Páskaferð á níunda áratugnum

Þegar ég var búinn teygja úr mér í morgun og lesa texta dagsins dreif ég mig fram úr, að tölvunni og inn á ríkisútvarðið til að sjá hvernig Íslandi hefði reitt af í illviðrinu í nótt. Síðan fór ég inn á FB til að skoða myndir af Vestmannaeyjafjölskyldunni okkar. Meðan ég flakkaði milli myndanna þar heyrðist hvellur ofan af þaki líkur því sem eitthvað mjög sterkt hefði slitnað. Síðan heyrðust miklir skruðningar þegar einir tíu fermetrar af hálfs meters þykkum snjó rann niður af þakinu. Það var frostlaust og búið að vera alla vega í sólarhring.

Eftir morgunverðinn fór ég út og virti fyrir mér snjóinn á þakinu. Ég sá að við urðum að fá gönguleið fjær húsinu að útidyrunum bakdyramegin, en slóðin sem við höfum haft í tvo mánuði lá meðfram veggnum þar sem nú var hætta á að snjór félli í hana. Svo gerði ég það. Þegar ég hafði lokið mokstrinum og kom inn var Valdís að tala í símann. Annelie og Kjell ætluðu að líta inn eftir smá stund. Gott að vera búinn að moka nýja slóð. Svo komu Annelie og Kjell. Fyrst skoðuðum við nýbygginguna og svo gengum við bakvið húsið eftir nýju slóðinni og inn um þvottahúsdyrnar. Þegar við höfðum verið inni svo sem eina og hálfa mínútu heyrðust miklir skruðningar. Það hafði hrunið af húsinu bakdyramegin, niður í gömlu slóðina, og þar lá nú um 70 sentimetra djúpur hart pressaður snjór. Sá sem hefði orðið undir því hefði ekki verið jafn góður eftir í háls eða hryggjarliðum. Þvílíkt lán að hafa haft þessa fyrirhyggju og hallærislegt hefði það verið að ganga með fólkinu eftir slóðinni sem fylltist einhverri mínútu áður en snjórinn féll.

Á sama tíma og við vorum hér í blíðskapar veðri var vitlaust veður á Íslandi. Talandi um Vestmannaeyjafjölskylduna og myndirnar áðan var líka vitlaust veður á Norðurlandi um páska fyrir meira en tuttugu árum, en þá höfðu Valgerður og Jónatan ákveðið að koma og vera hjá okkur um páska.


Þá var sterklegi maðurinn sem á þessari mynd gætir systra sinna hjá ljósmyndaranum í Vestmannaeyjum um nýliðin jól bara lítill drengur. Líklega var það þannig að veður versnaði fyrr en spáð var, eða alla vega sluppu þau ekki norður yfir Öxnadalsheiði áður en stórhríð skall á. Farsímar voru ekki í hvers manns vasa á þessum árum en við vissum þó að þau höfðu lagt á heiðina og svo var ekki mikið annað að gera en að vona það besta. Ekki kann ég að segja frá ferðinni yfir Öxnadalsheiði, niður í Öxnadal og Eyjafjörð, en get þó sagt að þau lentu í samfloti með hjálpsömu fólki. Að lokum komust þau á Árskógssand og þá þurfti að senda eftir þeim þar sem þau náðu ekki áætlunarferðinni.

Það er eins og venjulega þegar ég skrifa um eitthvað að ég kemst í sterkari tengsl við minninguna og ég átta mig á því núna að mínúturnar liðu afar hægt meðan ekkert spurðist af ferðalöngunum. Það var líka mikill léttir að heyra að þau hefðu komið fram í byggð á ný. Ég mun hafa verið lasinn um þessa páska því að það lenti á Valdísi að fara tvisvar niður á bryggju í hríðarveðri, fyrst til að taka á móti Rósu sem þá var að koma heim úr skóla og svo aftur þegar ferðafólkið að sunnan loks komst út í ey. Valdís segir að það hafi verið alger þrautarganga fyrir hana eins og veður var þá.

