinn kærleika. Önnur sagði að hún væri oft spurð hvers vegna í ósköpunum hún byggi ein á eyju. Fólk getur spurt eins og það vill, sagði hún, en mér dettur ekki í hug að spyrja fólk sem býr í stórborg hvers vegna það búi þar. Ein þeirra hafði verið spurð af manni sem kom í heimsókn til eyjunnar hennar hvenær hún hefði síðast verið í leikhúsi og ég tók það þannig að það hefði legið pínulítið háð í spurningunni. Það vildi reyndar svo til að hún hafði verið í leikhúsi rúmlega viku áður. Og hún spurði gestkomandi til baka hvenær hann hefði verið síðast í leikhúsi og hann svaraði því til að það væru ein fimm ár síðan. Hann sem sagt hefði átt að hafa vit á að spyrja ekki og aðlaga sig frekar að því andrúmslofti sem á eyjunni ríkti án stórborgarhroka.

Ég bara gat ekki slitið mig frá þessu, svo var komið hádegi og ég var ekki byrjaður að smíða. Víst byrjaði ég nokkru síðar og ég komst þokkalega í gang. Ég hlakka til eins og barnungi að allt húsnæðið verði tilbúið. Þá verður gaman að rölta inn í nýja herbergið og setjast í stól frá Varsam, þessa sem eru með örmum sem gott er að fá tak á og gott fyrir þá sem eru farnir að stirðna aðeins eða komnir eru með nýjan mjaðmalið. Horfa þaðan inn í iðjagrænan skóginn og hafa bók við hendina, líta aftur upp úr bókinni og sjá sólina setjast bakvið Kilsberen. Svo ef það skyldu koma gestir fá þeir að gista í þessu herbergi. Meðan gestir eru þarf ekki að setjast í stólinn frá Varsam til að horfa út um glugga eða lesa. Þegar gesti ber að garði gerum við eitthvað skemmtilegt með þeim í staðinn. Og hvað Valdísi áhrærir þá hefur hún átt tugi tonna af þolinmæði á þessum byggingartíma. Svo förum við út í nýju forstofuna fyrir háttinn, forstofuna sem er með glugga á þrjá vegu og þaðan lítum yfir héraðið til að sjá að allt sé í góðu gengi. Að því loknu verður gott að ganga til náða ásamt Óla Lokbrá og dreyma drauma um góðar stundir sem ellilífeyrisþegi. Svo má bara ekki gleyma að þakka fyrir allar góðar stundir.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0