Eins og það á að vera

Á gamlárskvöld hvarf síðasti snjórinn og frosthrímið af skógunum hér um slóðir. Við sáum eftir þessu því að það var hreinlega komið upp í vana að svona ætti það að vera. En í dag er búin að vera hæg og jöfn snjókoma og viti menn; allt er aftur orðið eins og það á að vera. Mér hefur ekki tekist í vetur að ná góðum myndum af svona jólasnjó. Ég segi jólasnjó því að ég man ekki betur en að í gamla daga hafi oft verið á ferðinni jólakort af slapandi grenigreinum hlöðnum snjó. Það var svo spennandi að skoða. Það var á þeim árum sem ég hélt að ég gæti verið skógarhöggsmaður og endað vertíðina með því að fleyta ægilegu magni af stokkum niður vatnsmiklar ár. En það var líka á þeim árum þegar ég hélt að ég mundi aldrei koma til útlanda þannig að skógarhöggsmaðurinn í mér var bara draumur. Í dag grunar mig að líkamsburðir mínir hefðu aldrei nægt til að stunda þessa hrikalega erfiðu vinnu eins og skógarhögg var á þeim árum.

Í dag er fyrsti dagurinn á nýju ári sem ég hef klæðst smíðagalla, farið út í nýbygginguna og tekið mér hamar og sög í hönd. Það var næstum uggur í mér hvernig það mundi vera að byrja, hvort allt mundi ekki verða önugt við mig. En nei, langt í frá. Það var gaman að komast í gang. Ég að vísu byrjaði seint, ekki fyrr en eftir hádegi. Það hefur verið ýmislegt smá annað sem hefur þurft að gera og við höfum tekið tíma í svoleiðis það sem af er ári. Svo þegar leið á eftirmiðdaginn fór að berast kunnugleg angan út til mín. Ég sá þá fyrir mér rjúkandi potta og djúpa diska fyllta með "Kjötsúpu Valdísar", þennan næringarríka rétt sem Valdísi er svo lagið að gera góðan með miklu, miklu og fjölbreyttu grænmeti. Þetta kvöld var sem sagt eitt af þeim sem ég borða mikið meira en ég get skilið að ég skuli geta komið niður. Núna er líkaminn í fullum gangi við að vinna úr þessu og undirbúa góðan dag á morgun.

Það er mikið gleðiefni hversu fáir hafa farist í umferðinni á síðasta ári. Árið 1970 fórust um 1070 manns í umferðarslysum en á síðasta áru nokkuð undir 300 manns. Alveg frábært. Það er hins vegar öllu leiðinlegra að hann Per Oskarsson leikari og konan hans brunnu inni um hátíðarnar. Það er mikil eftirsjá að Per. Hann var ekki bara góður leikari sem gat komið manni svo fullkomleg á óvart. Hann var líka mikill spekingur. Hann var nefnilega heilmikill heimsspekingur og spekúlant og í viðtölum sem við hann voru höfð gat hann komið verulega á óvart. Ég vona að eitthvað af þessum viðtölum verði endursýnd þegar frá líður og þá ætla ég að fylgjast með. Ég get ekki sagt frá neinu sem heitir af því sem ég hef heyrt hann segja en það var samt forvitnilegt og fróðlegt að hlusta á hann. Það er ekki alltaf það mikilvæga að muna svona lagað en það sem á sér stað innra með manni, áhrifin af orðunum, það er það mikilvæga. Með þau orð í huga ætla ég að fara að bursta og pissa og svo legg ég mig í hreinu rúmfötin sem hún Valdís setti á rúmið í morgun. Það verður góður félagsskapur þegar svefnhljóðin fara að heyrast og Óli Lokbrá og englarnir taka okkur að sér.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0