Við töluðum við Dísu og Ottó í Hrísey í gær og þá sögðu þau að Gunnhikldur dóttir þeirra væri á leið til Dalvíkur frá Akureyri í virkilegu óþverra veðri. Það leyndi sér ekki að þeim var ekki alveg rótt og við skildum það vel, þekktum það af eigin raun.


Svo aftur til Vestmannaeyjasystkina, Erlu, Kristins og Guðdísar. Það virðist fara vel á þeim á þessari mynd eins og þeirri fyrri. Við vitum líka að það fer vel á með þeim og að þær systur elska stóra bróður afar mikið. Ég efa ekki að það er gagnkvæmt af hans hálfu. Þetta eru falleg börn Valgerður og Jónatan.

Þú mátt alveg kommentera Valgerður og segja aðeins nánar frá þessari ferð. Það væri fóðlegt að rifja þetta svolítið meira upp.


Kommentarer
Valgerður

Uss þetta ferðalega er í raun ekkert sem maður kærir sig um að muna sem foreldri. Álagið á okkur fullorðna fólkinu í þessari ferð var mikið og Kristinn mátti vart mæla í aftursætinu því við þurftum að hafa okkur öll við að sjá fram fyrir bílinn. Ferðalagið yfir Holtavörðuheiði var erfitt en slapp svo sem alveg. Svo kom auðveldur kafli þar til komið var í Varmahlíð í Skagafirði því þá tók við aftakaveður. Við vorum svo heppin að lenda á eftir rútu (einhvern tíma hefði það ekki talið kostur) og gátum elt hana. Það vildi nú samt ekki betur til en svo að þegar hún keyrði útaf þá gerðum við það líka. Það var þá sem lyftingakapparnir stoppuðu hjá okkur og tóku sig til og lyftu einfaldlega Opelnum okkar upp á veginn aftur (Kristinn lifði lengi á þeirri minningu). Áfram héldum við svo við lítið skyggni og tíðar útafferðir þar sem húsmóðirin mátti fara út og ýta bílnum inn á veginn aftur. Þetta lagaðist þegar komikð var niður í Eyjafjörð en þá vorum við örðin ansi blaut og köld og þá frekast undirrituð því ökumaður ýtir ekki nei það gera farþegar. Þá tók hins vegar við mikil hálka og snjóþæfingur á vegum. Einhvern veginn tókst okkur að komast langleiðina að afleggjaranum niður á Sand. Það var samt nokkru áður að við runnum út af veginum og hjá okkur stoppaði bíll og í honum maður. Hann varð þá svo hissa að við hefðum komist þetta á Opel Kadettað að hann ákvað að fylgja okkur það sem eftir var leiðar. Það endaði svo með að hann dró okkur afleggjarann niður á Sand því sá hluti hafði ekki verið ruddur. Ferjan var nýlega farin og henni var snúið við til að sækja okkur. Það var svo ekki fyrr en við komum heim í hús á Sólvallagötunni að Jónatan varð bæði sjóveikur og bílveikur og faðmaði Gustavsberg nokkra stund. Snjóbylurinn er ekki auðveldur að stara í heilan dag þegar maður á það til að vera sjóveikur. Við komumst heilu og höldnu alla leið en vorum ekki stolt af okkur sem foreldrum eftir þetta ferðalag. Kristinn skaðaðist þó ekki en langaði ekkert mikið í langferðalög í bíl fyrst á eftir.

kv

Valgerður

2011-01-12 @ 13:32:32
Guðjón Björnsson

Þetta var sem sagt mun verra en ég talaði um í blogginu enda var ég ekki með í för og mundi allt því öðru vísi. En þegar ég las það minntist ég þessa með lyftingamennina sem lyftu bílnum upp á veginn aftur og ég held að ég muni líka eftir þvi að Kristinn varð aðdáandi þeirra. Það var fróðlegat að fá þennan kommentar.



Kveðja, GB

2011-01-12 @ 21:03:47
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0